Tölurnar eru á borðinu.

Greinar

Aðferðafræði DV í skoðanakönnunum hefur sigrað í fjölmiðlaheiminum. NT telur til dæmis könnunum sínum til gildis, að þar sé beitt nákvæmlega sömu aðferðum og gefið hafa góðan árangur í DV. Reynslan er bezti dómarinn í þessu sem öðru, hvað sem öfundarmenn segja.

Síðasti móhíkaninn er raunar framsóknarþingmaðurinn Haraldur Ólafsson. Hann sagði nýlega í blaðagrein, að DV birti ekki næga fyrirvara með könnunum sínum, aðferðin væri varasöm og í henni væri innbyggður galli, er meðal annars lýsti sér í vanmati á fylgi Framsóknar.

Allt er þetta rangt. DV leggur jafnan mikla áherzlu á að vekja athygli á takmörkunum skoðanakannana af þessu tagi. Aðferðin er ekki varasöm, heldur traust, svo sem komið hefur í ljós í kosningum á kosningar ofan. Aðferðir DV í skoðanakönnunum hafa aldrei brugðizt.

Fyrir síðustu kosningar var gerð tilraun til að mæla innbyggðan galla í könnunum DV. Fyrri kannanir blaðsins voru skekkjureiknaðar til að finna formúlu, sem gæti gert niðurstöður nákvæmari. Blaðið birti bæði einföldu og skekkjureiknuðu niðurstöðurnar í síðustu könnun fyrir kosningar.

Í ljós kom, að einföldu niðurstöðurnar fóru nær hinu rétta en skekkjureiknuðu niðurstöðurnar. Það mistókst sem sagt að finna innbyggða skekkju. Hún er sjálfsagt til og finnst einhvern tíma, en er þó svo lítil, að hún hefur ekki mælzt enn. Það er ekki svo lítið afrek.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki reynzt vera vanmetið í könnunum DV, hvað sem Haraldur Ólafsson segir. Þegar flokkurinn fær meira fylgi í könnunum NT, stafar það af því, að almennt er litið á NT sem flokksblað Framsóknar og blaðinu er svarað með tilliti til þess.

Með þessu er ekki verið að lasta framtak NT á þessu sviði. Skoðanakannanir geta verið gagnlegar, þótt þær feli í sér innbyggða skekkju. Altjend er með árangri hægt að bera niðurstöður blaðsins saman við fyrri niðurstöður sama blaðs, þótt vafasamt sé að bera þær saman við niðurstöður DV.

Mönnum er óhætt að treysta niðurstöðum skoðanakannana DV, enda gera stjórnmálamenn það almennt. Meira að segja liggur við, að sumir þeirra treysti þeim upp á brot úr prósenti, sem er fullmikið af því góða. En meginlínurnar eru ljósar í þetta sinn eins og jafnan áður.

Skoðanakönnun DV, sem birtist í dag, sýnir endurreisn Alþýðuflokksins, að því er virðist mest á kostnað Alþýðubandalagsins og nokkuð á kostnað Framsóknarflokksins, en aðeins lítillega á kostnað Bandalags jafnaðarmanna og furðanlega lítið á kostnað Sjálfstæðisflokksins.

Nýju flokkarnir standa sig ágætlega í þessari könnun sem og hinum fyrri. Kvennalistinn virðist vera í samfelldri sókn. Þeir, sem mesta aðvörun fá í könnuninni, eru Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, sem ekki hefur megnað að hagnýta sér stjórnarandstöðuna.

Sjálfstæðisflokkurinn má hins vegar vel við una eftir allt uppþotið í flokknum í vetur. Kjósendur hans virðast vera flokknum tryggir, þótt þeir lýsi margir andstöðu við ríkisstjórnina. Hún má líka vel við una, því að óvinsældir hennar hafa ekki aukizt síðan í október.

Þetta eru meginlínurnar í niðurstöðum skoðanakönnunar DV, að verulegu leyti studdar hliðstæðum niðurstöðum í nýlegum könnunum NT og Helgarpóstsins. Þetta eru staðreyndirnar, sem stjórnmálamenn hafa til hliðsjónar, þegar þeir taka til við skákina fram til vors.

Jónas Kristjánsson.

DV