Traustið skiptir mestu

Greinar

Nokkrir alþýðuflokksmenn, með formann flokksins í broddi fylkingar, hafa kvartað um, að drög að stefnu nýja flokksins, Þjóðvakans, séu eins og stefna Alþýðuflokksins, sumpart nánast orðrétt. Þeir, sem kvarta, telja auðvitað, að ekki þurfi nýjan flokk um þessi málefni.

Rétt er, að stefnuyfirlýsing Þjóðvakans er í verulegum atriðum hin sama og Alþýðuflokksins, alla leið yfir í áþreifanleg atriði á borð við, að landið allt verði eitt kjördæmi, að fáir lífeyrissjóðir verði fyrir alla landsmenn og að innleitt verði veiðileyfagjald í stað kvóta.

Hinu er svo ekki að leyna, að Alþýðuflokkurinn gerir aldrei neitt í málefnum sínum. Hann notar þau til að veifa á flokksfundum, en situr um leið heilu kjörtímabilin í ríkisstjórn án þess að reyna að koma fram stefnuskrármálum flokksins. Hann situr bara og situr.

Gott dæmi um þetta er breyting á vægi atkvæða, sem lofað var í hvítri bók ríkisstjórnarinnar frá maí 1991. Ekkert gerðist svo í því máli fyrr en á landsfundi hins ríkisstjórnarflokksins í október 1993. Í framhaldi af því voru samdir minnispunktar embættismanna í maí 1994.

Það var svo ekki fyrr en 21. nóvember, að stjórnmálaflokkar voru beðnir um að nefna fólk í nefnd um málið. Þá var orðið nokkurn veginn ljóst, að málið var fallið á tíma, enda voru flokkarnir ekki búnir að skipa fulltrúa sína nú um mánaðamótin og þinghald senn á leiðarenda.

Einnig á Alþýðuflokkurinn við annað vandamál að stríða. Samkvæmt skoðanakönnunum eru formaður og varaformaður flokksins tveir af þremur óvinsælustu stjórnmálamönnum landsins. Flokkurinn sker sig að þessu leyti úr flokkaflórunni á kosningavetri.

Skoðanakannanir sýna þriggja þingmanna fylgi Alþýðuflokksins um þessar mundir. Það gengisleysi byggist ekki á stefnuskránni, heldur á vanefndum flokksins og óvinsældum forustumanna, svo og á afkáralegum spillingarferli flokksins á kjörtímabilinu.

Fjöldi kjósenda hefur áttað sig á, að stefnuskrár eru lítilfjörlegur þáttur stjórnmálanna. Reynslan sýnir, að ástæðulaust er að taka þær bókstaflega, þótt í öðrum tilvikum en Alþýðuflokksins megi reikna með, að flokkarnir hafi óljósa hliðsjón af þeim, þegar verkin tala.

Fimmtán þingmanna fylgi Þjóðvakans í skoðanakönnun byggist ekki að neinu leyti á því, hvað stendur um kosningalög, lífeyrissjóði og fiskveiðiskipan í stefnuyfirlýsingu flokksins. Fylgið stafar af uppreisn foringjans gegn flokki og stjórn, sem margir telja hafa svikið.

Fylgi flokka fer ekki nema að litlu leyti eftir málefnum þeirra. Að svo miklu leyti, sem það byggist ekki á gömlum merg, fer það eftir trausti kjósenda á forustumönnum flokkanna í landinu í heild og í einstökum kjördæmum. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um fólk og aftur fólk.

Kjósendur virðast orðnir þreyttir á ræðuskörungum stjórnmálanna. Fyrir utan formann og varaformann Alþýðuflokksins, sem báðir hafa óvenjulega liðugt málbein, er þriðji óvinsældakóngurinn formaður Alþýðubandalagsins, sem ekki hefur síður liðugan talanda.

Í staðinn halla kjósendur sér að stjórnmálakonu, sem kann ekki par í ræðumennsku, heldur æpir að áheyrendum á innsoginu í útifundarstíl án þess að henni stökkvi bros. Velgengni hennar sýnir, að hæfileikar á hefðbundnum sviðum stjórnmála skipta litlu máli í nútímanum.

Fylgissveiflur fylgja ekki málefnum flokka eða markaðssettri framgöngu stjórnmálamanna, heldur trausti eða vantrausti almennings á meintum persónum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV