Trúgirni og óskhyggja

Greinar

Þessa dagana er fólk fúsara en nokkru sinni fyrr að trúa kenningum um, að grisja þurfi fiskistofnana í hafinu enn frekar, svo að þeir vaxi upp, enda hafi slíkt reynzt vera heppilegt í stöðuvötnum. Kenningasmiðir grisjunar hafa skyndilega fengið byr undir báða vængi.

Fólk vill trúa á heilbrigðan grisjunarmátt mikillar veiði, þótt hún hafi alls ekki gefizt vel á ýmsum hafsvæðum, svo sem í Norðursjó og við Færeyjar og Kanada, þar sem fiskistofnar hafa nánast eða alveg hrunið af völdum þeirrar grisjunar, sem felst í of mikilli veiði.

Fólk vill trúa á grisjun, þótt þorskveiðisaga síðustu aldar sýni, að hvíldin, sem þorskurinn fékk á tímum tveggja heimsstyrjalda, leiddi til stofnstækkunar og mikillar veiði á eftirstríðsárunum. Þá gat veiðin farið upp fyrir hálfa milljón tonna á ári, þrefalt hærra en núna.

Hafrannsóknastofnunin hefur gefið á sér höggstað með því að neyðast til að játa þriðjungs ofmat sitt á þorskstofninum. Í augum fólks hefur henni ekki tekizt að varðveita fræðilegan orðstír, þótt þar sé innan dyra að finna beztu fiskifræðiþekkingu, sem til er í landinu.

Stofnuninni hefur mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir þeim vanda, að heimilaður afli hefur flest ár verið töluvert meiri en sem nemur tillögum hennar. Henni hefur líka mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir feiknarlegum afla lítilla, en öflugra og vel búinna báta utan kvóta.

Enn fremur hefur henni mistekizt að gera fyllilega ráð fyrir áhrifum brottkasts á fiskistofna. Síðast en ekki sízt hefur hún verið höll undir meintar þarfir þjóðfélagsins fyrir miklar tekjur af fiskafla, eins og þær hafa verið túlkaðar af aðgangshörðum stjórnmálamönnum.

Hafrannsóknastofnunin þarf að verða minna diplómatísk og meira fræðileg. Hún þarf að gera meira af því að setja viðurkennda fræðimenn sína í sviðsljósið og hún þarf að halda fjölþjóðlegar ráðstefnur, þar sem erlendir sérfræðingar leggja sitt af mörkum til málanna.

Þyngsti hluti vandans leynist þó utan stofnunarinnar. Í almenningsálitinu er aflatillögum hennar ruglað saman við svokallað gjafakvótakerfi, sem sætir almennri fyrirlitningu. Reiði fólks út í gjafakvóta stjórnmálamanna kemur niður á fiskveiðiráðgjöf vísindamanna.

Fólk er ósátt við, að auðlindir hafsins skuli án endurgjalds vera afhentar völdum aðilum, sem síðan selja öðrum kvótann fyrir morð fjár og flytja hagnaðinn úr landi. Almenningur er ósáttur við spillinguna, sem fylgir þessari skömmtun eins og svo margri annarri.

Spillingu gjafakvótakerfisins má afnema með því að leigja kvótann út á opinberu uppboði. Engin þörf er á að kasta barninu út með baðvatninu. Áfram þarf skömmtun á aðgangi að takmarkaðri auðlind hafsvæðanna við Ísland, þótt núverandi gjafakvóti verði lagður niður.

Jarðvegurinn er kjörinn fyrir kenningasmiði grisjunar og pólitíska plötuslagara, sem fylgja þeim fast eftir. Fólk vill trúa notalegum stöðuvatna-kenningum um, að aukin sókn stækki fiskistofnana í hafinu. Trúgirni og óskhyggja taka saman höndum í hugskoti almennings.

Kjarni málsins er hins vegar, að fiskveiðar við Ísland eru engan veginn sjálfbærar. Áratugum saman hefur verið stunduð ofveiði á flestum stofnum nytjafiska. Sjálfur þorskurinn hefur verið 25% ofveiddur í fjóra áratugi samfellt og nú er komið að skuldadögunum.

Hrunið er svo á næsta leiti, ef trúgirni og óskhyggja fólks leiðir til uppgangs pólitískra plötuslagara, sem magna sóknina í skjóli þægilegra grisjunarkenninga.

Jónas Kristjánsson

DV