Loksins er komin skoðanakönnun, sem úrskurðar um það, sem við höfum rifizt um í vetur: Hvort hægt sé að trúa Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Hvort muni verða formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Hver muni taka við af Davíð Oddssyni.
Tökum fyrst Davíð. Skoðanakönnun Fréttablaðsins um traust manna og vantraust á stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar segir okkur, að 28% treysti honum og 25% vantreysti honum. Ég túlka þessa niðurstöðu þannig, að Sjálfstæðisflokkurinn treysti honum og að stjórnarandstaðan vantreysti honum.
Aðeins einn annar leiðtogi Sjálfstæðisflokksins mældist í könnuninni. Það er Geir Haarde, sem nýtur 6,5% trausts og einskis vantrausts. Enda eru flestir orðnir sannfærðir um, að hann muni taka við af Davíð, þegar hann hættir sem formaður, sennilega og vonandi að loknu kjörtímabilinu.
Samfylkingin er hinn stóri flokkurinn. Þar kemur í ljós, að Ingibjörg Sólrún nýtur mikils trausts, 15%, en traust Össurar mælist ekki. Hann þarf aftur á móti að þola 14% vantraust meðan hún þarf aðeins að þola 9%. Þetta segir mér þá sögu, að Samfylkingin muni kjósa hana formann í vor.
Súpermaður könnunarinnar er Steingrímur J. Sigfússon, sem nýtur 25% trausts, sennilega tvöfalt trausts flokksins, er hann stýrir. Hann verður áreiðanlega formaður Vinstri grænna í næstu kosningum og er líklegur til að hala flokkinn upp á kostnað Framsóknarflokks Kárahnjúkavirkjunar og Íraksstríðs.
Formaður Framsóknarflokksins er hinn sigraði í þessari skoðanakönnun um traust og vantraust. Aðeins 4% treysta honum, tæplega helmingur Framsóknarflokksins, en 31% vantreysta honum. Þar ranglar greinilega um sali mislukkaður formaður, sem flokkurinn þarf að losa sig við sem fyrst.
Spunakerlingar flokksformanns og forsætisráðherra kvarta um, að ruddalega sé talað um Halldór, hann til dæmis sagður hafa logið að fólki um meðferð Íraksmálsins. Gegn fullyrðingum Halldórs hafa þó fimm þingmenn og ráðherrar Framsóknar lýst málavöxtum á allt annan hátt en hann hefur ítrekað gert.
Ég tel, að Halldór hafi þar verið að ljúga. Könnunin sýnir, að fleiri eru sama sinnis. Hann hefur líka troðið upp á okkur Kárahnjúkavirkjun, skert stöðu fátækra og hrúgað upp óþörfum sendiherrum. Hann og nánasta hirð hans hafa flutt Framsókn úr grænni miðju litrófsins yfir að svörtum fasisma.
Framsókn þarf ekki að skipta um varaformann og ritara á flokksþinginu í vetur. Hún þarf að skipta um formann, sem fiskar alls ekki, hefur komið fylgi flokksins niður í 8%.
Jónas Kristjánsson
DV