Davíð Oddsson fann ekki margt afreksverkið í drottningarviðtali helgarblaðs DV um tíu ára feril sinn í forsætisráðuneytinu. Ríkisbáknið hefur gengið sinn vanalega gang með rólegum framförum, svo sem aukinni opnun þjóðfélagsins og aukinni aðild að umheiminum.
Margt það bezta, sem gert hefur verið þennan áratug, er afleiðing aðildar okkar að fjölþjóðlegum samtökum, sem gera kröfur til félagsmanna. Þannig hefur réttlæti aukizt í dómkerfinu og skilvirkni framkvæmdavaldsins aukizt með skýrari, opnari og réttlátari reglum að utan.
Forsætisráðherra hefur hins vegar sjálfur lítið gert til að láta rætast draum sinn um alþjóðlegt viðskiptaumhverfi á Íslandi. Það væri verðugt verkefni, sem mundi magna tekjur fólks, en til þess þarf markvissari aðgerðir en ríkisstjórnin hefur reynzt fær um að framkvæma.
Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að ný störf verði eingöngu til í nýjum og litlum fyrirtækjum, en ekki í grónum stórfyrirtækjum. Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að hátekjustörf verði helzt til í nýjum atvinnugreinum, en ekki í hefðbundnum greinum.
Stjórnvöld geta á ýmsan hátt stuðlað að framþróun af þessu tagi, en það hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki gert. Þvert á móti hefur hún verið upptekin af vandræðum hefðbundinna greina og reynt að binda fjármagn þjóðarinnar í málmbræðslu austur á fjörðum.
Stjórnvöld gætu til dæmis veitt öllum, sem hafa vilja, ókeypis gagnaflutning um símalínur innan lands og til útlanda, rétt eins og nú er ókeypis aðgangur að vegum landsins. Slíkt vegakerfi gagnaflutninga mundi stuðla að stofnun fjármála- og hátæknifyrirtækja hér á landi.
Stjórnvöld gætu til dæmis gefið öllum Íslendingum tölvur og látið kenna þeim að nota þær. Skólakerfið gæti breytt áherzlum sínum yfir í nám í fjármálum, stjórnun og tölvufræði á öllum stigum skólakerfisins til að gera Íslendinga gjaldgenga í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Stjórnvöld gætu til dæmis reynt að hafa kjark til að koma á flötum og lágum sköttum, til dæmis 25% tekjuskatti einstaklinga og 15% virðisaukaskatti, svo og lágsköttun fyrirtækja til að laða hingað aðila, sem vilja forðast hátekju-refsiskatta sumra nágrannaríkjanna.
Engu slíku hefur ríkisstjórnin sinnt að neinu gagni. Hún treður marvaðann í hvalveiðimálum, skipuleggur fiskveiðar niður í smæstu atriði, reynir kerfisbundið undanhald í landbúnaði og berst með klóm og kjafti fyrir bindingu dýrmæts fjármagns í nítjándu aldar iðnaði.
Ríkisstjórnin greip ekki einu sinni tækifæri mála Árna Johnsens til að auka gegnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu. Davíð Oddsson neitar að sjá, hvernig núverandi kerfi er ávísun á vandamál af tagi Árna, og heimtar að sjá eingöngu persónulegt vandamál eins manns í kerfinu.
Stjórnvöld gætu til dæmis komið upp traustari reglum og harðara eftirliti í stjórnsýslunni, svo sem með meiri útboðum ríkisins og gegnsærri fjármálum stjórnmála. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar neitar hins vegar staðfastlega að fylgja fordæmi Vesturlanda á þessum sviðum.
Af eyðunum í drottningarviðtalinu við Davíð Oddsson má sjá, að hann rekur fremur íhaldssama ríkisstjórn, sem er upptekin af fortíðarmálum og pólitísku þrasi við stjórnarandstöðuna um nánast einskisverða hluti. Forsætisráðherra kann raunar bezt við sig í leðjuslagnum.
Þegar fram líða stundir munu menn gleyma áratug Davíðs Oddssonar við stjórnvölinn. Ríkisstjórn hans hefur engan sérstakan framtíðartilgang. Hún er bara þarna.
Jónas Kristjánsson
DV