Tröllabotnar

Frá brú yfir Selfljót á vegi 984 á Fljótsdalshéraði um Tröllabotna að Hvannstóði í Borgarfirði eystra.

Algeng reiðleið milli Fljótsdalshéraðs og Innsveitar í Borgarfirði fyrir lagningu bílvegarins um Vatnsskarð. Norðan Tröllabotna og Lambamúla er Stórurð, eitt af meiriháttar náttúruundrum landsins. Hún varð til við, að klettar hrundu úr fjöllum, sem stóðu upp úr jökli, færðust niður hlíðarnar með jöklaskriði og strönduðu neðar. Svipuð fyrirbæri eru víðar um Dyrfjöll, hæstu fjöll Borgarfjarðar, 1136 metrar. Heita eftir Dyrum, klettaskarði í fjallgarðinum miðjum. Dyrnar eru í 856 m hæð. Jóhannes Kjarval, notaði þau oft sem fyrirmynd, enda uppalinn á Borgarfirði. Finna má í þjóðsögum sagnir um álfakóng, Grýlu og jólasveina í Dyrfjöllum. Neðri hluti þeirra mynda háa móbergshamra. Efstu hraunlögin eru úr basalti.

Byrjum á þjóðvegi 984 á brú yfir Selfljót vestan við Unaós. Förum suðvestur og upp með Selfljóti hjá Hrafnabjörgum. Þaðan sveigjum við suður frá fljótinu upp með Jökulsá að utan, um Sníðakinn og meðfram Lönguhlíð. Við Urðardalsá tökum við krók til austurs inn í Urðardal að Stórurð. Síðan til baka aftur út Urðardal og beygjum suðaustur um Eiríksdal í Tröllabotna. Þar förum við yfir Eiríksdalsvarp til suðausturs vestan við Tindfell í 520 metra hæð og niður á Sandaskarðaleið til Borgarfjarðar.

22,3 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Gönguskarð eystra, Sandaskörð, Kækjuskörð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort