Tímamót í frelsisstríði

Greinar

Íslenzku tryggingafélögin hafa frá manna minnum haldið fram, að tap sé á bílatryggingum. Þegar þau byrja að bregðast við samkeppni hins erlenda tryggingafélags á vegum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda, mun koma endanlega í ljós, að þau fóru með rangt mál.

Þegar tryggingafélögin munu halda fram nýjum fullyrðingum í vetur um bílatryggingar og samsetningu iðgjalda, er gott fyrir almenning að vita af reynslunni, að málsvarar þeirra hafa mikla æfingu í að halda fram hvaða ósannindum, sem þeir telja að gagni koma.

Tryggingafélögin hafa lengi haft með sér samráð um verð og vinnureglur til að hafa fé af almenningi. Þau hafa verið eins konar æxli í þjóðfélaginu vegna skorts á samkeppni. Þau hafa raunar verið skólabókardæmi um misnotkun á aðstöðu til fáokunar á þröngum markaði.

Illræmt var fyrir nokkrum árum, er tryggingafélögin tóku saman höndum um að setja sér eigin lög um meðferð skaðabótamála og verja þau stig af stigi í dómkerfinu í hverju málinu á fætur öðru. Þannig þvinguðu þau margan lítilmagnann til að semja um skertar bætur.

Auðvitað töpuðu tryggingafélögin öllum þessum málaferlum á öllum dómstigum. Þau töldu eigi að síður vera herkostnaðarins virði að reyna þannig til þrautar að hafa peninga af þeim, sem ekki höfðu mátt til að sækja mál gegn lögmannasveitum tryggingafélaganna.

Svo mikill er máttur tryggingafélaganna til illra verka, að þau gátu fengið Alþingi til að samþykkja ný lög um skertar slysabætur, samin af prófessor, sem hafði verið í hátekjuvinnu hjá bransanum. Þessi lög voru svo fráleit og einhliða, að síðar varð að endurskoða þau.

Nú er loksins komið tækifæri fyrir þjóðina til að losa um sig í harðvítugri bóndabeygju tryggingafélaganna. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur með ærinni fyrirhöfn tekizt að fá alvöru tryggingafélag frá London til að setja upp útibú á Íslandi á vegum félagsins.

Nýja tryggingafélagið hefur tekið til starfa og býður bílatryggingar, sem eru um það bil þriðjungi lægri en tryggingar þjóðaróvinanna. Það er sparnaður, sem nemur að meðaltali nálægt tíu þúsund krónum á hvern bíl á ári og jafngildir auðvitað stórauknum kaupmætti.

Miklu máli skiptir, að almenningur átti sig á þessu tækifæri til að losa um fjötrana. Margir munu sýna kvölurum sínum trúmennsku og bíða eftir, að þau lækki iðgjöld sín til að mæta samkeppninni. Þeir leggja lóð sitt á vogarskál fyrirtækja, sem hafa haft af þeim fé.

Okkur vantar núna erlend tryggingafélög til að ráðast á aðra þætti fáokunarinnar í tryggingunum, þegar íslenzku félögin fara að millifæra til bílatrygginga frá öðrum tryggingum og reyna þannig að láta tryggingataka á öðrum sviðum greiða herkostnað sinn af samkeppninni.

Ekkert er því til fyrirstöðu nema það sé skortur á beini í nefinu, að Húseigendafélagið vakni til lífs, safni félagsmönnum og bæti lífskjör þeirra með því að útvega hingað alvöru tryggingafélag frá útlöndum til að keppa við þjóðaróvinina um tryggingar húss og innbús.

Það er nýtt fyrirbæri hér á landi, sem þykir sjálfsagt í mörgum vestrænum ríkjum, að hagsmunafélög almennings taki sig saman í andlitinu og ráðist með breiðfylkingu gegn ýmsum þeim sérhagsmunum, sem lengst ganga fram í að halda niðri lífskjörum þjóðarinnar.

Vonandi leiðir tryggingaframtak Félags íslenzkra bifreiðaeigenda til árangurs og gefur knýjandi fordæmi í efnahagslegri frelsisbaráttu kúgaðrar þrælaþjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV