Samningur heilbrigðisráðherra vegna öryrkja var ekki einn. Samningarnir voru tveir. Sá fyrri var samningur hans við öryrkja upp á 1,5 milljarða og sá síðari var samningur hans við ríkisstjórnina upp á 1 milljarð króna. Svona vandi hefur áður einkennt ráðherrann í þessu máli og ýmsum öðrum.
Jón Kristjánsson skilur ekki hlutverk sitt sem ráðherra. Hann á ekki að vera sendisveinn fyrir hagsmunasamtök og ekki fyrirgreiðsluþingmaður, sem getur lofað upp í ermina á sér. Hann er ráðherra og þarf að standa og falla með niðurstöðum, sem verða í samningaviðræðum hans við hagsmunaaðila.
Ráðherra á að tryggja bakland sitt í ríkisstjórninni, þegar hann reynir að sætta hagsmunaaðila. Með símtölum getur hann útskýrt fyrir mikilvægum samráðherrum, hvernig mál standa og fengið stuðning þeirra við þá lausn, sem hann telur bezta í stöðunni. Þessa baklands hefur ráðherrann oft ekki aflað.
Jón Kristjánsson virðist ekki skilja þetta. Hann lítur á samninga sína við aðila úti í bæ, sem eins konar samkomulag um, að hann taki að sér málfærslu fyrir niðurstöðunni í ríkisstjórn og geti ekki lofað meiru en tveimur þriðju hlutum samningsins. Hann virðist telja þetta vera í lagi.
Ráðherrann verður svo meira að segja reiður, þegar hann er sakaður um svik við samkomulag við málsaðila úti í bæ. Ég reyndi eins og ég gat, segir hann við þá. Það er ekki hægt að kenna mér um, að það náðist ekki fram í ríkisstjórn, segir hann. Ekki benda á mig, segir sjálfur ráðherrann.
Ekki bætir úr skák, að Jón Kristjánsson virðist heykjast á málstaðnum á leiðinni frá hagsmunaaðila upp í ríkisstjórn. Hann gerir ekki samráðherrum sínum fulla grein fyrir, að hann verði að standa og falla með samningum úti í bæ. Allir samráðherrar hans vita, að hann muni ekki segja af sér.
Þótt heilbrigðisráðherra hafi getað ort góðar vísur í fjárlaganefnd og skipulagt þar fyrirgreiðslur, er hann ófær í ráðherrastólnum. Hann hefur ekki bein í nefinu og telur vera í lagi að semja um eitt við annan og um annað við hinn. Hann er misskilinn sáttasemjari á röngum stað í tilverunni.
Greinilega er þýðingarlaust fyrir aðila úti í bæ að semja við ráðherrann um niðurstöðu, sem síðan kemst ekki til framkvæmda, af því að ráðherrann starfar ekki eins og ráðherra, heldur eins konar sendisveinn eða ábyrgðarlaus málflutningsmaður, sem hvergi nýtur fullnægjandi trausts.
Sorglegastur er ráðherrann, þegar hann reiðist, þegar hann er sakaður um svik við undirskriftir sínar, af því að hann skilur með engu móti, að ábyrgð fylgir eigin undirskriftum.
Jónas Kristjánsson
DV