Tímamóta-toppfundur

Greinar

Líkur benda til, að Reykjavíkurfundur æðstu manna heimsveldanna um næstu helgi verði ekki aðeins árangursríkur, heldur marki beinlínis tímamót í öryggismálum jarðarbúa. Eftir harðskeytt vígbúnaðarkapphlaup komi tímabil samdráttar í viðbúnaði heimsveldanna.

Taka verður fram, að kenninga um hið gagnstæða hefur orðið vart, einkum í röðum áhrifamanna í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Sumpart er þar um að ræða eðlilega viðleitni til að halda vonum í skefjum, svo að endanleg niðurstaða fundarins valdi ekki vonbrigðum.

Einnig er því ekki að leyna, að sumir harðlínumenn í Washington gátu ekki dulið gremju sína. Þeir hafa lengi varað við slíkum toppfundi og sagt hann líklegan til að slæva tilfinningu Vesturlandabúa fyrir nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart Sovétríkjunum.

Svo virðist sem Reagan Bandaríkjaforseti hafi hætt að ráfa milli hinna ýmsu sjónarmiða og hafi hallað sér að sjónarmiðum utanríkisráðuneytisins og Schulz utanríkisráðherra, sem fyrir nokkru var á langvinnum fundum með Shevardnadze, hinum sovézka starfsbróður.

Áður en utanríkisráðherrafundir heimsveldanna hófust í New York í síðasta mánuði var orðið ljóst, að línurnar í ágreiningsefnunum höfðu skýrzt og gjáin milli aðila var ekki eins breið og áður hafði sýnzt. Margvíslegir fundir embættismanna höfðu miðað á leið.

Samkomulag tókst á fundum í Stokkhólmi um tilkynningaskyldu og eftirlit vegna herflutninga og heræfinga. Vel hafa gengið viðræður um, að heimsveldin komi upp viðvörunarstöðvum hver hjá öðrum til að reyna að koma í veg fyrir, að átök hefjist af slysni.

Slík atriði eru mikilvægust allra, enn mikilvægari en samkomulag um fækkun vopna. Á því sviði hefur einnig verið hreyfing í rétta átt, einkum um fækkun meðaldrægra kjarnaodda í Evrópu. Samkomulag um 100 slíka odda ætti að geta verið í burðarliðnum.

Flóknara er að semja um samdrátt langdrægra kjarnaeldflauga, enda ekki líklegt, að leiðtogar heimsveldanna komist langt á því sviði í Reykjavík um næstu helgi. Ennfremur er ólíklegt, að Gorbatsjov fallist á að slaka mikið til í hinum ýmsu mannréttindamálum.

Lykillinn að árangri hinna ýmsu funda, sem haldnir hafa verið, er, að Sovétmenn eru að byrja að átta sig á, að Bandaríkjamenn trúa engum loforðum og halda fast við, að skýrir samningar séu gerðir um virkt eftirlit með, að staðið verði við undirrituð loforð.

Þannig stóðu málin, þegar fundir utanríkisráðherranna hófust. Þeir töluðu að sjálfsögðu mikið um skipti á mönnum, það er njósnurum, gíslum og mannréttindasinnum, svo sem kunnugt er. Minna er talað um önnur umræðuefni, sem hljóta þó að hafa verið einhver.

Óhætt er að fullyrða, að toppfundurinn hefði ekki verið ákveðinn svona snöggt, ef ekki væri hægt að byggja á einhverjum árangri utanríkisráðherranna. Leiðtogarnir hefðu ekki getað samið um að hittast upp á hið sama og síðast, ­ um góð orð án innihalds.

Vel getur verið, að formlegum undirskriftum verði frestað til toppfundarins, sem halda á í Bandaríkjunum öðrum hvorum megin áramótanna. Vel getur verið, að í einstökum atriðum þurfi embættismenn málsaðila að koma sér saman um orðalag eftir toppfundinn hér.

Eftir stendur, að líklegast er, að Reykjavík verði staðurinn, þar sem leiðtogar heimsveldanna handsala stefnubreytingu í átt til aukins öryggis jarðarbúa.

Jónas Kristjánsson

DV