Tölva er þjónn en ekki guð

Greinar

Tölvur eiga að vera þjónar manna, en ekki húsbændur og allra sízt guðir þeirra. Við neyðumst þó í mörgum tilvikum að líta á tölvuna sem eins konar guð, sem ekki náist samband við, nema fyrir milligöngu klerkastéttar sérfræðinga í tölvumálum.

Einkatölvur eru að byrja að rjúfa hin óviðkunnanlegu trúarbrögð, þótt þjóðfélagið sé enn fullt af gufuvélum gamla tímans, sem valda sífelldum vandræðum og embættisverkum klerkastéttar í tölvuvæddum stórfyrirtækjum, svo sem í Reiknistofnun bankanna.

Sá tími er liðinn, að niðri í kjallara muldri eins konar guð, sem stjórni mörgum tugum útstöðva úti um allt fyrirtæki eða allt land. Einkatölvur eru orðnar nógu öflugar til að leysa gufuvélar af hólmi og geta með sameiningu samhæft þessa nýju krafta.

Einkatölvunum fylgir herskari hugbúnaðarfyrirtækja, sem veita okkur miklu meira og sveigjanlegra úrval verkfæra en gömlu gufuvélarnar í tölvustétt hafa getað veitt. Mun líklegra er en áður, að tölvunotendur geti fundið sér hugbúnað við sérhvert hæfi.

Íslendingar hafa tekið einkatölvum tveim höndum, en hafa þær þó í mörgum tilvikum aðeins til skrauts á skrifborðum sínum. Það stafar sumpart af, að tölvurnar hafa sjaldnast verið hannaðar sem þjónar, ekki verið nógu strangt miðaðar við þarfir notenda.

Við höfum mest keypt tölvur með svokölluðu Dos-stýrikerfi. Það hefur lengst af krafizt skipana í mynd ásláttar stafaruna á lyklaborð. Það hefur haft litla grafíska hæfni. Það býður agaleysi í gerð hugbúnaðar, svo að við þurfum að eyða tíma í að læra ný forrit.

Dosinn, stundum kallaður PC, er úreltur. IBM er að yfirgefa hann og fara í humátt á eftir Macintosh yfir í eigið OS-2 kerfi, sem erfitt verður að stæla. Meðan sú Maginot-lína er í smíðum til varnar gegn Macintosh, er þriðji staðallinn í uppsiglingu, svokallaður Unix.

Framtíð einkatölva verður á þessum þremur brautum, sem munu nálgast hver aðra, þegar fram líða stundir. Í þeim heimi verður lítið rúm fyrir Dosinn, sem Íslendingar hafa gert að hálfgildings staðli, þótt hann sé beinlínis fjandsamlegur notendum.

Við þurfum hins vegar tölvur, er þjóna okkur. Við þurfum tölvur og hugbúnað, sem ekki kostar okkur tugþúsunda króna námskeið að kynnast. Við þurfum tæki, er spara okkur að miklu leyti tölvufræðsluæðið, sem heltekur veski okkar um þessar mundir.

Við þurfum tölvur, er ekki nýtast bara í reikningi og vélritun, heldur eru jafnvígar á texta og myndir; tölvur sem kunna að setja fram gögn sín á grafískan og myndrænan hátt, sem fólk skilur, ­ og á fagran og myndrænan hátt, þar á meðal á góðri íslenzkri tungu.

Við þurfum tölvur, er ekki krefjast flettinga í handbókum eða minnis á bókstafi og bókstafarunur, heldur gera okkur kleift að benda á þá þjónustu, sem við viljum fá og leiða okkur sjálfkrafa um hina víðfeðmu akra, sem áður töldust myrkviðir tölvuheima.

Við þurfum tölvur, er gera okkur kleift að spila af fingrum fram milli alls konar sérhæfðra forrita og gera okkur kleift að nota óundirbúið áður ókannaðan hugbúnað. Við þurfum og við fáum tölvur, sem ekki eru handa tölvufræðingum, heldur handa notendum.

Gufuvélarnar gömlu munu áfram duga sæmilega til færibandavinnu, en eru engir guðir og munu senn víkja fyrir einkatölvum, sem verða gerðar fyrir fólk.

Jónas Kristjánsson

DV