Samkvæmt auglýsingum trúa sumir Íslendingar því, að þeir geti frelsazt frá ofáti og grennst með því að kaupa nuddtæki eða ákveðnar tegundir af aðskornum nærbuxum. Samkvæmt vöruúrvali nýaldarverzlana trúa sumir Íslendingar beinlínis á stokka og steina.
Nokkrum sinnum hefur komið fram í fréttum í haust, að fólk trúir því, sem ráðherrar segja. Menn trúa, þótt dæmin sanni, að ráðherrar standa ekki einu sinni við það, sem þeir skrifa undir. Þeir treysta sér ekki einu sinni til að fylgja því eftir í fjárlagafrumvarpi.
Svo langt gengur réttaróvissan hér á landi, að ráðherrar fresta framkvæmd samþykktra laga, sem margir aðilar hafa miðað við í áætlunum sínum. Þannig kippa ráðherrar með geðþótta sínum undan vissunni um leikreglur, sem er hornsteinn lýðræðis og markaðshyggju.
Vitanlega ættu ráðherrar ekki að lofa neinu eða skrifa undir neitt, nema með fyrirvara um samþykki Alþingis, sem hefur fjárveitingavaldið. En þeim ætti þó að vera skylt að fylgja skriflegum loforðum sínum eftir í fjárlagafrumvarpi, sem ríkisstjórnin leggur fyrir Alþingi.
Reynslan sýnir, að þeir gera þetta ekki, ef geðþótti þeirra býður annað. Reynslan sýnir líka, að ríkisstjórnir standa ekki við sinn hlut af þjóðarsáttum, sem þær gera með aðilum vinnumarkaðarins til að halda niðri verðbólgu í landinu og koma á stöðugu efnahagslífi.
Þannig hefur það orðið fastur liður í nýjum þjóðarsáttum, að ríkisstjórnir lofa að standa við það, sem þær lofuðu í síðustu þjóðarsátt. Þótt foringjar samtaka launafólks hafi langa reynslu af þessu, létu þeir enn einu sinni trúgirni ráða ferð við gerð núgildandi kjarasamninga.
Blekið var varla þornað af síðustu þjóðarsátt, þegar ríkið fór sjálft að semja á hærri nótum við ýmsa starfshópa sína. Niðurstaðan er, að láglaunafólkið, sem þjóðarsáttin átti að afhenda meiri kjarabætur en öðrum, hefur borið minnst úr býtum eins og nærri alltaf áður.
Trúgirni foringja samtaka launafólks var svo mikil, að þeir létu undir höfuð leggjast að setja í samningana uppsagnarákvæði, sem tengdust vanefndum af hvers konar toga. Eina atriðið, sem sjálfkrafa losar samningana, er almenn verðþróun í landinu á samningstímanum.
Þar sem verðbólgan nær ekki viðmiðunarmarki á næstunni, losna samningar ekki, þótt foringjar samtaka launafólks þykist nú bíta í skjaldarrendur. Ef þeir æða út í vinnudeilur, munu þeir tapa þeim málum fyrir þar til bærum dómstólum. Þeir sitja í neti eigin trúgirni.
Frammistaða trúgjarnra foringja samtaka launafólks er smánarleg. Þeir sýna hvað eftir annað vanhæfni í starfi, en verður þó ekki velt úr sessi vegna takmarkandi ákvæða um gagnframboð í stéttarfélögum. Vangeta þeirra dafnar í skjóli óbeinnar æviráðningar.
Þessir foringjar eru við hæfi trúarlega frumstæðrar þjóðar, sem trúir á stokka og steina og sem er svo trúgjörn, að hún telur sig geta frelsazt undan ofáti og grennst með því að láta stytta garnir sínar eða kaupa sér nuddtæki eða ákveðnar tegundir af aðskornum nærbuxum.
Fólk, sem trúir á aðskornar nærbuxur sér til varnar gegn matarfíkn sinni, trúir því auðvitað líka, að ráðherrar standi við skriflegar yfirlýsingar sínar og að ríkisstjórnir standi við þátt sinn í þjóðarsáttum. Hún gerir ekki raunhæfar ráðstafanir meðan hún trúir og trúir.
Engin furða er, þótt happdrættin blómstri og happdrættisfélög auglýsi, að kaup á happdrættismiðum sé vænleg leið til að ná endum saman í heimilisbókhaldi.
Jónas Kristjánsson
DV