Töfrabúgreinar?

Greinar

Aukin ferðaþjónusta bænda og aukin hrossarækt þeirra er ekki lausn á samdrætti hefðbundins landbúnaðar í sauðfé og nautgripum. Ferðaþjónusta og hrossarækt eru sérhæfðar og þegar ofsetnar atvinnugreinar, sem ekki búa yfir markaði handa mörgum nýliðum.

Á sínum tíma sá kerfið lausn í loðdýrarækt og jafnvel fiskeldi. Strax í upphafi bentu utankerfismenn á, að slíkir draumórar mundu ekki rætast. Reynslan af loðdýrarækt og fiskeldi ætti að kenna mönnum að varast óra kerfisins um gróða af ferðaþjónustu og hrossarækt.

Ekki þarf mikinn hagfræðing til að reikna, að tekjur ferðabænda geta ekki staðið undir miklum stofnkostnaði við búháttabreytingu. Varhugavert er að hvetja bændur til nýsmíða og annarra viðamikilla útgjalda í von um, að ferðamenn komi síðan nánast á færibandi.

Ferðaþjónusta getur orðið arðbær hjá fólki, sem hefur í fyrsta lagi sérstakar aðstæður til að bjóða ferðafólki, svo sem veiði, golf eða útreiðatúra. Í öðru lagi laust húsnæði, sem ekki kostar mikið að breyta. Í þriðja lagi þekkingu og innsæi í umgengni við ferðafólk.

Ef öllum þessum þremur skilyrðum er fullnægt, er auðvitað til mikilla bóta, að vera þegar búinn að starfa í greininni um nokkurn tíma og ná þannig niður stofnkostnaði og öðrum útgjöldum, sem fylgja fljótlega á eftir án þess að miklar ferðaþjónustutekjur komi á móti.

Margir ferðabændur hafa byggt þjónustuna upp með því að hafa öll skilyrði í lagi og með því að taka öll laun sín af öðrum búgreinum á uppbyggingartímanum. Þótt sumum þeirra vegni sæmilega að þessu loknu, er ekki unnt að reikna með, að nýliðum í greininni vegni vel.

Svipaðar reglur gilda um hrossaræktina. Bændur á því sviði þurfa þekkingu og innsæi; þeir þurfa að búa við hagstæð skilyrði í húsum og búnaði, þannig að stofnkostnaður sé að mestu afskrifaður; og þeir þurfa að byggja á traustum ræktunarmerg kynslóðanna.

Sumir hrossabændur geta lifað af starfi sínu og sömuleiðis nokkur fjöldi tamningamanna og þjálfara, svo og ekki sízt örfáir sölumenn, sem finna markað fyrir reiðhross hér heima eða í útlöndum. Þessi markaður hefur vaxið ágætlega, en tekur engum stökkbreytingum.

Í báðum þessum greinum getur fólki vegnað sæmilega við þau skilyrði, sem ríkt hafa undanfarin ár, er markaður hefur vaxið jafnt og þétt. Farsælast er, að byggt verði sem mest á þeim grunni, sem þegar er fenginn, en ekki sé verið að ýta óreyndu fólki á flot.

Greinar af þessu tagi eru háðar sveiflum, sem oft fylgja frjálsum markaði. Tímabundinn samdráttur getur riðið skuldsettum nýliðum að fullu, þótt hinir lifi af, sem eru búnir að koma sér fyrir. Þess vegna á kerfið að fara varlega í að ýta fólki í ferðaþjónustu og hrossarækt.

Reynsla Íslendinga og annarra segir, að bezt sé, að atvinnugreinar þróist og dafni að innan, en ekki með handafli hins opinbera, þar sem menn eru reiðubúnir að taka trú á hverja nýja töfragreinina á fætur annarri. Þetta gildir víðar en í landbúnaði einum.

Ánægjulegt er, að ferðaþjónusta og hrossarækt skuli hafa fest rætur í þjóðfélaginu og geta veitt fólki tekjur, sem það stendur sjálft undir, en ekki skattgreiðendur landsins. En jafnframt er skynsamlegt, að hinir hæfustu fái að vera í friði við að byggja upp þessar greinar.

Offramboð af hálfu nýliða, sem vanir eru sjálfvirkri afsetningu mjólkur og kjöts, verður aðeins til þess, að botninn dettur úr markaðinum og allir verða fyrir tjóni.

Jónas Kristjánsson

DV