Trúgjarnir fjölmiðlar

Fjölmiðlun

Því miður er það sérkenni fjölmiðla, að þeir láta valdamenn ljúga að sér. Ekki bara einu sinni, heldur hvað eftir annað. Jafnvel blöð á borð við New York Times trúðu bandarískum stjórnvöldum um gereyðingarvopn í þriðja heims ríkjum, Íran og Írak. Hefðu blöðin þó átt að vita af fyrri reynslu, að slíkt er hefðbundinn aðdragandi styrjaldar. Lygin um atómvopn í Írak var notuð til að draga á asnaeyrunum vígfúsa landsfeður á borð við Davíð og Halldór. Úr þessu varð hörmulegt stríð. Lygin er vestrænum foringjum eðlislæg. Eftir stríðið í Kosovo kom í ljós, að Nató hafði logið margfalt meira en Serbar.