Tony Blair í kuldanum

Punktar

Hver dálkahöfundurinn á fætur örðum heldur því fram, að klofningur milli Bandaríkjanna og Bretlands annars vegar og kjarnaríkja Evrópusambandsins hins vegar sé orðinn djúpstæður og varanlegur. Kirsty Hughes segir í Observer, að á meginlandi Evrópu sé enn frekar en áður litið á Bretland sem aðskotadýr á útjaðri Evrópusambandsins. Nýju aðildarríkin í Mið-Evrópu muni taka upp evruna sem gjaldmiðil og smám saman taka afstöðu með kjarnaríkjum Evrópu, sem þegar eru farin að skipuleggja varnarmál sín framhjá Atlantshafsbandalaginu og Bretlandi, sem hvorki hefur tekið upp evru né er aðili að Schengen og gengur þar að auki yfirleitt erinda Bandaríkjanna í evrópsku samstarfi. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sé úti í kuldanum í evrópsku samstarfi.