Tólf mínútur

Greinar

Hinn guðdómlegi forsætisráðherra okkar þoldi forustumenn stjórnarandstöðunnar í tólf mínútur. Þar af talaði hann sjálfur í sex mínútur. Þegar andstæðingarnir höfðu talað í tvær mínútur á mann, var honum nóg boðið. Hann sagði fundinum slitið og æpti á þá að hypja sig út í hvelli.

Þetta var ekki bara götustrákurinn að snapa fæting. Þetta var götustrákurinn, sem var orðinn að kóngi, er lítur á það sem hegðunarvandamál, ef einhver lýsir andstöðu við skoðanir hans. Þetta var maður, sem var orðinn ófær um að juða mönnum til samkomulags, ófær um að vera sáttasemjari stjórnvalda.

Utanríkisráðherra fannst þetta greinilega fyndið. Hann brosti meira að segja í sjónvarpinu í fyrsta skipti síðan í kosningabaráttunni fyrir ári. Honum fannst fyndið, að forsætisráðherra skyldi varpa stjórnarandstöðunni á dyr eftir tólf mínútna samvist um aðalmál ríkisstjórnarinnar.

Auðvitað er ekki allt í lagi með þessa menn. Ekki er heldur allt í lagi með viðhlæjendur forsætisráðherra í hans eigin flokki, sem finnst gott að hafa götustrák með kórónu fyrir leiðtoga. Ekki er gott, þegar pólitíkin er orðin eins og Davíð Oddsson hefur gert hana hér á Íslandi, að leðjuslag.

Það er ekki bara, að stjórnmálaflokkarnir séu orðnir að eins konar fótboltafélögum, þar sem menn halda með sínu liði, hvað sem tautar og raular. Þeir eru orðnir að götuklíkum, þar sem öll brögð eru leyfileg, þar sem heimurinn skiptist í okkur og svo alla hina, sem eru ekki einu sinni mennskir.

Nú hafa landsfeðurnir handvalið sér nefnd minni háttar lögfræðinga á skrifstofum Jóns Steinars og annarra slíkra sérfræðinga í mannlegum samskiptum. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um atkvæðagreiðslu, sem feli í sér, að stjórnarsinnar geti greitt atkvæði með því að sitja heima.

Götustrákum með og án kóróna þykir það fínasta ferli að haga þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á þann hátt, að stuðningsmenn geti ráðið niðurstöðunni með því að sitja bara heima og draga þátttökuna niður fyrir einhverja prósentu, sem verður að vísu lægri en 75% dómsmálaráðherrans.

Tillaga Björns Bjarnasonar um 75% þáttöku sem skilyrði er dæmigerð fyrir hugsunarhátt liðsins, sem stendur þétt að baki leiðtoganna, sem stjórna landinu með ofsa og illindum. Hún er dæmigerð fyrir rustana við dúkuðu borðin að baki skilrúmanna, dæmigerð fyrir þá, sem beita símahótunum.

Þjóðin getur nú farið og er farin að átta sig á, að henni er stjórnað af götustrákum, sem hafa náð svo miklum völdum, að þeir hafa ruglazt í ríminu og glatað jarðsambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV