Trosnaður aðgöngumiði

Greinar

Sjálfsímynd okkar hefur til skamms tíma verið af lestrarþjóð, sem notar langvinnt skammdegi til lestrar góðra bóka og sumpart til fræðistarfa, sem tengjast skráðum heimildum. Við höfum til skamms tíma talið, að Íslendingurinn væri lestrarhestur og fræðimaður í sér.

Nýbirt fjölþjóðakönnun bendir til, að þessi ímynd sé ýkt. Læsi á fræðibækur er að vísu betra meðal íslenzkra unglinga en annarra unglinga. En læsi er almennt betra meðal unglinga í Finnlandi, Frakklandi og Svíþjóð. Og læsi á töflur og myndrit er fremur lélegt hér á landi.

Ríkisstjórn og alþingi lögðu á miðju þessu ári stein í götu lestrarkunnáttu með því að leggja virðisaukaskatt á prentað mál. Samfara þessu hefur bókaútgáfa dregizt saman, tímaritaútgerðir orðið gjaldþrota og litlu dagblöðin ýmist lagt upp laupana eða hanga á horriminni.

Upplýsingar renna nú í fleiri straumum en í prentuðu máli einu. Fólk getur komizt sæmilega af í lífinu, þótt það sé stirt til lestrar eða notfæri sér ekki lestrarkunnáttu. En læsi verður áfram aðgöngumiði unga fólksins að vel launuðum og vel virtum störfum í þjóðfélaginu.

Fjölþjóðakönnun sýnir, að dagblöð stuðla meira en aðrir prentmiðlar að læsi unglinga. Meðan lestur og sala stærstu dagblaðanna fer lítillega vaxandi, er ástæða til að ætla, að almennt séð þurfi þjóðin ekki að hafa verulegar áhyggjur af læsi unglinga á líðandi stund.

Draumaverksmiðja sjónvarps er eigi að síður að rjúfa skörð í menntað stéttleysi þjóðarinnar. Smám saman myndast undirstétt, sem unir sér bezt við imbakassann. Innan hennar myndast botnstétt, sem lendir í vítahring atvinnuleysis, bjórneyzlu og sjónvarpsgláps.

Einkenni þessara hópa er, að þeir telja sjón vera sögu ríkari. Þeir ímynda sér til dæmis, að fréttaleikhús sjónvarps endurspegli raunveruleikann betur en fréttir á pappír. Þeir treysta líka upplýsingum sjónvarps betur en rituðum heimildum dagblaða og tímarita.

Undirstéttirnar kjósa okkur pólitíska foringja í samræmi við verksmiðjuframleiddar ímyndir í sjónvarpi. Þannig hafa á Vesturlöndum komizt til valda meira eða minna óhæfir ráðamenn, sem ekki eru vaxnir vandamálum, sem fylgja breytingum og byltingum nútímans.

Vestrænt samfélag og þar á meðal þjóðfélagið á Íslandi er farið að skaðast af völdum fjölmennrar undirstéttar, sem velur okkur leiðtoga eftir ímynduðum persónuleika; – sem telur fréttaleikhús endurspegla raunveruleikann; – sem lítt eða ekki notfærir sér lestur.

Í fyrravetur var sagt frá könnun, sem sýndi, að fjórðungur grunnskólanema getur tæpast talizt læs. Samkvæmt nýju könnuninni virðist þetta lagast á unglingsaldri, sumpart vegna notkunar á dagblöðum. Grunnskólatorlæsið er samt umhugsunar- og áhyggjuefni.

Skólamenn þurfa að taka á þeim vanda, að á grunnskólaaldri sitja Íslendingar í lestri á eftir mörgum vestrænum þjóðum og fara ekki að lagast fyrr en eftir þann aldur. Þeir þurfa að spyrja sig, hvort aðferðir við lestrarkennslu séu farnar að úreldast og þarfnist endurnýjunar.

Afþreying í bókum megnar síðan ekki að keppa við afþreyingu í sjónvarpi, þegar skólinn hefur sleppt hendinni af fólki. Helzt er hægt að treysta því, að dagblöðin taki við því óbeina hlutverki að halda við og efla lestrargetu þjóðarinnar, svo sem nýja fjölþjóðakönnunin sýnir.

Það er afar brýnt, að þjóðfélagið sé sem minnst skipt í stéttir og að sem flestir eigi þann aðgöngumiða að möguleikum, sem felst í að geta lesið og að notfæra sér það.

Jónas Kristjánsson

DV