Traustið er horfið

Greinar

Dollarinn getur ekki verið gjaldmiðill alls heimsins, ef heimurinn hættir að treysta verðgildi hans. Sjúkur miðill getur ekki verið gjaldmiðill heimsins. Við hverja lækkun dollars fjölgar þeim, sem telja öruggara að flýja í evruna, sem óvart er að taka við sem gjaldmiðill heimsins.

Nú eru það einkum Japan og sérstaklega Kína, sem halda gengi dollars uppi með því að safna honum. Seðlabankinn í Kína á ógrynni dollara og getur látið hann rúlla með því að fara að selja. Heimsveldi, sem eyðir og spennir fyrir náð og miskunn Kína, hefur ekki ráð á að heyja stríð í þriðja heiminum.

Stríðið við Afganistan hefur farið illa. Herstjórar ráða öllum þorra landsins og framleiðsla eiturlyfja er kominn í sögulegt hámark. Stríðið við Írak er að fara á verri veg. Meirihluti þjóðarinnar mun í fyrirhuguðum kosningum koma trúuðum sjítum til valda og grafa undan bandarísku hernámi.

Stríðið við Afganistan var dýrt og stríðið við Írak er orðið enn dýrara. Bandaríkin hafa ekki efni á þessu. Ef þau geta ekki fljótlega kallað herinn heim, hrynur dollarinn, af því að útlendingar fara að selja dollara í auknum mæli. Ósigur blasir því við í Írak, eins og í Víetnam fyrir 30 árum.

Bandaríkjastjórn hefur Íran á heilanum, en á ekki peninga fyrir stríði þar. Hún hefur látið slátra tugum þúsunda manna í Írak, en ræður ekki við milljónir Írana. Nú verður hún að horfa á, að ný ríkisstjórn sjíta í Írak mun á næsta ári sækjast eftir vinsamlegri sambúð við stjórn sjíta í Íran.

200.000.000.000 dollarar hafa farið í geðveiki Bandaríkjanna í Írak án þess að nokkuð hafi komið í staðinn. Herinn hefur enga stjórn á landinu, enda bað almenningur í Írak hann ekki um að frelsa sig. Enn einu sinni lenda Bandaríkin í að reyna að frelsa fólk með því að slátra því. Eins og í Víetnam.

Á sama tíma gengur Bandaríkjastjórn berserksgang annars staðar í heiminum. Hún reynir að ófrægja framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóra Kjarnokurstofnunar samtakanna, eins og hún reyndi áður að ófrægja evrópska leiðtoga, sem neituðu að fylgja henni í stríð gegn Írak.

Bandaríkjastjórn berst um á hæl og hnakka gegn aðgerðum í mannréttinda- og umhverfismálum. Í hverju málinu á fætur öðru stendur hún nokkurn veginn ein í heiminum, búin að ljúga svo miklu í fjögur ár, að allir trúa frekar öðrum aðilum, ef þeir eru á öðru máli en Bandaríkjastjórn.

Dollarinn er rúinn trausti og Bandaríkjastjórn er rúin trausti. Hún getur ekki logið meira, af því að menn trúa ekki lengur. Menn mundu frekar trúa Castro eða Gaddafi.

Jónas Kristjánsson

DV