Tíu þúsund morgunfyllirí

Greinar

“Eruð þið ekki hress” eru einkunnarorð sumra síkátra þátta- og skemmtistjóra í útvarpi og sjónvarpi. Auglýsingar snúast margar um meinta hressu og fjör markhópsins. Einkum á þetta við um mál, sem helzt eru ætluð ungu fólki, sem langar til að verða hresst.

Með þessu er óbeint verið að koma því inn hjá fólki, að það eigi alltaf að vera hresst, þótt slíkt ástand sé í hæsta máta óeðlilegt. Eðlilegt er, að fólk sé stundum hresst og stundum ekki. Lífið er blanda af blíðu og stríðu. Sársaukinn verður seint gerður útlægur með lyfjum.

Fólk telur sig þurfa að ná í geðbreytilyf til að fullnægja kröfu umhverfisins um síhressu. Kaupsýslumenn á Manhattan nota margir hverjir kókaín til að geta djöflazt áfram með bros á vör í svo sem einn áratug, áður en þeir hrynja niður og verða að grænmeti á hæli.

Brennivínið er hefðbundið geðbreytilyf Íslendinga. Með því tekst okkur að vera hress í samkvæmum um nokkurra ára eða áratuga skeið, unz kemur í ljós, að geðbreytilyfið er fíkniefni, sem kallar á meira og meira, en nær samt minna og minna af upprunalegum áhrifum.

Fyrir nokkrum áratugum taldi ungt fólk, að til væru vímuefni, sem ekki hefðu eins ömurlegar afleiðingar og áfengi. Eftir nokkurn tíma kom í ljós, að þessi efni fara mun hægar úr líkamanum en áfengið og eru því erfiðari viðfangs, þegar menn verða að reyna að hætta.

Á allra síðustu árum hefur læknadóp tekið við sem lausnarorð Íslendinga, einkum gleðipillan prozak og ýmsar útgáfur hennar. 20.000-30.000 landsmenn eru taldir nota þetta þunglyndislyf einhvern tíma á árinu. Á hverjum morgni taka 10.000 manns inn vímuefnið prozak.

Með hjálp lækna eru 10.000 manns komin á fyllirí strax að morgni á virkum degi. Notkun slíkra lyfja hefur tvöfaldazt hér á landi á fjórum árum og er nú tvöfalt meiri en á Norðurlöndunum, þar sem menn eru líka drjúgir við að þurfa lyf til að horfast í augu við daginn.

Aðstoðarlandlæknir telur sér trú um, að þessi nýju lyf séu án aukaverkana. Hann skilur ekki það eðli geðbreytilyfja, að þau eru fíkniefni, sem kalla á meira og meira magn um leið og áhrif þeirra fara minnkandi með langvinnri notkun. Aukaverkanir prozaks verða hrikalegar.

Eftir um það bil áratug verða meðferðarstofnanir fullar af fólki, sem hefur glatað jafnvægi vegna ofnotkunar á prozaki, nákvæmlega eins og þær eru núna fullar af fólki, sem er þar út af amfetamíni og hassi, og alveg eins og þær voru áður fullar af ofnotendum áfengis.

Það er nefnilega ekki ókeypis að verða við kröfu umheimsins um að vera hress og helzt síhress. Geðbreytilyf eiga öll það sameiginlegt að vera fíkniefni, hvort sem þau heita alkóhól, amfetamín eða prozak. Fólk ánetjast geðbreytilyfjum og getur ekki hætt að nota þau.

Með öllum þessum lyfjum er verið að reyna að vinna gegn mannlegu eðli. Það er verið að framleiða hressu, sem ekki byggist á náttúrulegum orsökum. Það er verið að hjálpa fólki við að verða við kröfu umheimsins um að vera sífellt með bros á vör og til í fjörið.

Ef hægt væri til lengdar að stjórna geði fólks með prozaki eða fyrirrennurum þess, væri hægt að búa til hryllingsþjóðfélag, þar sem fólk gengur í leiðslu og lætur hvað sem er yfir sig ganga. En mannlegt eðli krefst þess að fá stundum að vera þunglynt og kvíðafullt.

Heilbrigðisyfirvöld leiða okkur í mikinn háska með stjórnlausri niðurgreiðslu nýjustu fíknilyfja án tillits til síðari kostnaðar við að brjótast undan fíkninni.

Jónas Kristjánsson

DV