Tíminn stendur kyrr

Veitingar

Annað hvort er ég orðinn magur eða Ítalía feit, því að nú er pláss í bekkjum og stólum. Því get ég fylgt afastrákunum, sérfræðingum í pitsum og pöstum, sem segja þær svaka góðar á Ítalíu. Appelsín-glösin taka líka hálfan lítra og svo er íspinni ókeypis í eftirrétt. Fékk mér fisk dagsins að venju. Lúðan var fín, matreiðslan eins og fyrir rúmu ári. Smálúða með sveppum og blaðlauk í hvítvíns-rjómasósu og hvítum kartöflum. Tíminn stendur hér kyrr. Þröngur og notalegur og ætíð fullsetinn. Mikið skvaldur, ekta ítalskt. Gæðin traust, enda stjórna hér Ítalir. Pítsur og pöstur kosta 2350 krónur, fiskur 3250.