Tóbakið svælt út

Greinar

Írar hafa fyrstir þjóða í Evrópu bannað reykingar á vinnustöðum og veitingastöðum. Þeir fylgja þar fordæmi New York og Kaliforníu, þar sem slíkar reykingar hafa verið bannaðar í nokkur ár. Búizt er við, að Norðmenn fylgi í kjölfar Íra um mitt árið og síðar gervallt Evrópusambandið.

Góð er reynslan af banninu vestan hafs. Ekki rættust illar spár um minnkaða aðsókn að vínveitingastöðum og kaffihúsum. Opinberar tekjur af greininni hafa hækkað og skráðum starfsmönnum hefur fjölgað. Í Kaliforníu hafa tekjur hins opinbera hækkað úr 25 milljörðum í 37 milljarða dollara.

Þar sem hrakspár eigenda veitingastaða í New York og Kaliforníu hafa ekki rætzt, má reikna með, að ekki verði tekið mark á hrakspám írskra kráareigenda. Andstæðingar tóbaks eru komnir í mikla sókn og hrekja vágestinn úr einu víginu í annað. Siðbótin ryðst fyrr eða síðar til Íslands.

Staðreyndin er nefnilega sú, að mikill meirihluti þeirra, sem vilja sækja veitingastaði, kæra sig ekki um, að þar sé reykt. Þess vegna eru viðskiptamenn þessara staða færri en ella, einkum kaffihúsa, sem sum hver eru slík reykhús, að venjulegt fólk hættir sér alls ekki þar inn fyrir dyr.

Mannfallið talar sínu máli um skaðsemi tóbaks. Yfirvöld heilbrigðismála í Bandaríkjanna telja, að nikótín sé annar af tveimur stóru eiturkóngum nútímans. Þar deyja 435.000 manns árlega af völdum tóbaks og 400.000 af völdum ofáts. Aðeins 85.000 deyja af áfengi og 17.000 af eiturlyfjum.

Nikótín og sykur eru því hvort um sig fimm sinnum skaðlegri heilsu þjóða en alkóhólið í áfengi, sem aftur á móti er fimm sinnum skaðlegra heilsu þjóða en ólögleg eiturlyf. Fáir hafa gert sér grein fyrir þessum skýru stærðarhlutföllum, sem valda harðari sókn heilbrigðisstofnana gegn tóbaki og ofáti.

Háar sektir eru við brotum gegn nýjum tóbakslögum Írlands. Sektir fyrir að reykja á vinnustöðum og veitingastöðum geta numið rúmlega 250.000 krónum. Það er því ljóst, að ekki er neinn barnaleikur að andæfa gegn banninu. Upphæðin segir til um, hversu alvarlegum augum er farið að líta á tóbakið.

Þótt lífeyrissjóðir og ellilaunakerfi ríkisins hagnist á ótímabærum dauða reykingamanna, tapar ríkið verulegum fjármunum á móti, af því að þeir deyja margir hverjir á afar kostnaðarsaman hátt á sjúkrahúsum, sem eru rándýr í rekstri. Reikningdæmi velferðar er því í heild óhagstætt tóbakinu.

Því má fara að hlakka til, að tóbaksstríðið berist til Íslands. Þá verður loks þorandi að kíkja inn á kaffihúsin, sem mörg eru sögð hafa ágætis kaffi, sem drepur fáa.

Jónas Kristjánsson

DV