Traust er bezt í lengd

Punktar

Eftir afdráttarlausar fyrri yfirlýsingar borgarstjórans í Reykjavík í haust er eðlilegt, að forustumenn Framsóknar og Vinstri grænna telji sitt fólk hafa verið svikið í tryggðum með óvæntri yfirlýsingu um þingframboð, þótt vonlaust framboð sé. Borgarstjórinn hefur fórnað trausti tveggja af þremur aðilum Reykjavíkurlistans. Líklega verður kíttað í trúnaðarbrestinn að sinni, en gömul reynsla segir, að betra sé heilt en vel gróið, hvað þá illa gróið. Samfylkingin krækir í stundargróða í kosningum næsta vors, þótt borgarstjórinn sjálfur komist ekki á þing. En bragðvísi í samstarfi er oftast einnota. Reykjavíkurlistinn verður varla aftur boðinn fram.