Tólf ára þrælkun

Greinar

Formaður Alþýðuflokksins hefur rétt fyrir sér, þegar hann segir siðlaust að gera nýjan búvörusamning milli ríkis og samtaka landbúnaðarins. Jón Baldvin Hannibalsson hefur líka á réttu að standa, þegar hann segir, að gerð núverandi búvörusamnings hafi verið siðlaus.

Það var stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar, sem gerði þennan illræmda samning einum mánuði fyrir síðustu kosningar. Með samningnum batt gamla ríkisstjórnin hendur nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar.

Samningurinn var til fjögurra ára og hefur legið eins og mara á tveimur ríkisstjórnum, fyrst stjórn Þorsteins Pálssonar og síðan stjórn Steingríms Hermannssonar. Samningurinn kom endanlega á ríkisrekstri á búskap með kýr og kindur og kostar nærri tíu milljarða á ári.

Stéttarsamband bænda vill hafa vaðið fyrir neðan sig, þótt þrjú ár séu eftir af samningstímanum. Það hefur krafizt nýs búvörusamnings, sem gildi tvöfaldan tíma, það er að segja í átta ár, frá árinu 1992 til ársins 2000. Fjögurra ára ánauð á að verða að tólf ára ánauð.

Alþýðuflokkurinn hefur fyrir sitt leyti ekki algerlega hafnað hugmyndinni um nýjan búvörusamning, en vill ekki, að hann feli í sér, að ríkið kaupi meira magn á hverju ári en sem nemur sölu ársins áður. Það væri nokkur bót á núverandi ástandi, en ekki mikil bót.

Offramleiðsla á dilkakjöti hefur leitt til aukinnar örvæntingar ríkisins við að reyna að koma út umframbirgðunum. Hin ýmsu tilboð, sem neytendur hafa fengið á síðustu misserum, eru að meira eða minna leyti á kostnað ríkisins, það er að segja skattgreiðenda.

Offramleiðslan hefur líka leitt til aukinnar skekkju í verðmyndun matvæla. Reynt er að koma út dilkakjöti á kostnað annars kjöts og annarra matvæla, sem gjarna eru skattlögð til að styðja dilkakjötið. Þannig hefur verið sett kjarnfóðurgjald á svínakjöt og kjúklinga.

Ef ríkið mundi samkvæmt tillögum Alþýðuflokksins kaupa á hverju ári sama magn og unnt var árið áður að troða inn á markaðinn með handaflsaðgerðum ríkisins á kostnað skattgreiðenda og framleiðenda annarra matvæla, væri hætt við, að offramleiðslan héldi áfram.

Tillögur Alþýðuflokksins um að takmarka niðurgreiðslur við dilkakjöt og að hætta niðurgreiðslum á mjólk, svo og að lækka kjarnafóðurskattinn, eru spor í rétta átt, en gera þó í stórum dráttum ráð fyrir, að verulegir þættir hins spillta kerfis fái að halda áfram.

Einna athyglisverðast í tillögum Alþýðuflokksins er, að rýmkaðar verði heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum, svo að þjóðin geti notfært sér hvort tveggja, lágan framleiðslukostnað í útlöndum og tilraunir auðþjóða til að losna við sína offramleiðslu.

Alþýðuflokkurinn hefur áður veifað sjónarmiðum af þessu tagi án þess að gera tilraun til að fylgja þeim eftir í stjórnarsamstarfi. Ekki er hægt að treysta, að tækifærissinnaður og veiklundaður flokkur á borð við Alþýðuflokkinn geri mikið úr stóru orðunum.

En óneitanlega er haldlítill Alþýðuflokkur samt betri kostur en Framsóknarflokkarnir þrír eða fjórir, sem treysta má til illra verka í landbúnaði, enda er einn þeirra, Sjálfstæðisflokkur, beinlínis höfundur að landbúnaðarþrælkuninni, sem þjóðin hefur verið hneppt í.

Fyrr eða síðar kemst einhver flokkur að raun um, að harkan sex í vörnum gegn þrælahaldinu er líkleg til að afla fylgis hjá neytendum og skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson

DV