Nú eru endurvaktir kaþólskir miðaldatímar í Háskóla Íslands. Í stað hinna kaþólsku vísinda, sem þá voru kórrétt, eru komin hin marxisku vísindi, sem nú eru orðin kórrétt í hluta heimspekideildar.
Útskrifaður háskólaborgari, sem hefur kennt dönsku í átján ára getur ekki haldið áfram frekara námi í dönsku, af því að hún hefur ekki sömu marxisku trúarbrögðin og kennarar í dönsku vilja troða upp á alla nemendur sína.
Í gamla daga urðu menn að gjalda skoðana sinna, ef þeir töldu kaþólsku ekki vera vísindi. Nú er aftur svo komið, að menn verða að gjalda skoðana sinna, ef þeir telja marxiska trú ekki vera vísindi.
Auðvitað er marxismi ekki vísindi. Það er ekki einu sinni til einn marxismi, heldur margir marxismar. Alveg eins og margar kaþólskur deildu í gamla daga um merkingu ritningarinnar, deila nú margir marxismar um sina ritningu.
Allir ismar heimsins eru í bezta lagi hugmyndakerfi, en oftast þó trúarbrögð. Það, sem sameinar þessa isma, er fyrirlitning á skoðunum annarra og notkun valdaaðstöðu til að hindra rétt þeirra til þessara skoðana.
Voltaire gamli sagði: “Ég fyrirlit skoðanir þínar, en er fús til að láta lifið fyrir rétt þinn til að hafa þær.” Þessi grundvallarhugsjón frelsisbaráttu mannsandans hefur fallið niður milli fjala miðaldakaþólsku og marxisma.
Auðvitað er sjálfsagt, að menn fái að læra marxisma, helzt marga marxisma, og raunar aðra isma í háskólanum, svo sem spíritisma og nýjalsisma, en þó á þann hátt, að þeir trufli ekki aðra kennslu, svo sem dönskukennslu.
Heimspekideild háskólans vísaði frá að lítt athuguðu máli kærunni, sem reis út af innrætingu trúarbragða í dönskukennslu. Þessi frávísun og meðferðin á kærandanum eru deildinni og háskólanum í heild til skammar.
Aðalstefna deildarinnar virðist verða að standa saman um sína menn. Þetta minnir á stuðning deildarinnar við skipun prófessors í sagnfræði, sem var í samræmi við umdeilt álit dómnefndarmanns úr deildinni.
Þá setti deildin niður, af því að þessi maður skrifaði undir eitt álit, þar sem hann taldi tvo umsækjendur hæfa, og annað álit, þar sem hann taldi þá óhæfa. Einnig vegna þess, að álit hans var fullt af skætingi og áróðri.
Háskólarektor og háskólaráð yppta öxlum og segja allt þetta vera einkamál deildarinnar, sem komi rektor og ráði ekki við. Þetta er sjálfsagt rétt, en bjargar ekki sóma skólans.
Almenningur og útskrifaðir háskólamenn eru farnir að tala um heimspekideildina sem “súpergaggó”. Er þá átt við, að menn geti dólað þar í gegn án forsenda úr fyrra námi, án hæfileika og án ástundunar.
Fyrir nokkru var svo komið, að kunnugir menn töldu sig hafa dæmi um vaxandi andstöðu erlendra alvöruháskóla gegn því að taka gild próf úr heimspekideild. Væru önnur lönd en Norðurlönd að lokast af þessum ástæðum.
Með þessu er auðvitað verið að dæma heila háskóladeild og raunar heilan háskóla fyrir vandamál, sem kunna að vera afmörkuð. En það er verkefni deildar og skóla að sýna fram á, að “súpergaggó” sé rangnefni.
Við slíkar aðstæður mega háskóli og heimspekideild sízt við því, að hafið sé trúarbragðaofstæki í dönskukennslu.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið