Tízkan er ljót

Greinar

“Tízkan er svo ljótt fyrirbæri, að skipta þarf um hana á hálfs árs fresti”. Þessi kaldhæðnislegu ummæli Óskars Wilde fyrir einni öld eiga ekki síður við í nútímanum, hvort sem um er að ræða axlapúðatízku karla og kvenna eða einhverja aðra forgengilega og fáránlega tízku.

Fyrir skömmu birtust í blaði tillögur fatahönnuða um tízkufatnað handa nokkrum þjóðkunnum mönnum. Hætt er við, að engum þeirra dytti í hug að láta hafa sig að fífli með þeim hætti, sem þar var lagt til.

Athyglisvert er, að tízkufatnaður þessi tók ekkert tillit til hlutfalla mannslíkamans og að teikningar, sem fylgdu, sýndu hann í afkáralegum hlutföllum. Það er einmitt einkenni slíkra teikninga og hefur verið svo lengi, sem elztu menn muna.

Tízkan er orðin að umfangsmiklum iðnaði, þar sem mikið er í húfi. Um heim allan hafa risið öflug tízkuhús með fjölmennri sveit hönnuða og annars starfsfólks. Tízkublöð eru útbreidd og fjölskipuð grein tímaritaútgáfu, svo sem sjá má í bókabúðum landsins.

Íslendingar taka þátt í þessum leik. Ullartízkan hefur stuðlað að velgengni fataiðnaðar okkar á síðustu árum. Og nú hefur hnignun ullartízkunnar valdið þessum iðnaði kárínum, svo sem dæmið af Álafossi sýnir.

Tízkan er svo vel skipulögð, að á undanförnum vikum hafa tízkuhúsin frægu verið að kynna tízku næsta hausts og vetrar. Úrelding verðmætanna, sem felast í fatnaði, er ekki tilviljanakennd, heldur skipuleg, svo að sem örast megi selja sporgöngufólki nýjan fatnað.

Tízkufólkið telur sig vera sjálfstætt framúrstefnufólk. Í rauninni er það ósjálfstætt. Tízkan er eins konar þrælahald, þar sem sporgöngufólk er neytt til að taka við tilskipunum frá París, New York eða Tokyo, þar sem eigendur tízkunnar sitja og raka saman fé.

Meðal þrælanna ríkir svo auðvitað stéttaskipting. Þar felst eins konar stöðutákn í að vera fyrri en hinir til að taka við skipunum þrælahaldaranna. Margir greiða stórfé fyrir það stöðutákn að fá að auglýsa þrælkun sína með þessum hætti.

Heimili geta haft mikinn kostnað af sporgöngunni. Einkum eru ósjálfstæðir unglingar viðkvæmir fyrir tízkunni. Ekki er laust við, að auglýsingar fermingartímabilsins fyrir páska hafi reynt að ýta undir hinar ósjálfstæðu langanir sporgöngufólks á táningaaldri.

Tízkan er annars eðlis en stíll, sem breytist hægt, á nokkrum áratugum eða öldum. Í byggingarlist hefur nytjastíll ríkt meira eða minna í rúmlega hálfa öld og í myndlist hefur tjástíll ráðið jafn lengi. Breytingar á stíl standa yfirleitt föstum fótum á einhverjum grunni.

Rómanski byggingarstíllinn var öðrum þræði burðarþolsfræði, eins og gotneski stíllinn var með oddbogum sínum og svifsteigum. Með svipuðum hætti má finna röksemdir fyrir stíl í myndlist og öðrum greinum, þar á meðal raunar einnig í hefðbundnum fatnaði.

Stíll í fatnaði ætti nokkurn veginn að endast fólki ævilangt. Hann á ekkert skylt við hina skipulögðu úreldingu, sem felst í tízku, er breytt er af fjárhagsástæðum á hálfs árs fresti. Enda þarf ekki að breyta stíl á hálfs árs fresti, því að hann er ekki ljótur.

Ekkert er við að athuga, að fólk hafi atvinnu af tízku. En hinir, sem gætu orðið fórnardýr tízkunnar, þurfa að vita, að sjálfstæðan vilja þarf til að hafna forskrift þrælahaldara tízkuhúsanna, auk þess sem það sparar töluvert fé, er nota má í annað en sókn eftir vindi.

Jónas Kristjánsson

DV