Tilveran

Veitingar

***
Silfurmoli í Hafnarfirði

Tilveran væri fjölsótt, ef hún væri í bænum. Reykvíkingar fara ekki til Hafnarfjarðar út að borða og Hafnfirðingar borða heima hjá sér. Samt heldur silfurmolinn við Linnetstíg áfram að bjóða of fáum gestum sífellt batnandi matreiðslu og elskulega þjónustu fyrir lágt verð að hætti Laugaáss, Fish Gallerys og Jómfrúarinnar í Reykjavík. Ef Hafnarfjörður væri menningarbær, mundi bæjarstjórnin heiðra staðinn á minnisstæðan hátt og reyna að efla veltu hans.

Tilveran býður súpu og aðalrétt í hádeginu fyrir allt frá 990 krónur og þriggja rétta máltíð á kvöldin fyrir 2650 krónur að meðaltali. Þá má velja um súpu eða salat í forrétt, fjóra fiskrétti og þrjá kjötrétti, kaffi eða ís á eftir. Val þriggja rétta af löngum aðalseðli kostar að meðaltali 4800 krónur.

Innréttingar eru óbreyttar að öðru leyti en því, að dúkar hafa verið teknir af borðum og staðurinn því ekki eins notalegur og áður. Skrítnu salt- og piparstaukarnir eru blessunarlega horfnir. Blóm og logandi kerti eru á borðum.

Hrásalat dagsins var ekki merkilegt, en betra en í Laugaási, aðallega jöklasalat, með rækjum og skinku úr bréfi, majónesi, tilbreyting frá hveitisúpu dagsins. Olífulía og edik voru á borðum. Blaðlaukssúpa var hóflega þykk, en ekki merkileg súpa. Fiskisúpa úr humarkrafti með rækjum og kræklingi var of þykk og of misþykk.

Allur fiskur var vel úti látinn og nákvæmlega rétt eldaður, bleikja, rauðspretta og steinbítur, allar tegundir pönnusteiktar. Fjögur flök af pönnusteiktri Þingvallableikju og rauðsprettu voru mun nettar og betur elduð en á Jómfrúnni, borin fram með hvítum kartöflum og hinu sívinsæla jöklasalati. Steinbíturinn var borinn fram með brúnni sósu.

Kaffi eftir matinn var stundum vont. Tilveran er ekki gullmoli í Hafnarfirði, en kannski silfurmoli. Hún er einn örfárra veitingastaða á landinu, sem kalla má frambærilegt fiskréttahús.

Jónas Kristjánsson

DV