Tölvan og tungan.

Greinar

Ekki er langt síðan fólk fékk almennt rangt stíluð bréf frá bönkum og opinberum stofnunum vegna frumstæðrar tölvutækni. Dæmi um það var, að brodda vantaði yfir stafi, svo að stundum komu út hjákátleg nöfn, sem voru hrein móðgun við fólkið, er bréfin átti að fá.

Nú er öldin önnur. Flest tölvufyrirtækin, sem öflugust eru á íslenzka markaðinum, eru með alla íslenzku stafina rétt skapaða og meira að segja á réttum stöðum á ritvélarborðinu. Því reynist flestum auðvelt að flytja sig frá hefðbundnum ritvélum yfir til tölva.

Þá hafa tölvuborðin ekki hinar sömu vélrænu takmarkanir og ritvélarnar. Þau veita meira rúm fyrir íslenzka sérvizku og hefðir. Til dæmis er auðveldara að fá réttar, íslenzkar gæsalappir en áður var.

Eitt tölvukerfið, það sem hefur verið tekið í notkun hér á DV, getur skipt orðum milli lína með 95% nákvæmni samkvæmt íslenzkum reglum. Sá árangursríki hugbúnaður er unninn af Norsk Data í samvinnu við handritalesara Morgunblaðsins og DV.

Fólk, sem hættir að nota ritvél og fer að nota tölvu, getur skilað frá sér betri íslenzku og á þægilegri hátt. Tölvan gefur nefnilega kost á margvíslegum breytingum í miðju kafi, án þess að hreinskrifa þurfi á eftir.

Þannig má færa til heilu málsliðina, breyta orðaröð og leiðrétta á annan hátt svo rækilega, að handritið hefði orðið ólæsilegt með gamla laginu. Tölvan heldur handritinu ætíð hreinu og freistar á þann hátt til nákvæmari notkunar íslenzku.

Búast má við, að í framtíðinni geti tölvutæknin veitt íslenzkri tungu enn betri þjónustu. Í Bandaríkjunum er til hugbúnaður fyrir samheiti í ensku máli, enda hefur samheitaorðabók verið til á ensku í meira en öld í sífelldum endurútgáfum.

Þar er hægt að láta tölvur veita leiðbeiningar um notkun orða, til dæmis vara við ofnotkun einstakra þeirra. Þar getur fólk sótt sér í tölvuna aukna fjölbreytni í orðavali og næmari skilning á blæbrigðum samheita.

Slík samheitaorðabók fyrir íslenzka tungu er nú í fyrsta skipti að koma út. Sú bók verður tungunni vafalítið til mikils stuðnings. Efni þeirrar bókar mætti svo koma fyrir í hugbúnaði tölva á einhvern hliðstæðan hátt við það, sem gert hefur verið í Bandaríkjunum.

Þar vestra er til margvíslegur annar hugbúnaður til verndar enskri tungu í tölvukerfum. Tölvur gera tillögur um breytingar á stafsetningu í samræmi við stafsetningarorðabók, sem þær hafa verið mataðar á. Þá er til hugbúnaður, sem varar við klisjum og stofnanamáli.

Tölvukerfi eru að verða svo öflug, að fylla má hluta minnis þeirra með margvíslegum orðabókum samheita, stafsetningar, stofnanamáls, slangurs og annarra slíkra bóka, til eftirbreytni eða viðvörunar, eftir því sem við á hverju sinni.

Með því að hleypa texta gegnum slíkan hugbúnað mundi fólk geta náð sér í eins konar kennara, sem leiðbeindi um notkun rétts máls, eins og það er talið vera hverju sinni. Tungunni hlýtur að vera styrkur að slíku.

Þannig má búast við, að tölvur framtíðarinnar misþyrmi ekki íslenzku, eins og hinar gömlu gerðu, og lagi sig ekki aðeins að tungunni, svo sem hinar nýju gera, heldur verði henni beinlínis til framdráttar.

Jónas Kristjánsson

DV