Torfan hefur ekki náð sér fyllilega eftir lægðina, sem hún komst í, þegar hún skipti um nafn og kallaðist “Punktur og pasta” og var með langsótta stæla í matseðli. Hún heitir að vísu Torfan að nýju, er komin aftur inn að meginstraumi matargerðarlistar og býður betri mat en verið hefur um langt skeið. En hún hefur ekki enn náð upprunalegum gæðum, þegar Brekkuhúsin voru endurreist og Torfan varð í vetfangi eitt af beztu veitingahúsum bæjarins.
Staðurinn er kjörið umhverfi fyrir veitingahús. Veitingasalurinn er í gömlu og grónu borgarahúsi og þægilega smár í sniðum. Trégólf og ljósir veggir ráða mestu um grunninn og listsýningar gefa hefðarlegt yfirbragð.
Hroðaleg
loftljós
Hroðaleg loftljós í bandarískum bílastélastíl frá sjötta áratugnum eru eins og fleinn í sál þessa gamla húss og minna á hina langsóttu stæla, sem hér tíðkuðust um skeið í eldhúsi.
Torfan er fremur dýr staður. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er um 2.975 krónur fyrir utan vín. Bæði í hádegi og að kvöldi er hægt að fá súpu og val milli þriggja aðalrétta. Ef því boði er tekið, kostar þríréttað með kaffi um 1.885 krónur.
Þjónusta var misjöfn. Sumpart var hún góð og fagleg, en fremur alvörugefin. Sumpart var hún líka svo óskóluð, að starfskraftur ruddist gegnum kyrrstæða gesti í anddyri, án þess að kasta kveðju á þá eða segja: “Afsakið, má ég smeygja mér framhjá”.
Ytri umbúnaður á borði var góður. Vínglös voru fögur og brauð gott. Smjör var borið fram í kúlum á kvöldin og í áli í hádeginu. Þurrkur voru úr taui á kvöldin og úr þunnum pappír í hádeginu. Niðursoðin tónlist var óþarflega hávær, sérstaklega “kántrí”-væl í hádeginu.
Matseðillinn er sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Annan eins samsetning af lélegum prófarkalestri hef ég ekki séð fyrr við slíkar aðstæður. Nöfn erlendra vína eru meira eða minna röng; “Margues”, “Muscaded” og “Riseling”. Þar að auki fjallað um “ávesti” og “súkkulaðitgertu”. Til að kóróna subbuskapinn er stappa kölluð “mús” og heilagfiski skírt “heilafiski”.
Ágætar
ostasósur
En það er maturinn, sem mestu skiptir, og hann er að mörgu leyti býsna góður á Torfunni. Ekki kunni ég þó í hádeginu að meta hnausþykka hveitisúpu blaðlauks, sem var eins vond og hveitisúpur Lækjarbrekku.
Í hádeginu var prófaður sæmilegur karfi af seðli dagsins. Karfinn var borinn fram með bragðsterkri rækjuostasósu, stinnum kartöflum og ferskri steinselju. Einnig var prófuð ágæt smálúðuflök með mjög góðri og mildri gráðostastósu og vínberjum, svo og sama meðlæti.
Sniglar voru meyrir, bornir fram með grilluðum sveppum og hvítlauk. Þetta var bezti rétturinn, snarpheitur. Leginn nautavöðvi hrár var nokkuð góður, en sesamfræ í sósunni yfirgnæfðu nokkuð í bragði.
Salat úr fiðrilda-pasta, rækjum og heitri olíusósu var hressilegur forréttur, en of markaður ediksbragði sósunnar. Ravioli var borið fram með fiskhakki, sem ekki bjó yfir neinu fiskbragði. Aðallega var smjörbragð að þessum rétti, því að sítrónublandað smjörið var ekki sparað.
Margir pastaréttir eru í boði. Þar á meðal eru góð sjávarrétta-fiðrildi með fremur seigum smokkfiski og fremur mjúkri hörpuskel, svo og tómatsósu. Pastaréttunum fylgja á matseðlinum ýmsir stælar í ritæfingum, sem minna á Punkt og pasta.
Steiktar gellur voru ekki legnar fyrir eldun og voru því dálítið slepjulegar. Þær voru snarpheitar, en ekki ofsoðnar og voru meyrar. Sinnepssósan var mild. Þetta var fremur góður matur.
Döðlur hæfðu
lambakjötinu
Bezt heppnaða frávikið frá hefðbundinni matreiðslu voru döðlur, sem voru bornar fram með lambahryggvöðva, aðeins lítillega ofsteikt. Þessum rétti fylgdi líka mild sinnepssósa, sem hæfði vel.
Karamellubúðir með appelsínulegi var svona eins og við var að búast. Súkkulaðiterta var pöntuð, en í staðinn kom súkkulaðiís með mildum karamellu- og hindberjasósum.
Ostakaka með berjahlaupi var sæmileg, en því miður er sjaldgæft, að ostakökur í íslenzkum veitingahúsum séu eins góðar og ostakökur Osta- og smjörsölunnar, sem fólk getur borðað heima hjá sér.
Jónas Kristjánsson
DV