Síðustu mánuðina hef ég nokkrum sinnum haft aðstöðu til að glugga í tímaritið Séð og heyrt, sem er athyglisverðara en ég hélt. Þar eru frásagnir af raðsamböndum erlends afþreyingarfólks, sem virðist eiga óvenjulega bágt með náin tengsl við annað fólk. Þar sem sár skortur er á hliðstæðum bransa hér á landi, er blaðið fyllt upp með myndasögum af venjulegum íslenzkum lúðum, sem telja sig vera að gera sér glaðan dag. Ég gef mér, að útlendingarnir í blaðinu séu svokallað frægðarfólk í sínum bransa. Svo er greinilega ekki um íslenzka efnið í blaðinu. Af því að við lifum á tímum, þegar alltaf er verið að reyna að selja dagdrauma, finnst mér skondið, að unnt skuli vera að selja fólki vikulegt tímarit með myndum af örlítið hallærislegum hversdagsleika íslenzkra meðaljóna.