Torfan

Veitingar

Torfan er oft nefnd í sömu andrá og Lækjarbrekka, enda móðurstaður hennar. Matstofurnar eru næstum hlið við hlið í Bernhöftstorfunni. Munur þeirra er heldur ekki mikill. Torfan er heldur eðlilegar gömul, heldur dýrari og heldur betri sem veitingahús. Lækjarbrekka er að vísu góður staður, en Torfan er einn af hinum beztu.

Torfan er ekki eins skipulega innréttuð og Lækjarbrekka og um leið minna kuldaleg, þótt allir litir séu ljósir, ýmis gulleitir eða grænleitir. Leikmyndir og búningateikningar úr leikhúsum lífga veggina, sömuleiðis lifandi blóm á rúðóttum borðdúkunum. Í hádeginu eru pappírsþurrkur á borðum, en á kvöldin eru tauþurrkur og kertaljós. Allur borðbúnaður er hinn snyrtilegasti. Og í heild er Torfan afar notalegur matsölustaður.

Elskulegt við útlendinga

Leiðigjarnt er orðið að taka fram viku eftir viku, að þjónusta á veitingastað sé góð. Hún er nefnilega undantekningarlítið skóluð, fagleg og góð á íslenzkum matstöðum. Um Torfuna verður þó sérstaklega að taka fram, að hún er ekki bara góð, heldur beinlínis elskuleg, einnig við útlendinga, sem líklega hafa þó ekki tækifæri til að koma aftur.

Hlaðborðið í hádeginu er greinilega sniðið fyrir útlendinga, sem yfirgnæfa á staðnum á sumrin, ekki bara í hádeginu, heldur líka á kvöldin. Á þessu mestmegnis kalda borði eru yfir 20 réttir, aðallega sjávarréttir. Ber þar mest á mörgum tegundum girnilegrar síldar. Skemmtilegt var að sjá karfa innbakaðan í salti. Að öðru leyti freistaði borðið mín ekki, þótt það liti betur út en sum önnur slík hádegisboð íslenzkra veitingahúsa.

Hveitibrauðskollurnar með súpum Torfunnar reyndust vera nýjar og bragðgóðar, bornar fram með smjöri í álpappír Samsölunnar. Hrásalatið með aðalréttunum var einfalt og mjög gott, aðeins ísberg, paprika og tómatur. Í annað skiptið var það einfaldlega olíuvætt, en í hitt skiptið borið fram með þykkara viðbiti, sem örlítill karríkeimur var að.

Ferskt eða milt soðið

Annað meðlæti með aðalréttum var yfirleitt lítið og ferskt. Næstum ekkert af því var úr dósum og það fáa, sem var soðið, var mildilega soðið. Hins vegar var það nokkuð staðlað. Til dæmis birtist bökuð kartafla með sýrðum rjóma í föruneyti hvers réttarins á fætur öðrum, ekki bara kjötréttanna, heldur flestra fiskréttanna einnig.

Minestre-súpa hádegisins var tær, tómatlituð súpa með lauk, papriku, seljustöngli, gulrót, höm og spaghetti, óvenjulega góð. Humarsúpa kvöldsins var vel rjómuð með stórum og meyrum humarbitum, hinn fínasti matur. Grænmetisseyði garbanzo með tómati, sveppum, papriku og kjúklingabaunum var tær og góð súpa. Bezt var þó baunaspírusúpa manilla, sem einnig hafði að geyma sesamfræ og kjötbita.

Kæfa hússins var bragðsterk lifrarkæfa, ljómandi góð og hæfilega þétt, borin fram með sýrðum smágúrkum, alfa-alfa spírum, blaðsalati, rúgbrauði og smjöri. Brauðið þótti mér ekki gott.

Reyktur nautavöðvi með melónu var borinn fram með sama meðlæti og kæfan. Þetta er ein af ýmsum tilraunum íslenzkra matreiðslumanna til að meðhöndla ýmiss konar kjöt eins og parmaskinku. Og þetta var ein bezt heppnaða útgáfan. Kjötið var mjúkt og bragðgott.

Hörpufiskur á teini var meyr og hélt bragði, þrátt fyrir osthjúp. Með honum fylgdu hæfilega soðin hrísgrjón, sætsúr sósa góð og smjörbakað snittubrauð hvítlaukskryddað.

Skemmtilegt var að sjá guðlax á matseðli dagsins. Hann var glóðarsteiktur, borinn fram með steinseljusmjöri og hinu staðlaða grænmeti. Liturinn minnti mest á túnfisk og bragðið mest á stóra lúðu. Þetta er tilbreytni, en lúðan er betri.

Gufusoðnar rauðspretturúllur voru hæfilega lítið eldaðar og einkar bragðgóðar. Þær voru bornar fram í hjúpi smjörs og gráðosts, sem gaf skemmtilega tilbreytni í bragði. Með voru til dæmis ágætar rækjur og dósakræklingur, sem ekki fara af frekari sögur.

Reykbakaður herramannsmatur

Reykbökuð smálúða var sannkallaður herramannsmatur. Undir rauðri reykhúðinni var lúðan undurmilt soðin og svo bragðgóð, að hún skyggði á aðra ágæta rétti staðarins. Reykingin í elduninni hafði gefið hæfilega reyktan vott í bragðið, hvorki of mikinn né of lítinn.

Koníakslegnar lambalundir voru lakasti rétturinn, sem prófaður var. Þær voru ofeldaðar og næstum alveg gráar, enda fremur þurrar undir tönn. Með þeim var borið fram heilmikið af ferskum og góðum sveppum og sterk vínsósa í sérstakri skál.

Léttsteiktar lundabringur dagsseðilsins voru í sæmilegu meðallagi, bornar fram á kafi í sömu vínsósunni, en lyft upp af miklu magni ferskra og hressilegra rifsberja.

Turnbautinn var eins og gestir vona alltaf, að hann sé, stór og hrásteiktur og meyr. Sem betur fer var milt bragð að béarnaise-sósunni, sem matreiðslumenn telja eina koma til greina í þessum mat.

Ferskur ananas reyndist vera óþroskaður og bragðlaus, en Grand Marnier blandaður rjóminn, sem fylgdi með, var góður. Súkkulaðiís var með heilum súkkulaðibitum og ferskum og fínum jarðarberjum. Bezti eftirrétturinn var svo kiwi með þeyttum rjóma og ávaxtahlaupi, með beztu eftirréttum landsins.

Töluvert er af rusli á vínlista Torfunnar, en innan um er dálítið af drykkjarhæfu vínunum, sem margnefnd hafa verið í greinaflokki þessum.

Miðjuverð á forréttum Torfunnar er 220 krónur, súpum 90 krónur, sjávarréttum 302 krónur, kjötréttum 420 krónur og eftirréttum 125 krónur. Með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti miðlungsveizlan að kosta 811 krónur. Það er svona einhvers staðar milli meðalverðstaðanna og dýru staðanna.

Í hádeginu kostar hlaðborðið 385 krónur. Súpa og réttur dagsins kosta þá 295 krónur, en 490 krónur að kvöldi.

Jónas Kristjánsson

DV