Torgið, Taívan og Tíbet

Greinar

Rómverjar og Bretar kunnu að varðveita heimsveldi um aldir. Rómverjar deildu og drottnuðu með því að styðja önnur ríki gegn keppinautum sínum. Bretar gerðu það sama með því að styðja öflug Evrópuríki gegn ríkinu, sem var þeim erfiðast á hverjum tíma.

Þannig studdu Bretar Prússa fyrst gegn Habsborgaraveldi Austurríkis, þegar það hafði teygt sig um Ítalíu, Spán og Niðurlönd og síðan gegn Napóleonsveldi Frakklands, þegar það hafði teygt sig austur og suður um alla Evrópu. Bretar borguðu heilu stríðin fyrir Prússa.

Ef Kína er á eins mikilli stórveldissiglingu og menn Clintons Bandaríkjaforseta vilja vera láta, ættu þeir að efla samskipti við öflug ríki á borð við Sovétríkin, Indland og Japan, sem þurfa að rýma til fyrir áhrifum Kína, fremur en að hvetja Kínastjórn til aukinna afskipta.

Ofan á það, sem sagnfræðin ætti að geta kennt fávísu liði Clintons, bætist sú augljósa staðreynd, að Sovétríkin, Indland og Japan eru eins konar lýðræðisríki, þar sem flokkar skiptast á um völd, en Kína er alræðisríki, sem vinnur gegn bandarískri hugmyndafræði.

Bandaríkin hafa ekki aðeins truflað valdajafnvægi Asíu með Kínagælum sínum, heldur einnig með gælum við alræðisríkið Pakistan, sem studdi Talebana til valda í Afganistan. Með bandarískum peningum, sem fóru um Pakistan, var komið á hryllingsstjórn í Afganistan.

Þegar Indverjar sáu þann kost í herkví Kínverja og Pakistana að gera tilraunir með kjarnorkuvopn, ætlaði allt vitlaust að verða í Bandaríkjunum. Nú beita þau Indland efnahagslegum refsiaðgerðum, meðan Kína nýtur beztu kjara í viðskiptum, þrátt fyrir sínar tilraunir.

Komið hefur í ljós, að stuðningur Bandaríkjanna við japanska jenið í síðustu viku var ekki liður í samkomulagi um fjármálaúrbætur í Japan, svo sem venja er við slíkar aðstæður. Þetta var pólitísk ákvörðun, sem tekin var af mönnum Clintons í þágu Kínastjórnar.

Ef japanska jenið hefði fallið, hefði kínverska júanið og dollarinn í Hong Kong fallið líka. Það hefði verið áfall fyrir Kína eftir nýlega gengislækkun þar árið 1995. Kínastjórn hvatti Bandaríkjastjórn til að styðja jenið, svo að röðin kæmi ekki næst að eigin gjaldmiðlum.

Kínastjórn hefur Clinton og menn hans að fíflum í hverju málinu á fætur öðru. Hún fékk ferð Clintons færða fram á afmæli ofbeldisins á Torgi hins himneska friðar og fékk hann til að skoða torgið. Hvort tveggja er táknræn framganga samkvæmt kínverskri hefð.

Dagskrá ferðar Clintons undirstrikar, að Bandaríkin hafi fallizt á atburðina á Torgi hins himneska friðar, rétt eins og villimennsku Kínastjórnar gegn sérkennilegum menningarheimi Tíbets og sífelldar tilraunir hennar til að grafa undan stjórnvöldum eyríkisins Taívans.

Kínastjórn notar fávísi og siðleysi Clintons til að efla kröfu sína um, að Kína taki við af öxli Bandaríkjanna og Japans sem Asíuveldið mikla. Þessa efldu stöðu mun hún nota til að láta vestræna hugmyndafræði víkja fyrir hugmyndafræði kínverska kommúnistaflokksins.

Samt er Kína ekkert stórveldi í raun. Stærð efnahagsins er sama og Spánar. Erlendar fjárfestingar eru svipaðar og í Brasilíu, ef frá eru taldir brottfluttir Kínverjar. Fjárhagsleg þátttaka Kína í vörnum gegn gengishruni gjaldmiðla í Asíu er einn tíundi af framlagi Japans.

Samt hafa menn Clintons Bandaríkjaforseta ákveðið að líma sig á ráðamenn Kína og vaða eldinn til að þjónusta þá sem bezt í stórveldisdraumum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV