Vandræði framsóknarmanna á Norðurlandi eystra og sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi eru góð dæmi um, hversu erfitt er að finna algilda aðferð við val á frambjóðendum til kosninga. Allar aðferðir, sem reyndar hafa verið, geta farið hastarlega út um þúfur.
Reynd hafa verið galopin og mismunandi opin prófkjör stuðningsmanna, lokuð prófkjör flokksmanna og mismunandi þröngra hópa starfandi flokksmanna. Einnig hafa verið reyndar ráðgefandi skoðanakannanir flokksmanna og mismunandi þröngra hópa þeirra.
Aðstæður ráða, hvenær hver aðferð gefst vel og hvenær illa. Þeim, sem aðferðunum ráða, tekst stundum vel að spá, hvað sé heppilegast. Stundum tekst þeim það líka hrapallega, eins og bezt sést nú af dæmunum frá Reykjaneskjördæmi og Norðurlandi eystra.
Fyrir síðustu kosningar láðist sjálfstæðismönnum á Vestfjörðum að hafa prófkjör. Þar fékk reiði manna útrás í sérframboði. Í þetta sinn var prófkjör látið ráða ferðinni og framboðsniðurstaða fékkst með ljúfri löð. Þannig geta prófkjör oft gert mikið gagn.
Meira eða minna opin prófkjör eru til þess fallin að brjóta innanflokksstíflur. Þau henta bezt eftir langt tímabil lokunar, þegar stuðningsmenn flokksins eru farnir að efast um, að valdakerfið og fulltrúarnir endurspegli lengur raunveruleg viðhorf stuðningsmannanna.
Sé ekki um neinn slíkan ágreining að ræða, eru prófkjör oft óþörf og geta jafnvel orðið til að framleiða ágreining. Þau hafa líka freistað frambjóðenda til að beita kostnaðarsömum aðferðum við að koma persónu sinni og skoðunum á framfæri við kjósendur.
Flestir munu til dæmis vera sammála um, að auglýsingar frambjóðenda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík hafi gengið út í öfgar. Menn eiga ekki að þurfa að safna saman hundruðum þúsunda króna til þess að geta orðið virkur frambjóðandi í prófkjöri.
Hinu má fólk heldur ekki gleyma, að hið dýra prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík leiddi þó til óumdeildrar röðunar á lista, meðan klíkumakk og feluleikur sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi hefur leitt til ósættis, sem getur skaðað þann flokk í kjördæminu.
Ekki má heldur gleyma, að hin galopnu prófkjör, sem voru meira notuð áður fyrr en núna, soguðu fylgi til flokkanna, sem þorðu að halda þau. Þeir, sem þátt tóku í þeim, freistuðust síðan til að kjósa sama flokk. Og ótti um árásir úr öðrum flokkum reyndist ástæðulítill.
Til er traust aðferð til prófkjörs, sem útilokar ýmsa galla, er hér hafa verið nefndir. Hún leiðir ekki til, að stuðningsmenn annarra flokka hafi óeðlileg afskipti. Hún leiðir ekki til innanflokksósættis fyrir kosningar. Og hún leiðir ekki til óhóflegra útgjalda frambjóðenda.
Lausnin er að færa prófkjör inn í kosningarnar með því að hafa listana í sjálfum kosningunum óraðaða. Dregið sé um röð frambjóðenda á listunum. Setji kjósendur ekki númer við nöfn frambjóðenda, er gert ráð fyrir, að þeir sætti sig við röðun hinna, sem það gera.
Þá geta þeir og aðeins þeir, sem kjósa flokkinn, raðað lista hans. Engin sárindi út af þeirri röðun hafa áhrif á samstöðu innan flokks í kosningabaráttu. Og erfitt er fyrir einstaka frambjóðendur að stunda persónuauglýsingar framhjá kosningabaráttu flokksins.
Þeir, sem fyrr eða nú hafa lent í vandræðum við val á framboðslista, mættu gjarna minnast þess, að til er leið, sem leysir vandann, óraðaðir framboðslistar.
Jónas Kristjánsson
DV