Trúarstyrjöldum fækkar

Greinar

Langt er síðan minni ófriður hefur verið í heiminum í upphafi nýs árs en er að þessu sinni. Árið 1988 var eitt af mestu friðarárum þessarar aldar, þegar frá eru talin lok heimsstyrjaldanna tveggja. Í nærri öllum heimsálfum hafði fólk ástæðu til að anda léttar á síðasta ári.

Mestu skiptir, að samið var um vopnahlé í mannskæðu trúarstríði sjíta í Íran og sunníta í Írak. Hundruð þúsunda manna féllu þar í baráttu milli tveggja megingreina múhameðstrúar. Írakar hófu stríðið, en höfðu ekki árangur sem erfiði, því að niðurstaðan varð patt.

Styrjöldin varð svo alvarleg um tíma, að hún ógnaði olíuhagsmunum Vesturlanda, sem sendu herskip á vettvang til að halda opnum siglingaleiðum olíuskipa um Persaflóa. Sameinuðu þjóðirnar áttu að lokum umtalsverðan þátt í að stilla til friðar á svæðinu.

Sovétstjórnin ákvað á árinu að hætta hernaði í Afganistan og hóf brottflutning herja sinna þaðan. Hún skilur landið eftir í rústum og milljónir manna landflótta í öðrum löndum, aðallega í Pakistan. Samt tókst henni ekki að kúga öfl múhameðstrúar í landinu.

Ósigur Sovétríkjanna í Afganistan hefur heimssögu legt gildi. Í hrjóstrugum fjallgörðum smáríkis komst annað heimsveldið að því, að takmörk eru á valdi, alveg eins og hitt heimsveldið hafði áður komizt að í fenjum Víetnams. Heimsvaldastefna hlaut varanlegan hnekki.

Víðar í Asíu er friðvænlegra um þessar mundir. Víetnamar hafa dregið úr herafla sínum í Kambódsíu og segjast vera að hætta hernámi grannríkisins. Fólk vonar, að þetta leiði til nýrrar valdatöku hófsamra afla, en ekki hinna geðveiku kommúnista í Rauðu kmerunum.

Í Sri Lanka tókst að halda lýðræðislegar kosningar, þrátt fyrir ógnanir ofbeldissinna í röðum Tamíla og Sinhalesa, sem eru enn eitt dæmið um ofstækið í trúarbrögðum heims. Ánægjulegt er, hversu góðum rótum lýðræðisskipan er að skjóta í ríkjum Suður-Asíu.

Allan mátt hefur dregið úr stríðsmætti Afríkuríkja. Í Súdan eru deiluaðilar farnir að tala saman og friður er á landamærum Tsjad og Líbýu. Erlendir herir búa sig til brottfarar, Kúbverjar frá Angóla og Suður-Afríkumenn frá Namibíu. Allt er þetta betra en ekki neitt.

Í Mið-Ameríku er friðvænlegra á landamærum Nicaragua, þar sem Contra-skæruliðar hafa að mestu lagt niður vopn. Því miður stefnir innanlandsþróunin í Nicaragua í átt til hliðstæðs stalínisma og ríkir á Kúbu, en það stafar af fávísi öfgamanna í Washington.

Reiknimeistarar hafa skýrt frá, að blóðugum ófriðarbálum á hnetti mannkyns hafi fækkað eða sé að fækka úr 26 í 14 í fyrra og í upphafi hins nýja árs. Þetta er frábær árangur á tiltölulega stuttum tíma. En sums staðar hefur ástandið versnað á móti, svo sem í Palestínu.

Allt er þetta staðbundinn ófriður. Hagstæðar breytingar hafa einnig orðið á þeim ófriði, sem mestu máli skiptir, kalda stríðinu milli austurs og vesturs. Undirritaðir hafa verið samningar um samdrátt kjarnorkuvopna og fleiri samningar af því tagi eru í smíðum.

Að vísu er enn mikil óvissa um framvindu samdráttar kalda stríðsins, af því að Gorbatsjov og stefna hans standa höllum fæti heima fyrir í Sovétríkjunum. Kerfisliðið þar eystra kennir honum og stefnu hans um efnahagslega stöðnun og vaxandi hávaða í skoðanaskiptum.

Í heild getur mannkyn fagnað friðsamari jörð á nýju ári og hugleitt um leið, að fremur en efnahagslegir hagsmunir er trúarofsi af ýmsu tagi yfirleitt forsenda ófriðar.

Jónas Kristjánsson

DV