Trúbadorinn er lítill og fremur notalegur veitingastaður með fremur góðum mat á fremur hóflegu verði. “Fremur” gæti verið einkennisorð þessa staðar, sem er í kjallara neðan við Landsbankahúsið á Laugavegi 77, undir sömu tröppum og veitingastaðurinn Pétursklaustur.
580 krónur
í hádeginu
Fjölbreyttur salatbar er á boðstólum í hádeginu á 580 krónur og á 680 krónur, ef tekinn er heitur pottréttur til viðbótar. Þetta hagstæða verð felur í sér súpu og eftirréttaávexti. Súpan var fremur góð og pottrétturinn stórfínn, létteldað kjöt með brúnni sósu og hrísgrjónum. Ég man ekki eftir svona milt elduðum pottrétti annars staðar.
Á salatbarnum var appelsínupressa, svo að gestir gátu pressað sér alvöru safa. Þar var flest það, sem fólk tengir slíkum salatbörum, nema ferskir sveppir, og ýmislegt að auki, svo sem hnetur og rúsínur og þurrkaðir ávextir. Allt leit þetta út fyrir að vera vel ferskt og starfsfólk fylgdist vel með, að borðið liti vel út.
Pöstur og
tortillur
Að öðru leyti eru mjög einfaldir mexikanskir og ítalskir réttir einkenni staðarins. Pöstur og tortillur eru fyrirferðarmiklar á matseðlinum og senn munu pizzur bætast við, því að “fólkið vill þær”, eins og þjónninn orðaði það. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi var 2.200 krónur, sem telst vera fremur ódýrt.
Staðurinn er fremur þröngur og þar að auki mjög dimmur á kvöldin, þegar höfð er týra á perum og kerti látin loga. Aðeins haukfránir geta lesið matseðil við þessar aðstæður. Bólstraðir bekkir eru meðfram veggjum og fremur þægilegir stólar á móti. Tvöfaldir dúkar eru á borðum og þurrkur úr pappír.
Á grófum veggjum hanga hljóðfæri og Mexikanahattar, tunnubotnar og Mexikanaslár. Í lofti hangir ógrynni af bastklæddum flöskum af Toskaníuvíni. Niðursoðin tónlist er fremur róleg. Segja má, að þetta sé fremur rómantískt og suðrænt, en ekki þó í fókus sem slíkt, því að skrautið rambar milli Ítalíu og Mexikó.
Bragðsterkt
og bragðgott
Avocadomauk var fremur gott, en mjög kryddað, borið fram með bragðsterkum kornflögum úr pökkum. Sömu flögur, kallaðar “tortilla chip” á matseðlinum, fylgdu með afar sterkri mexikanskri sósu, sem var annar forréttur.
Þriðji forrétturinn, sem ég prófaði, var hvítlauksristaður hörpufiskur á skrúfupasta, sæmilegur réttur, en hefði mátt vera skemur eldaður. Rjómalöguð kaktussúpa var heit og góð, ekki of þykk, skemmtilega sérkennileg á bragðið.
Sjávarréttaspaghetti var gott, aðallega hörpufiskur og rækjur, í góðri og hæfilegra sterkri tómatsósu. Ostbakaður flatfiskur á spaghetti var líka góður, fremur hóflega eldaður.
Tortillur eru mexikanskar pönnukökur, sem eru vafðar um mat, kallaðar “tortillas”, “enchiladas” eða “tacos” eftir aðstæðum, venjulega pönnusteiktar og stundum djúpsteiktar. Þar í landi eru þær úr maís, en í Trúbador virtust þær yfirleitt vera úr hveiti.
Tortilla með kjötstrimlum, osti, avocado og pipar var góð. Sama var að segja um tortillu með nautahakki, grænmeti, osti og pipar.
Djúpsteikt pönnukaka með mangó-ís, borin fram með kanilkrydduðum rjóma, var skemmtilegur eftirréttur, sem áreiðanlega er sjaldséður hér á landi. Kaffi var fremur gott, borið fram með konfektmolum.
Pizzur efla
fábreytnina
Á mexikönskum veitingastað hefði ég kosið sitthvað fleira en tortillur, svo sem hráan fisk, kryddleginn í sítrónusafa, er Mexikanar kunna vel að meta. Á ítölskum veitingastað hefði ég kosið sitthvað fleira en spaghetti og skrúfupasta, svo sem sjávarrétta-risotto, er Feneyingar kunna vel að meta.
En fólk biður ekki um slíkt. Það biður um pizzur og fær þær. Poppið blífur í amöbu-þjóðfélaginu.
Þjónusta var í stíl staðarins, “fremur” góð.
Jónas Kristjánsson
DV