Traust

Hestar

Margir nýliðar í hestamennsku innanlands kvarta um, að erfitt sé að fá traustar upplýsingar um eiginleika söluhrossa. Þeim finnst, að atvinnumenn séu í skjóli meiri þekkingar að koma gölluðum hrossum út, fremur en að selja nýliðum hross, sem henta þeim. Ennfremur sé verðlagið of hátt í ljósi gallanna. Er eitthvað hægt að gera til að efla traust manna í millum í viðskiptum með hross, sérstaklega þegar kaupandinn hefur takmarkaða þekkingu á málefninu?

Ólafur H. Einarsson:

Kaupandi sem hefur litla þekkingu þarf að geta leitað til ráðgjafa sem hann treystir. Atvinnumenn sem í skjóli þekkingar eru að koma út gölluðum hrossum eru jafnframt að skjóta sig í fótinn og verða ekki langlífir í “bransanum”.

Þórður Ólafsson:

En ég get tekið heilshugar undir það, bæði sem mína persónulegu reynslu svo og hvað ég hef horft upp á hjá mörgum félögum mínum, að því miður er það allt of algengt að ekki sé hægt að treysta seljanda hests með þá lýsingu sem hann gefur af hestinum miðað við þann raunveruleika sem blasir við eftir að kaupin hafa farið fram.

Ég er ekki með neina patent lausn á þessu meðan salan fer fram a´öðrum hvorum bæ landsins og út úr öðru hvoru eða jafnvel hverju hesthúsi landsins.
En ég held að sölusýningar þar sem einhverjir matsmenn og þá jafnvel að lágmarki þrír, væru látnir prófa hestinn gefa honum lýsingu og byggja upp skala fyrir þau atriði sem skipta máli og gefa einkunn fyrir hvert þeirra ásamt dýralæknisskoðun væri eitthvað sem hægt væri að byggja upp til framtíðar.

Einhverjir svona “testarar” væri í hverjum landsfjórðungi og seljendur kæmum sínum söluhestum til þeirra og útskrift ásamt mynd og ásamt verðbili færi inn a´ eitthvert sölutorg a´netinu. Hugsanlega allt eitthvað sem yrði erfitt í reynd annars staðar en í þéttbýlinu en ekki væri vitlaust að byrja þar.
Þetta eru svona fyrstu viðbrögð en augljóslega þarf eitthvað að gera til að traust myndist milli seljenda og kaupenda því dag er þetta þannig að kaupandinn er nálum um að verða ekki plataður og seljandinn telur sig oft vera með mun betri vöru en hann fær viðbrögð við hjá kaupanda.

Friðrik Pálson framkvæmdastjóri:

Margt kemur í hugann við þessa spurningu. Almennt er það þannig í viðskiptum, að seljandi leggur sig fram um að tryggja að kaupandi fái það sem hann telur sig vera að kaupa, bæði vegna þess að flestir eru heiðarlegir í eðli sínu og jafnframt af þeim eigingjörnu ástæðum, að flestir reikna með því að fyrstu viðskipti leiði til meiri viðskipta síðar og þá skiptir máli að viðskiptavinurinn sé ánægður.

Fyrr á árum var talsvert um það, að einhvers konar opinberar eftirlitsstofnanir legðu mat á gæði vöru og þjónustu og átti það að vera til öryggis fyrir kaupandann. Margir gallar fylgdu þessari aðferð, m.a. að seljandanum fannst hann verða leystur undan ábyrgð sér gæðamatið og með því móti varð ábyrgð hans sem seljanda óljósari og eftir atvikum erfiðara fyrir kaupandann að sækja rétt sinn, ef á þurfti að halda. Þetta fyrirkomulag hefur verið á hröðu undanhaldi.

Það á við í öllum viðskiptum, að hafi kaupandi takmarkaða þekkingu á þeirri vöru eða þeirri þjónustu, sem hann er að kaupa, þá verður hann annað hvort að reiða sig á heiðarleika seljandans eða leita til hlutlauss kunnáttumanns til að skoða fyrir sig gripinn. Hvað gera menn unnvörpum í bílaviðskiptum, fasteignaviðskiptum og mörgum öðrum viðskiptum?

Í hnotskurn finnst mér að svarið við spurningu þinni um hrossakaup því vera þetta:

Það eflir því aðeins traust kaupenda á seljanda hesta að hann skapi sér það traust sjálfur. Það getur seljandi gert með ýmsum hætti.

Í fyrsta lagi getur hann lagt sig fram um að lýsing hans á viðkomandi hesti sé eins nákvæm og góð og kostur er.

Í öðru lagi leggur hann áherslu á að kaupandinn kynni sér hestinn vel, prófi hann fyrst nokkrum sinnum í viðurvist seljanda eða fulltrúa hans og fái hann síðan lánaðan um nokkurra daga skeið til frekari reynslu, eins og algengt er.
Í þriðja lagi hefur seljandi þá vinnureglu, að komi í ljós síðar, að hesturinn og knapinn ná ekki saman, sem ekki þarf endilega alltaf að vera hestinum að kenna, þá taki hann hestinn til baka og hafi þá rétt á því að útvega annan hest, en ekki endilega að kaupin gangi til baka.

Í fjórða lagi fylgir góður seljandi hestinum eftir, með því t.d. að hringja kerfisbundið 2svar til 3svar á næstu mánuðum til að spyrjast fyrir, hvort allt sé ekki í lagi. Ekki aðeins skapar þetta mikið traust kaupandans á seljandanum, heldur gefur það seljandanum tækifæri til að nefna að hann hafi fleiri góða hesta til sölu.

Í fimmta lagi skiptir auðvitað máli, að seljandi geri kaupanda grein fyrir því, hvers vegna hann telur þennan tiltekna hest vera þessara peninga virði, sem upp er sett. Þar má nefna ætterni og útlit, en það sem skiptir óvanann kaupanda mestu máli er geðslag hestsins, hve hreingengur hann er og hversu mikið hann er gerður. Óvanir hestamenn þurfa ekki aðeins á því að halda að allt þetta sé í lagi, heldur þarf hesturinn að vera þannig gerður, að knapinn eigi ekki auðvelt með að “skemma” hann.

Í sjötta lagi og með tilliti til þess sem að ofan er sagt, ráðlegg ég öllum, sem tök hafa á , að fara strax með nýjan hest á stutt námskeið til að læra á þennan tiltekna hest. Það er afar mikilvægt og verður seint ofmetið.

Mér er það vel ljóst, að þetta svar mitt er er ekki tæmandi, en að lokum vil ég aðeins undirstrika það, sem ég sagði hér í upphafi, að traust í viðskiptum skapast af reynslu og orðspori og engu öðru. Ég veit um og gæti nefnt nokkra hrossabændur, sem ég gæti sagt að viðhefðu nánast allt það, sem ég hér að ofan nefndi að góðan seljanda mætti prýða. Þeir hafa líka skapað sér það orð, að þeim sé treystandi og við þá sé gott að eiga viðskipti.

Ásgeir Margeirsson:

Ég er að vísu ekki reyndur maður í hrossaviðskiptum enda er hestamennskan algerlega áhugamál hjá mér, en ég hef þó náttúrulega eitthvað komið nálægt kaupum og sölu hrossa.

Þessi markaður er alveg “villtur”, villtur í þeim skilningi að þar gilda engar reglur, bara frumskógarlögmálin ef svo má segja. Og öll verðlagning er fullkomlega afstæð, hvað kaupanda finnst eðlilegt, hvað hann er til í að borga og hvað seljanda finnst eðlilegt eða nægjanlegt. Samanburður milli hesta er oft erfiður, því engir tveir eru eins. Sem kaupandi á markaði virðist gagnast best að vera nógu grófur í að bjóða lágt og jafnvel að “veifa seðlum framan í seljandann” eins og það er kallað.

Það sem mér finnst þó hafa gagnast mér best er að hafa fagmann sem ég treysti mér við hlið. Ég var sem áhugamaður hreinlega ragur við að feta mig áfram á þessari braut á sínum tíma.

Ég þekki vel dæmi um það sem þú ert að nefna og má jafnvel kalla óheiðarleika. Ég prófaði t.d. hesta fyrir borgarstjórann í Búdapest, þar á meðal einn sem reyndist hvumpinn og óöruggur þegar hann kom í nýtt umhverfi og annan sem reyndist ropari. Það hefur seljandi áreiðanlega vitað. Og þetta þrátt fyrir skýrar kröfur um hvernig hesti væri verið að leita að. Þú getur rétt ímyndað þér hvort ég leiti næst til þess sem sendi mér roparann!

Þarna kem ég að því sem er kjarni málsins að mínu mati. Seljendur hrossa (atvinnumenn) sem horfa til framtíðarviðskipta í faginu og byggja á trausti eru þeir sem ég vil versla við (og áreiðanlega margir fleiri) og ég tel að þeir nái lengra en braskarar og svikahrappar. Þeir sem horfa til skyndigróða og fagna því að plata menn til að kaupa eru ekki líklegir til að fá viðskiptavini sína aftur.

Eina sögu, raunverulegt nýlegt dæmi, þekkjum við hjónin af unglingsstúlku sem keypti hest sem að sögn seljanda átti að henta henni vel. Reyndin varð allt önnur og hesturinn hrekkti og henti henni af sér og var ómögulegur. Seljandinn neitaði að draga kaupin til baka þrátt fyrir að foreldrar stúlkunnar (sem ekki eru í hestamennsku) óskuðu eftir því og afleiðingin varð að stúlkan hætti í hestamennsku. Hver hagnaðist á þessum viðskiptum? Ég er viss um að hagur seljandans var ekki mikill þegar til lengdar lætur.

Ég geri ráð fyrir því að þú sért nokkuð sammála því sem ég hef hér sagt en ég er náttúrulega ekki kominn með lausn á málinu: Hvernig fáum við braskarana til að vinna faglega? Svar kaupandans er líklega helst það að versla ekki aftur við slíkan seljanda, en það leysir ekki allt málið.

Sú lausn sem mér finnst helst koma til greina er reynslutími, að það sé skilgreint að kaupandi fái að hafa hestinn hjá sér í 1-2 vikur og hafi skilarétt. Hann prófi hestinn á sínum stað, við sínar aðstæður og skilyrði og fái þannig mat á hann. Dæmin tvö um hestana sem ég skilaði úr prufu fyrir borgarstjórann komu bæði þannig til að ég var með hestana hjá mér og skilaði þeim eftir um viku dvöl. Hestinn sem ég svo keypti festi ég eftir að hafa haft hjá mér í 10 daga. Þetta var algjört lykilatriði.

Kaupandi á náttúrulega þann möguleika að fá þriðja aðila, vonandi hlutlausan, til að prófa fyrir sig hest. En ég tel að það verði best gert ef hesturinn er kominn til væntanlegs kaupanda og búinn að vera þar einhverja daga.

Mér finnst jafnvel stundum eins og hestasalar virði sjónarmið erlendra kaupenda betur, að þeir líti frekar á þá sem viðskiptavini sem koma aftur og aftur. En það sjónarmið á alveg jafnt við um innlenda kaupendur að mínu mati. Líkt og unnið er að því að koma á gæðastarfi í hrossarækt væri verðugt viðfangsefni að koma betra skikki á viðskipti með hesta og lyfta þessu á hærra plan. Verðmat manna á hestum er og verður alltaf afstætt, en svik eiga ekki að þekkjast.

Ef ég tek saman það sem máli skiptir úr þessar langloku minni sem svar við spurningu þinni segi ég: Reynslutími og óháður aðili til að prófa hestinn.

Vottunarstöð er
bezta lausnin

Helgi Leifur Sigmarsson:

Þegar menn lenda í vandræðum með hross, sem þeir hafa keypt, er ábyrgðinni alltaf skellt á seljandann, stundum réttilega og stundum ranglega. Ef hestur er hættulega hrekkjóttur, hefði ekki átt að selja hann. Ef hann dettur hins vegar úr fínu tölti niður í brokk eða lull, er það oftast vegna lélegrar eða óþroskaðrar reiðmennsku kaupandans, sem ríður við slakan taum.

Seljandinn verður að reikna út hest og kaupanda og átta sig á, hvort þeir eiga saman. Oft finnur seljandi ekki rétta hestinn, en langar óskaplega mikið til að koma á sölu og fer þá út á villigötur.

Það er fyrirhafnarsamara að selja hesta en áður var. Allir eru að passa sig á hrossapröngurum. Til þess að sala gangi eðlilega fyrir sig, þarf að hafa myndazt persónulegt traust milli manna. Þá er alltaf hægt að leysa málin. Ég reyni að forðast að selja hesta til fólks án þess að hafa kynnzt því og reiðmennsku þess.

Í Þýzkalandi eru komnar Evrópureglur, sem fela í sér tveggja ára ábyrgð seljanda á hrossum. Það þýðir, að kaupandi, sem hefur gert brokkara eða lullara úr góðum töltara, getur skilað hestinum. Þetta er ekki skynsamleg leið til að koma á trausti.

Ég tel bezt, að valinkunnir menn í Félagi tamningamanna, sem ekki eru í hrossasölu sjálfir, gætu tekið að sér einir sér eða á einhvers konar vottunarstofu, að taka út hesta, sem eru í sölu. Svona vottunarstofur eru farnar að tíðkast í ýmsum atvinnugreinum.

Með hálftíma prófun geta slíkir þriðju aðilar fundið út, hvert sé útlit hestsins, viðmót, hæfileikar og líkamsástand. Þeir gætu síðan fyllt út staðlað krossapróf, sem væri viðurkennt í bransanum og gefið út af einhverri ábyrgri stofnun. Í krossaprófinu lýsti skoðunarmaður hestinum. Þetta þyrfti ekki að kosta nema 2.000-3.000 krónur og er staðfesting á því, hvernig hesturinn er, þegar hann er seldur. Þetta ætti að draga úr eftirmálum.

Kallið til
ráðgjafa

Gunnar Arnarson:

Eftirmál í hrossasölum eru minni en áður og hrjá ekki greinina lengur. Kúvending hefur orðið á síðustu 5-10 árum. Ruslakistumarkaðurinn er að hverfa. Vandræðahestar sjást varla lengur, þótt alltaf komi upp stök dæmi.

Bezta leiðin fyrir óvant fólk er að finna sér ráðgjafa eða trúnaðarmann, sem hjálpar þeim við að kaupa hest. Flestir þreifa sig áfram og finna einhvern slíkan.

Skólarnir eru að útskrifa fullt af fagfólki, sem fer í Félag tamningamanna, og getur verið fólki til ráðgjafar. Mér finnst vel koma til greina, að félagið reyndi að gera slíka þjónustu sýnilegri, til dæmis með því að hafa lista af félagsmönnum, sem vilja veita slíka þjónustu og þá gegn skilgreindu og vægu gjaldi.

Sjálfur hef ég gert mikið af því að hjálpa fólki við að kaupa hesta af öðrum og veit, að sumir kollegar mínir hafa gert hið sama.

Heiðarlegur
kunningi

Pétur Behrens:

Það má skrifa langt mál um hrossasölu og hrossaprang, heiðarleika eða plat, dæmin eru eins mörg og ólík og hestarnir og nýju eigendur þeirra. Besta ráð, sem ég veit: Biðja reyndan, heiðarlegan kunningja um aðstoð. Reyna má að finna gallalítinn hest eða næstum gallalausan fyrir nýliðann. En ef nýliðinn lærir ekki að sitja hestinn skammlaust, fer samt ekki vel.

Kennsla sé
innifalin

Eysteinn Leifsson:

Enginn atvinnumaður reynir vísvitandi að selja gallaðan hest. Ef kaupandi er ekki öruggur með sig, er gott að fá fróðan þriðja aðila með sér til að líta á hestinn, alveg eins og maður fær fróðan mann með sér til að líta á notaðan bíl.

Það mundi efla traust í viðskiptum með hesta, ef skýrari upplýsingar lægju fyrir um hestinn, ættir hans, ferilskrá og fleira. Grunnskráning hesta er ekki nógu góð í mörgum tilvikum.

Í Félagi tamningamanna hafa menn rætt um, að tamdir hestar séu teknir út og metnir, hvað kunnáttu snertir, en málið hefur ekki komizt á framkvæmdastig.
Einn vandinn er sá, að smávægilegir gallar koma ekki fram hjá atvinnumanni.

Þegar lítt vanur eigandi tekur við hestinum, fara gallar að koma í ljós og ágerast. Ég held, að það væri til bóta, að hestar væru seldir aðeins dýrar og þá með inniföldum nokkrum kennslutímum.

Kennsla fylgi

Eyþór Einarsson:

Ég er alveg ósammála því að seljendur séu almennt að reyna að leyna göllum hrossa sinna. Enda hlýtur það að vera skammgóður vermir ef menn ætla að starfa í þessari grein og selja sama kúnnanum oftar en einu sinni hest. Ég gæti trúað að algengasta ástæðan fyrir því að nýliðinn telur sig hafa keypt köttinn í sekknum sé sú að hann býr ekki yfir nægilegri kunnáttu til þess að viðhalda gæðingskostum hestsins sem hann keypti. Viljugur og flottur töltari getur breytzt ótrúlega hratt í skeiðgengan og taumstífan jálk.

Því finnst mér nauðsynlegt fyrir nýliða í hestamennsku að leita sér fræðslu og hjálpar, sækja námskeið eða eða einkatíma hjá reiðkennurum. Allir sem ætla að byrja í hestum þurfa skilyrðislaust á kennslu að halda, reiðlistin er ekki bara einhver meðfæddur eiginleiki. Menn þurfa sífellt að vera sækja sér meiri fróðleik og tel ég það vera eðlilegan hlut fyrir alla knapa hvort sem þeir eru nýliðar eða atvinnumenn.

Ég held að það sé góða leið til að efla traust manna í millum í hrossa viðskiptum að seljandi hestsins fylgi kaupunum eftir með reiðkennslu eða annarri aðstoð og þjónustu við kaupandann.

Í dag tel ég að með tilkomu reiðskóla sem útskrifa tamningamenn og þjálfara að tamningar séu almennt mun staðlaðri og vandaðri en áður. Því finnst mér að verð á reiðhestum sé yfirleitt alltof lágt miðað við þá vinnu sem að baki liggur.

Eyðublað með reitum
sýni prófíl hestsins

Sigurbjörn Bárðarson:

Kaupandinn þarf að fá tækifæri til að sjá, hvernig hestur, sem er til sölu, bregzt við ýmsum bendingum og ýmsu áreiti.

Seljandanum ber að sýna, að hesturinn sé óttalaus og yfirvegaður, svari bendingum knapans úr hendi eða rödd, sæki fram, stöðvi, víki til hliðar og bakki. Hesturinn standi kyrr og slakur, þegar komið er á bak, gangi spennulaus af stað og svari mjúklega taumábendingum.

Seljandinn sýni, að knapinn geti sleppt hendi af taum og rétt handleggina út, fram og aftur, án þess að hesturinn ókyrrist. Ennfremur, að hesturinn taki því vel, að fótum sé þrýst að síðum um og aftur fyrir gjörð. Kaupandinn þarf að vita, hvort óhætt er að leita í vösum sínum á hestbaki og hvort hægt sé að laga ístaðsól með hendi, skipta kæruleysislega um hendi á písk, missa ístað og leika eftir ýmsar uppákomur, sem geta komið fyrir á hestbaki, án þess að hesturinn spennist upp.

Sýna ber hestinn með einföldum reiðbúnaði, án hófhlífa eða annars hjálparbúnaðs, svo að ganghæfni hans komi skýrt í ljós. Taka ber hestinn beint úr hesthúsi, án þess að hann hafi verið hreyfður áður þann daginn eða úr haga.

Sem betur fer eru fullmótaðir hestar ekki lengur sjaldgæfir. Tamningamenn eru mun betur menntaðir og kunna almennt séð betur til verka en áður var. Þeir eiga að geta skilað af sér þægum fjölskylduhestum, sem venjulegt fólk getur notað til félagslyndra útreiða, þar sem það getur spjallað saman og gantast, án þess að hesturinn verði of órólegur.

Erfitt er að setja upp formúlur fyrir því, hvernig söluhestur er skoðaður, en ég tel þó, að eins konar skriflegur prófíll gæti verið gagnlegur. Notað sé staðlað eyðublað með reitum fyrir krossa, þar sem merkt er, hvernig hestur bregzt við ýmiss konar bendingum og áreiti. Út úr þessu kæmi eins konar stöðluð lýsing á hestinum, prófíll hans.

Sumir vilja dauðþæga hesta, sem eru öruggir við allar aðstæður, en aðrir vilja meira fjör og jafnvel geðríki í hestum, án þess að þeir verði hættulegir. Sumum hentar ekki, að hestur tvístígi, þegar maður fer á bak, en öðrum getur það verið dæmi um hesturinn sé hæfilega ör.

Prófíllinn á að geta staðsett hestinn í þessu mynztri, hvort hann sé alþægur eða fyrir lengra komna og þá fyrir hve langt komna reiðmenn. Ég tel, að Félag tamningamanna geti haft frumkvæði að gerð svona eyðublaðs, sem verði að prófíl hestsins, þegar það er fyllt út. Um leið segir prófíllinn, hversu mikið er búið að temja hestinn, hversu vel hann er undirbúinn.

Svona eyðublað yrði aðhald að lélegum sölumönnum, sem eyðileggja markaðinn með því að selja fólki hesta, sem ekki henta því. Ég sé fyrir mér, að eyðublaðið sé hæfilegt millistig, sem leysi úr brýnni þörf fyrir aukið traust á hestakaupamarkaði, án þess að skriffinnska og skipulag keyri úr hófi fram.

Ónothæf forskrift að hestakaupum

Jónas Kristjánsson:

Á vegum stofnana og samtaka í hestageiranum hefur verið búin til forskrift að hestakaupasamningi, sem fólk hefur aðgang að, meðal annars á Eiðfaxavefnum. Þessi forskrift er samin út frá hagsmunum seljenda, tekur ekki á skorti á trausti í hrossaviðskiptum og kemur því ekki að gagni.

Sem dæmi um anda forskriftarinnar má nefna 4. grein hennar um ábyrgð. Samkvæmt greininni þarf hann meira að segja sjálfur að kosta dýralæknisskoðanir á hestum, sem honum eru boðnir til kaups:

“Hesturinn er seldur eins og hann hefur verið skoðaður, kaupandi hefur riðið hestinum eða látið gera það og sættir sig við ástand hans eins og það er í einu og öllu. Kaupandi getur ekki borið fyrir sig leynda galla á hestinum, nema hann láti dýralæknaskoða hestinn innan tveggja vikna frá móttöku hans.

Seljandi lýsir því yfir að hann hefur ekki ástæðu til að ætla að hesturinn sé haldinn neinum þeim leyndu annmörkum/göllum sem telja má að kaupandi myndi setja fyrir sig ef upplýst væri.

Hesturinn er seldur óséður og ber seljandi ekki ábyrgð á ástandi hans, hafi kaupandi ekki kvartað yfir hestinum innan tveggja vikna frá móttöku hestsins.”

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 4.tbl. 2003