Tölvunefnd er skaðleg

Greinar

Vilmundur Jónsson landlæknir kunni ráð við þeim úrskurði Hæstaréttar, að hann mætti ekki í Læknatali sínu birta nöfn líffræðilegra foreldra kjörbarna gegn vilja þeirra. Hann tók nöfnin út, en skildi eftir eyðurnar, svo að allir máttu skilja, hvað um var að ræða.

Síðan hefur engum dottið í hug að amast við þeirri þjóðaríþrótt Íslendinga að rekja ættir fólks fram og til baka. Á erfiðum tímum virðisaukaskatts eru ættfræðirit ein fárra greina bókaútgáfu, sem standa með blóma. Nú dugar ekki minna en mörg þykk bindi um hverja ætt.

Undarlegasta nefnd á Íslandi hefur þó ákveðið að kanna, hvort hægt sé að koma í veg fyrir, að nöfn tveggja kvenna, maka þeirra og barna verði birt gegn vilja þeirra í ættfræðiriti, sem nú er í undirbúningi. Er þó ættfræði formlega skilgreind utan verksviðs nefndarinnar.

Ef hinni undarlegu nefnd tekst að koma í veg fyrir þessa meintu árás á friðhelgi nokkurra einstaklinga, er kjörið tækifæri fyrir aðstandendur bókarinnar að fylgja fordæmi hins gamla landlæknis og skilja eftir eyðurnar, svo að allir megi sjá þær og hafa gagn og gaman af.

Á sama tíma og hin undarlega nefnd er að leika hlutverk Stóra bróður er utanríkisráðuneytið að vinna þarfara verk. Það kostar skrásetningu sem flestra Vestur- Íslendinga. Það er mikið verk, því að talið er, að þar búi nú rúmlega 200 þúsund manns af íslenzkum ættum.

Þannig veit vinstri hönd ríkisins ekki, hvað hin hægri er að gera. Annars vegar er ríkið að verja peningum til að afla heimilda, sem falla vel að þjóðaríþrótt Íslendinga og færa henni nýja vídd. Hins vegar starfrækir ríkið nefnd, sem reynir að stöðva nytsamar upplýsingar.

Frægust er tölvunefnd fyrir að biðja fjármálaráðuneytið um að banna fjölmiðlum að vinna upplýsingar úr skattskrám, nota við það hættulegar aðferðir á borð við samlagningu og frádrátt, margföldun og deilingu, og birta síðan óhroðann á prenti, svo að allir megi sjá.

Þetta hafa íslenzkir fjölmiðlar einmitt gert frá ómunatíð, lesendum til gagns og gamans, en nokkrum einstaklingum til mæðu. Þeir telja þetta vera brot á friðhelgi einkalífs síns og hafa fengið stuðning Tölvunefndar, sem hyggst nú koma í veg fyrir framhald þessara skrifa.

Fjármálaráðherra varð við tilmælum nefndarinnar og gaf út reglugerð í vor, sem æ síðan verður við hann kennd. Hann hefur að sjálfsögðu verið hafður að háði og spotti, innan og utan Alþingis, og þá enn frekar, þegar til kastanna kemur að beita reglugerðinni í sumar.

Auðvitað dettur engum í hug, að lög eða reglugerðir um Tölvunefnd og reglugerðir, sem byggjast á þeim pappírum, skáki stjórnarskránni, enda eru nú blessunarlega komnir til sögunnar dómstólar úti í heimi, sem geta tekið íslenzka reglugerðasmiði og pokadómara í nefið.

Tölvunefnd heldur þó áfram að puða í hlutverki Stóra bróður. Henni tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir nothæfa sundurliðun símreikninga með því að heimta, að fyrstu tölustafir símanúmera birtust ekki. Næst gæti henni dottið í hug að reyna að banna símaskrána.

Nefndin vill koma í veg fyrir, að Íslendingar geti nýtt sér upplýsingatækni nútímans eins vel og þau lönd, sem lengst eru komin á því sviði. Hún reynir til dæmis að koma í veg fyrir samkeyrslu á skrám, sem oft leiða í ljós nákvæmari og betri upplýsingar en menn höfðu áður.

Landhreinsun væri að afnámi hinnar skaðlegu Tölvunefndar, sem reynir að koma í veg fyrir, að þjóðfélagið verði gagnsærra og auðskildara öllum almenningi.

Jónas Kristjánsson

DV