Tjörnin

Veitingar

Neistaflug hefur minnkað í eldhúsi Tjarnarinnar við Templarasund. Þar fékk ég tæplega útvatnaðan og þurran saltfisk að hætti þeirra húsmæðra, sem elduðu í gamla daga af því að þær urðu að elda.

En þar fékk ég líka ljúfan kola pönnusteiktan, afar franskan, með mildri tarragonsósu, stinnum hrísgrjónum og kartöflum. Einnig meyra og fínlega blálöngu með mildri grænpiparsósu, gulrótarþráðum og baunum.

Bilunareinkenni sjást hér og þar. Kryddblönduð og uppvafin bleikjuflök í turni voru sniðug að sjá, en þurr undir tönn. Aftur á móti var ristaður smokkfiskur meyr og fínn, með tómati, hæfilega litlu karríi og ítölsku blaðsalati.

Tjörnin hefur að undanförnu gert bezt í ýmsu öðru en fiski. Stórir furusveppir íslenzkir með hæfilega litlum granaosti og madeirasósu voru hápunktur máltíðarinnar, undursamlegir í bragði. Grænmetisréttur dagsins var líka frábær, fínlegur baunaréttur með mildri sósu og góðu heildarsamræmi í bragði.

Matreiðsla kjöts hefur raunar batnað við brottför Rúnars. Lambasteik með döðlum og rauðvínssósu var rósrauð og fínleg. Reyksoðinn svartfugl var fallega upp settur í stjörnu ofan á eplasalati, með doppum af piparrótarsósu og jarðarberjum í kring.

Auk þess að hafa fjarlægzt fisk má segja um matreiðslu Tjarnarinnar, að yfirleitt er hún næm eins og var hjá Rúnari, en fínlegri og daufari að frönskum hætti. Undantekningar eru til, svo sem skemmtilega indversk og mögnuð lime-karrí-kókossúpa dagsins.

Eftirréttir eru fáir en góðir. Fyrst er fræga að nefna gamla gúmmulaðið, súkkulaðitertu Rúnars. Bezt var raunar loftkennd Grand Marnier skyrkaka, notalega létt í maga. Ísinn var aftur á móti hversdagsleg tvenna með súkkulaðisósu.

Fyrir rúmu ári var Tjörnin bezta veitingahús landsins eftir að hafa í nokkur ár skipzt á um að hafa forustuna með Listasafninu á Holti. Nú virðist Tjörnin endanlega hafa gefið forustuna eftir og raunar annað sætið líka, gerir oftast vel, en ekki alltaf og mistekst raunar stundum.

Bilunin er ekki bara í matnum. Farið er að spara í fleiru en munnþurrkum í hádeginu. Settur var á vaktina ungþjónn, sem hafði ekki hugmynd um, hvað var í matnum á matseðlinum. Síðan komu elskulegar þjónustustúlkur og björguðu málum. En til eru staðir í bænum, þar sem starfsfólk veit, hver pantaði hvað.

Verðlag hefur lengi verið fast á Tjörninni. Þríréttað með kaffi kostar 3.560 krónur og súpa og réttur dagsins í hádeginu kosta 1.000 krónur.

Andrúmsloft afturhvarfs frá hvimleiðum nútíma er ekki eins notalegt og áður. Ég efast um, að samræmdur litur blár á panilveggjum og undirdúkum þjóni afturhverfinu. Áður höfðu haldið innreið sína samræmdar ljósakrónur.

Jónas Kristjánsson

DV