Trússið

Hestar

Andreas Bergmann:

Síðari árin höfum við yfirleitt haft jeppa með á ferðalögum og góða, lokaða kerru fyrir trússið, miklu léttari í drætti og hærri en hestakerra. Jeppar komast miklu minna með kerru en án hennar, svo að það skiptir miklu máli, að hún sé há og létt. Um tíma leigðum við okkur Rússajeppa, sem voru svo rúmgóðir, að við þurftum ekki kerru, svo að þeir bílar komust þá allt. Þá voru hálendisvegirnir líka verri en þeir eru núna og jepparnir ekki eins góðir. Við fórum í fyrra með jeppa og kerru um tröllaveg í Skælinga. Í gamla daga höfðum við sérstakan bílstjóra, en undanfarið höfum við skipzt á um að keyra. Bílstjórinn þarf auðvitað að vera mjög öruggur í vöðum, því að oft er hópurinn hvergi nærri, þegar hann þarf að fara yfir.

Ég hef líka verið í ferðum með engan bíl og eingöngu trússhesta. Við fórum fjórir félagar norður Sprengisand með þrjá töskuhesta og vorum sjö daga norður að Gautlöndum í Mývatnssveit.

Í trússi höfum við mat og viðlegubúnað, aðallega svefnpoka, en ekki dýnur, því að þær eru yfirleitt í skálunum. Við höfum hitunartæki, því að ekki er alveg hægt að stóla á slíkt í skálum. Einnig er þar rafmagnsgirðing og NMT bílasími, sem er til mikils öryggis. Gemsarnir duga ekki á hálendinu, en koma oft að gagni, þegar menn eru að hringja sig saman í byggð eða jaðri hennar. Auðvitað á að nýta alla aðgengilega tækni, til dæmis GPS, þótt ég hafi ekki gert það sjálfur.

Í trússinu eru sjúkrakassar fyrir hross og menn. sem við höfum sem betur fer ekki þurft mikið að nota. Ég man bara eftir einu tilfelli hrossasóttar á öllum þessum tíma. Í trússinu er aukagjörð fyrir allan hópinn, járningatæki, botnar, tjara og hampur, svo og hnoð og gatatöng til viðgerða á reiðtygjum.

Umferð á hálendinu er orðin svo mikil, að skála þarf að panta með góðum fyrirvara. Mér finnst gott að gera það um páska, en hef oft þurft að gera það seinna, af því að seinlegt er að finna ferðatíma, sem hentar sumarleyfum allra þeirra, sem ætla í ferðina. Stundum hef ég þurft að hnika til fyrirhugaðri ferðaáætlun eða nota bíla til að selflytja fólk, þegar skálar hafa verið uppteknir. Þegar ég byrjaði í hestaferðum fyrir fjörutíu árum, var viðburður að hitta hestafólk á fjöllum, en nú er það að verða regla, að maður hitti nokkra hópa á leiðinni. Í Landmannahelli er mér sagt, að gistinætur hesta séu orðnar um 3000 á sumri.

Þröngu hólfin við fjallakofana, sem nú eru komin, eru ill nauðsyn, en frágangur þeirra er oft ekki nógu góður. Sem dæmi má nefna Árbúðir á Kili, þar sem hestahólfið er bara grjóturð. Svipað er í Landmannalaugum. Hestunum líður ekki nógu vel í svona hólfum. Ekki bætir úr skák, þegar selda heyið er stundum myglað.

Árni Ísleifsson:

Mér finnst gott að hafa jeppa með hárri einnar hásingar hestakerru undir trússið. Pickup getur dugað, ef ferðin er fámenn. Fyrir utan mat og viðlegubúnað er í trússinu fullkomin járningatæki, kindabyssa og sjúkrakassar. Í sjúkradótinu er mikilvægast að hafa sprautu og salt gegn hrossasótt. Pensilín og græðandi áburður eru líka mikilvæg.

Sem viðlegubúnað nota ég svefnpoka með kodda og oftast teppi líka. Það er orðið sjaldgæft, að ég gisti í tjöldum, en þá þarf létt dýna einnig að vera með í ferð. Oft er ég með bjór eða pela til að grípa í kvöldin. Mér finnst bezt, að ró sé komin á mannskapinn milli kl. 11 og 12 á kvöldin.

Baltasar og Kristjana Samper:

Við byrjum að undirbúa ferð í marz með því að velja ferðasvæði, helzt að einhverju leyti á nýjum slóðum, sem fer að verða erfiðara með hverju árinu, því að við höfum farið svo víða. Við reynum að mæla út heppilegar dagleiðir með hvíldardögum á góðum stöðum. Af kortunum tökum við GPS punkta af helztu kennileitum á leiðinni.

Við skoðum herforingjaráðskortin með gömlu reiðgötunum, sem eru gulls ígildi. Ég (Baltasar) safna öllum gömlum kortum. Á þeim eru eru oft fleiri reiðleiðir en á nýju kortunum, því að bændum hefur sums staðar tekizt að fá Landmælingar Íslands til að fjarlægja merktar og hefðbundnar reiðleiðir, sem liggja um lönd þeirra. Oft höfum við líka skrifað mikilvægar skýringar inn á gömlu kortin.

Eftir svona mánuð er ég (Baltasar) nokkurn veginn búinn að negla niður leiðina og áttina. Þá er haldinn fundur með þeim, sem hugsanlega færu í ferðina, og farið yfir stöðuna. Oft er skipt liði, til dæmis við að tala við bændur, umsjónarmenn skála og aðra kunnuga menn á svæðinu til að fá nánari upplýsingar og fá leyfi til að tjalda á ákveðnum stöðum og nota ákveðin hólf eða girðingar. Einnig fer ég í sýslulýsingar og Ferðafélagsbækurnar, sem eru mjög góðar, sérstaklega þessar gömlu. Einnig er til fullt af leitarmanna- og afréttabókum.

Að lokum prenta ég út alls konar upplýsingar úr þessum heimildum, þar á meðal GPS-punkta upp úr kortunum og dreifi þeim meðal ferðafélaganna. Allir fá sérstakt kort af hverri dagleið með upplýsingum um hana. Eftir þessum undirbúningi ríðum við, yfirleitt á eigin vegum, en stundum með leiðsögumanni.

Sumir byrja sínar ferðir á að ríða langar dagleiðir frá heimahögum hrossanna til þess staðar, þar sem ferðin á að hefjast. Þeir eru að ríða Kaldadal eða Kjöl fram og til baka ár eftir ár og missa mikið af fríinu sínu. Þetta gerum við ekki. Við látum flytja hestana á skemmtilegan stað og látum taka þá aftur á öðrum skemmtilegum stað, svo að við séum ekki að eyða frítíma í leiðir, sem við höfum ekki áhuga á að fara, auk þess sem margar þessara leiða eru afar fjölfarnar.

Hestaferðir geta verið fjölmennar á láglendi, en það gengur ekki á hálendinu. Þar er postulatalan hámarkið. Tólf manns í ferð er prýðileg tala, fleiri mega menn helzt ekki vera, en bezt er að vera átta til tíu talsins. Við erum oftast um það bil tíu.

Sumir leiðsögumenn hafa verið ógleymanlega góðir. Ég (Kristjana) man eftir, hvað var gott að hafa Ingimar á Jaðri til leiðsagnar, þegar við fórum yfir Jökulsá í Lóni. Þar hefði ég ekki viljað vera án kunnugs manns. Sumir aðrir leiðsögumenn hafa verið misjafnir, til dæmis þeir, sem rötuðu ekkert og neituðu að trúa áttavitanum okkar, svo að við urðum að taka völdin og finna réttu slóðina, sem við og gerðum.

Ekki er öll leiðarlýsing til gagns, þótt þeir, sem hana gefa, eigi að teljast kunnugir. Einu sinni var okkur sagt, að við kæmum jeppanum með kerrunni nokkurn vegin alla leið að skála upp á heiði. Þetta reyndist hinn versti óvegur, svo að trússfólkið varð að aflesta kerruna til að komast yfir verstu torfærurnar. Það sprakk á öllum hjólum. Síðar fréttum við, að heimamenn höfðu árið áður brotið traktor á þessari ófæru leið.

Trússið höfum við í bíl með hestakerru. Við veljum þá tegund kerru, af því að hún kemur að góðum notum, ef hestur meiðir sig. Um nokkurt skeið höfum við notað sérstaklega upphækkaða og styrkta hestakerru, sem dugar vel á vondum vegum. Í trússinu er ferðaklósett með litlu indjánatjaldi, alvöru járningagræjur og saltsteinn, viðgerðarverkfæri fyrir bílinn og annan búnað, tjöld, góð eldunaráhöld og grill, borð og stólar. Vinir okkar hafa lengzt af keyrt fyrir okkur í sjálfboðavinnu.

Við notum mjög gott fjallatjald, sem þolir alls konar veður. Einnig venjulega Ajungilak svefnpoka, litla rúllukodda og þunna göngumannadýnu, sem blæs sig út sjálf og einangrar vel frá jörðinni. Í trússinu er líka gítar, munnharpa, bjór og rauðvín. Við drekkum ekki vín á hestbaki, en höfum alltaf vín með kvöldmatnum. Það eru pappafernur, sem keyptar eru sameiginlega af hópnum. Víninu höldum við volgu á hitakönnum meðan við borðum.

Áður fyrr fórum við í ferðir, þar sem eingöngu voru notaðir trússhestar. einn á hverja tvo menn. Þá gistum við mikið í leitarmannakofum. Við gistum sjaldnar í þeim núna, af því að höfum lent í pantanarugli og tvíbókunum. Núna gistum við nánast eingöngu í tjöldum, af því að þau veita meira frelsi, og höfum trússbíl með í ferð, en notum trússhest á sumum dagleiðum, þegar trússbíllinn kemst ekki til okkar eina eða fleiri nætur. Hver hefur sitt fjallatjald og svo er eitt sameiginlegt tjald til að elda í og borða. Við erum með rafmagnsgirðingu og rafstöð til að slá utan um hestana í náttstað.

Trússtöskurnar eru gamlar og léttar strigatöskur fóðraðar og nokkuð vatnsþéttar. Það er galli við þessar gömlu trússtöskur, að aftari gjörðin færist aftar og kitlar suma hesta. Þess vegna höfum við látið sauma gjörð milli fremri og aftari gjarðar til að halda óbreyttu bili milli þeirra. Taka þarf trússið af í lengri áningum og leyfa hestinum að velta sér. Svo þarf að skipta um trússhest reglulega. Æskilegt er, sem flestir hestar venjist því að bera trúss.

Kosturinn við trússhestaferðir er, að við erum frjáls sem fuglinn fljúgandi. Við þurfum ekki að bíða eftir bílnum eða vonast til, að hann komi á réttum tíma. Við erum með allt sem við þurfum, þar á meðal svefntjöld, svo að við getum gert okkur náttstað, hvar sem við erum. En gallarnir eru fleiri og auðvitað er meiri fyrirhöfn og meira líkamlegt erfiði að ferðast á þann hátt. Þetta hentaði okkur betur, þegar við vorum yngri. Þá þarf líka að velja og hafna í farangri. Það er til dæmis ekki pláss fyrir rauðvín og bjór.

Bjarni E. Sigurðsson:

Ég ferðast nú orðið aldrei með trússhesta, aðeins með trússbíl, helzt með fjórhjóladrifi. Oftast læt ég bílinn bara fara milli áningarstaða og tek nesti til dagsins í vasann. Ef vel stendur á, er þó til þæginda að hitta trússbílinn einu sinni á miðjum degi, en ég legg enga sérstaka áherzlu á það. Ef bíllinn rúmar ekki allt trússið, hengi ég lokaða og vatnsþétta kerru í hann, en ekki opnu hestakerru.

Í trússinu er auðvitað farangur fólksins, og svo fullkomin járningatæki og steðji til að geta lagað járningar almennilega í næturstað. Svo eru þar sjúkrakassar og gott er að hafa saltsteina fyrir hestana. Einstöku sinnum hef ég tekið harmoníku með og oft eina góða bók. Skála panta ég með löngum fyrirvara, nú orðið oft með heils árs fyrirvara.

Ég vil ekki, að áfengi sé notað í hestaferðum og ekki heldur tóbak. Þetta eru nautnalyf, sem ekki hæfa í samneyti við hesta og náttúru. Ég vil líka, að allir taki þátt í ábyrgðinni, fari umsvifalaust af baki í áningu og taki þátt í að vakta hestana og halda í bandið, ef það er notað. Vont er, að mikið sé um, að menn hópist í fundahöld í áningu. Á því sér maður oft, hverjir eru næmir hestaferðamenn og hverjir eru bara farþegar í eðli sínu.

Flestir vilja komast í ró fyrir miðnættið. Sjálfur vil ég helzt fara að sofa um eða upp úr klukkan ellefu. Ég er hættur að nota svefnpoka og fer núna með sæng og kodda. Mér finnst pokarnir vera þröngir, há hreyfingum og valda órólegri svefni. Mér finnst gott að hafa morgunmat klukkan átta og vera kominn í hnakkinn klukkan níu eða hálftíu. Ég vil helzt hafa daginn fyrir mér, ef eitthvað kemur upp á. Það er líka gaman að koma saman í fyrir kvöldmat og spjalla um landslagið á dagleiðinni og atburði, sem þá komu fyrir.

Einar Bollason:

Ef bíll er notaður fyrir trússið, er oftast bezt að hafa traustan jeppa með góðri farangurskerru, sem hægt er að fá leigða á mörgum bílaleigum og jafnvel benzínstöðvum. Maður tekur þá aftursætin úr jeppanum eða leggur þau fram til að fá meira pláss. Þetta ætti að duga 8-10 manna hestaferð. Hestakerrur eru hins vegar alveg ómögulegar, enda ekki ætlaðar til notkunar á jeppaslóðum hálendisins. Þótt hópar af þessari stærð geri mikið af því að elda sjálfir og skiptast á um að keyra bílinn, er óskastaðan sú, að sérstakur maður sé ráðinn til að keyra og elda. Hitt er bölvað vesen. Sá, sem er á bílnum, er oft í hálfgerðri fýlu. Og menn búa ekki til góðan mat, ef þeir eru ekki í góðu skapi.

Í trússinu eru meiri háttar járningatól og mikið úrval af skeifum. Þar er meira af sjúkradóti fyrir menn og hesta. Þar eru aukareiðtygi og saltsteinar. Líka er gott að hafa þar stóra vatnskúta og stampa til að bera í vatn, ef vatnslaust er í skálum. Á sumum leiðum, til dæmis Sprengisandi, getur maður þurft að hafa hey og vatn handa hestum á leiðinni milli skála.

Mér finnst skynsamlegt, að hinir reyndari menn í ferðahópi gefi út fatalista handa fólki, því að margir hafa tilhneigingu til að taka allt of mikið af sér af fatnaði, sem er ekkert notaður, en belgir út trússið. Það er líka gott að benda fólki á að skipta farangri sínum í tvær litlar töskur frekar en að setja hann í eina stóra. Önnur taskan er með meira notuðu dóti og fer inn í skála, þar sem er oftast lítið pláss, en hin verður eftir úti í trússi.

Ég nota dúnsvefnpoka, kodda og lak, því að ég nota pokann bara eins og sæng, fer aldrei ofan í hann, því að skálarnir eru yfirleitt heitir á nóttunni.

Hannes Einarsson:

Trússbíla þarf að velja eftir landsvæðinu og fjölda manna í ferð. Stórir hópar þurfa flutningabíl, aðrir komast af með hækkaðan Econoline, sem má þá draga kerru til að fá meira pláss. Í stórum hópum væri líka gott að hafa jeppa með til að fylgja hópnum eftir föngum með sjúkradót, góðar járningagræjur og nesti og svo laus sæti til að taka upp reiðmenn, sem þurfa að hvíla sig. Það er líka þægilegt að fá kaffi og meðlæti um miðjan daginn, ef hægt er að koma því við. Fólki líkar það vel og það lyftir stemmningunni. Í fámennum ferðum er bezt að nota jeppa með kerru.

Skála panta ég með góðum fyrirvara, svona um miðjan vetur, og staðfesti síðan um páska. Ég læt ekki símann duga, heldur reyni að keyra til umsjónarmanna, svona til að sýna mig og leggja áherzlu á, að það sé full alvara í pöntuninni. Oft þarf að keyra og kortleggja leiðina eftir föngum, kanna aðstæður við skála, tryggja næturhólf og hey og einnig rútu, ef menn gista á öðrum stað en hestarnir.

Bezt er, að einn maður sjái um þetta, en ekki sé framleiddur ruglingur með því að fleiri séu að krukka í því. Gott er að vita af einhverjum á hverju svæði, sem gæti komið til skjalanna, til dæmis með hestakerru, ef hestur veikist eða slasast.

Í trússinu eru öflugir sjúkrakassar fyrir hross og menn, svo og kindabyssa, ef fella þarf hross. Nú erum við hættir að fá sprautur gegn hrossasótt og er það afleitt mál. Í trússinu er líka lína með staurum og rafmagnsstöð. Við erum með saltsteina, sem étast fljótt upp.

Ég nota góðan svefnpoka með kodda og teppi. Ég treysti mest á skálana, en á líka tjald, en hef ekki sett það upp enn. Ég hef oft eina hestabók með mér, oftast Áfanga, þar sem eru leiðalýsingar. Annars fer tíminn á kvöldin mikið í að fylgjast með hestunum og stundum fer ég í göngutúr um svæðið.

Haraldur Sveinsson:

Síðan við hættum að hafa trússið á hestum höfum við mest notað jeppa með hestakerru. Þægilegt er að koma farangri fyrir í þeim og einstaka sinnum koma þær sér vel, þegar flytja þarf hross til dýralæknis eða í hvíldarhaga.

Í trússinu höfum við lítið annað en nesti og viðlegubúnað. Ég hef meðferðis svefnpoka og litla dýnu. Stundum hef ég kodda, en oft nota ég bara fötin undir hausinn. Í trússinu eru líka saltsteinar, rafmagnsgirðing og hófbotnar.

Hjalti Gunnarsson:

Þegar ég fer með kunningjum, er trússið yfirleitt í jeppa og þá með sérstaka trússkerru rykþétta, sem ég smíðaði sjálfur til að þola hnjask. Áður var ég með hestakerrur, en þær eru lágar og fara illa á ferðalögum um fjallvegi. Oftast reynum við að fá einhvern til að sjá um bílinn og matreiðsluna, svo að við séum ekki að vasast í því sjálf. Mest reynum við að gista í skálum.

Fyrir utan mat og fatnað eru í trússinu aukareiðtygi og viðgerðartól fyrir bíl og skeifur, sjúkrakassar fyrir menn og hesta, einnig kindabyssa. Ég hef einu sinni lent í að þurfa að nota hana og hef síðan aldrei gleymt að hafa hana með. Salt er í trússinu, því að bráðanauðsynlegt er, að hrossin fái salt í hverjum náttstað. Einu sinni veiktist hestur svo í miklum hita, að við urðum að hálfdraga hann í náttstað. Þar stóð hann bara og góndi, en nærðist ekki. Þegar ég lét hann hafa saltstein, sleikti hann steininn í óratíma og kenndi sér síðan einskis meins.

Marinó Pétur Sigurpálsson og Guðbrandur Kjartansson:

Ég (G) fer aldrei í hestaferð án þess að hafa nóg til vara af öllum fatnaði jafnt sem öllum reiðtygjum. Maður veit aldrei í hverju maður lendir. Ég er til dæmis með tíu skyrtur í þriggja vikna ferð. Viðhorfin til rúmmáls í farangri hafa gerbreytzt síðan bíllinn tók við af klyfjahestinum. Við erum þar af leiðandi líka með nóg til vara af öllu, sem getur bilað í hestaferðum. Svo erum við með lesningu á borð við árbækur Ferðafélagsins, Göngur og réttir og Landið þitt. Það gefur svona ferðum gildi að tengja saman söguna og landið.

Við erum oftast með jeppa með í ferðum, einn eða tvo, og oftast hestakerru, ef farangurinn er mikill. Oftast keyra eiginkonur, sem ekki vilja sjálfar vera á hestbaki eða þá að hjón, sem ekki eru nógu mikið hestuð, skiptast á um að keyra. Stundum er eldamennskan á herðum hópsins og stundum höfum við fengið sérstakan aðila til að sjá um hana. Til þæginda látum við bíl vera samferða reiðinni eins mikið og hægt er yfir daginn.

Fyrir utan mat og viðlegubúnað er margvíslegur öryggisbúnaður í trússinu, svo sem varareiðtygi og fullur kassi af skeifum. Ég (M) nota svefnpoka, en ég (G) nota sæng, lak og kodda.

Ólafur B. Schram:

Undirbúningur ferðar er einn þriðji af ferðinni. Fyrst þarf ég að ákveða, hvert á að fara. Síðan spyr ég, hvort nokkur vilji koma með. Yfirleitt er þetta sami kjarninn, sex-átta manns, sem koma. Allur hópurinn þarf að samþykkja nýja ferðafélaga og boðið gildir aðeins um eina ferð til að byrja með, því að sumum hentar ekki að vera í langferðum á hestum, en það kemur ekki í ljós fyrr en ferðin er hafin. Sumir kveikja strax á því, sem gera þarf í hestaferðum, aðrir verða farþegar alla sína tíð.

Næst er að finna dagsetningar og panta skála. Það gerist yfirleitt á haustin, svo að skálarnir séu ekki upppantaðir. Að vísu erum við með stórt hringtjald með einni súlu. Allir geta sofið í því, svo að ekki eru hundrað í hættunni með skálana.

Síðan tekur við skemmtilegt tímabil, þegar ferðafélagarnir halda undirbúningsfundi og skipta með sér verkum. Allir hafa eitthvert hlutverk. Einn fer síðastur úr húsi, einn færir gestabækur, einn urðar ruslið, einn hleður kerruna og losar, einn er opinber myndatökumaður ferðarinnar, einn telur hestana, einn sér um saltsteininn, kannar vatn í hólfinu og fer á girðingar til að kanna, hvort þær séu heldar, einn er með járningatólin, einn er með sjúkragögnin, einn er gjaldkeri, einn fullvissar sig um að við höfum gengið vel frá skálanum og einn heldur saman vísum, sem verða til í ferðinni.

Ferðafélagarnir skipta með sér dögunum. Hver tekur einn dag að sér, kynnir sér landafræði, jarðfræði, sagnfræði, þjóðfræði og pesónufræði svæðisins, sem farið er um þann daginn. Hann heldur svo fyrirlestur um efnið kvöldið áður. Menn skiptast líka á um að keyra bílinn og helzt ekki nema hálfan dag í einu, svo að allir fái að vera eitthvað með í reiðinni á hverjum degi. Svo er skipuð morgunmatarnefnd og kvöldmatarnefnd, ekki með sama fólkinu. Þannig dreifum við vinnuálaginu.

Þormar Ingimarsson:

Ég hef ekki bara gaman að ferðinni sjálfri, heldur öllum undirbúningi hennar, til dæmis þegar verið er með kortum og símtölum að púsla saman ferðaáætlun um veturinn. Sem dæmi um fyrirvarann má nefna, að í september síðastliðnum var ég að skipuleggja ferð næsta sumars.

Við undirbúning ferðar set ég upp GPS punkta ferðarinnar eftir korti Landmælinga þar sem gefnir er upp punktar hvers staðar og eins þjálfa ég annaðslagið að reikna punkta af korti. Á leiðinni slæ ég svo inn viðbótarpunkta fyrir staði sem mér finnst skipta máli. Þá hef ég slökkt á tækinu milli þess sem ég set inn punkta. Það skiptir miklu máli varðandi allt er lítur að GPS að æfa sig vel á tækið og gera prufur t.d. úr bíl. Við sum tæki er hægt að kaupa móttökuloftnet sem má setja upp á topp á bíl.

Nú orðið eru bílar notaðir meira en trússhestar, venjulega jeppi með kerru. Mér finnst mikilvægast, að bíllinn sé í góðu lagi og bili ekki á leiðinni. Bílstjórinn þarf að kunna akstur í óbyggðum og geta bjargað sér einn. Oftast höfum við fengið mann í aksturinn, frekar en að skiptast á um að keyra. Ég hef gjarðir í trússinu til að grípa til, ef þarf að teyma, en það er raunar ekki vinsælt á ferðalögum.

Í fjölmennari ferðum sér einhver um eldhúsið, en í fámennari ferðum er þeirri vinnu skipt niður á ferðalangana.

Meðan ferðast er á hestum er mikilvægt, að ekki sé notað áfengi af neinu tagi. Á kvöldin er í lagi að nota vín í hófi fram að vissum háttatíma, en alls ekki til að detta í það.

Yfirleitt gistum við í skálum, en þurfum að gera ráð fyrir að geta tjaldað. Ég er yfirleitt með lítið jöklatjald og góðan og efnismikinn svefnpoka, sem þolir mikinn kulda, ennfremur kodda og dýnu, sem er rúllað upp. Ég er líka með kort og hjól til að mæla vegalengdir á korti, einnig diktafón til að lesa inn ferðalýsingar.

Valdimar K. Jónsson:

Yfirleitt nota ég jeppa og litla hestakerru undir trúss. Hestakerran er til mikils öryggis, ef hestur verður fyrir einhverju á ferðalagi og þarf að komast til byggða eða til læknis. Í fjölmennum ferðum eru stundum notaðir háir trússbílar, en mér finnst í þeim tilvikum betra, að við hendina sé líka jeppi og kerra. Jeppinn getur einnig verið til mikilla þæginda, ef hann er látinn fylgja ferðahópnum með kaffi og meðlæti, öryggisbúnað og lausa girðingu til að setja upp á heppilegum áningarstöðum. Ég var sjálfur á jeppa með hópi yfir Kaldadal í fyrra og setti upp girðingu á tólf kílómetra fresti til að auðvelda hestaskipti og flýta fyrir þeim. Síðan tók ég girðinguna niður, keyrði fram úr og setti hana upp á næsta áningarstað. Þetta gafst vel. Í litlum hópum skiptum við stundum á okkur akstrinum með trússið, en oftast erum við þó með sérstakan trússara.

Ég reyni oftast að panta skála með sem lengstum fyrirvara, helzt á miðjum vetri. Stundum verða þó ferðir til með minni fyrirvara og þá verður maður oft að hnika ferðatímum til. Við erum yfirleitt með gastæki meðferðis og oft ljós, því að margir fjallakofar eru ekki lýstir. Aðalferðatími minn er síðari hlutinn í júlí, meðal annars vegna lítils vatnsmagns í ám, en þá er farið að dimma á kvöldin og gott að hafa ljós í ferð. Viðlegubúnaður er svefnpoki með léttum kodda og áður fyrr vindsæng, þegar ekki voru dýnur í skálum. Við höfum lítið sem ekkert notað tjöld á ferðalögum.

Í litlum hópum eldum við stundum sjálf, en í stærri hópum sér oftast kokkur um matinn.

Viðar Halldórsson:

Ég hef yfirleitt haft jeppa og háa hestakerru fyrir trússið. Kosturinn við hestakerru er, að það er hægt að taka farangurinn úr henni og setja inn hest, sem þarf að fara til dýralæknis niðri í byggð. Hins vegar eru vélsleðakerrur þægilegri í drætti, af því að þær eru svo háar og ekki flæðir inn í þær, þegar farið er yfir djúpar ár. Yfirleitt notast fólk þó við þær kerrur, sem það hefur aðgang að.

Í trússinu er sjúkrakassi fyrir hesta og annar fyrir fólk. Það er mjög slæmt og raunar ótrúlegt, ef dýralæknar eru farnir að neita að láta menn hafa hrossasóttarsprautur fyrir langferðir, því að þessar sprautur voru það nauðsynlegasta í sjúkrakassanum. Sprautan er svo fljótvirk og auðveld í notkun, miklu meðfærilegri en glaubersaltið. Þar eru líka skeifusafn og góðar járningagræjur, svo og saltsteinn. Kindabyssa er til þæginda, þótt menn geti aflífað hross með hamri.

Í lengri og fjölmennari ferðum finnst mér nauðsynlegt að hafa sérstakan kokk og bílstjóra. Í fámennari ferðum höfum við skipzt á um að elda, en fengið mann til að keyra.

Ég er með svefnpoka og kodda. Ég held, að dýnur séu í nánast öllum skálum, svo að þær eru óþarfar í trússi, nema ætlunin sé að tjalda. Mér finnst gott að fá mér glas að kvöldi, en vil ekki hafa vín um hönd á ferðalaginu yfir daginn. Þótt menn kunni vel með vín að fara og ekki sjái á þeim, þá er það staðreynd, að það fer miklu meiri orka í ferðina hjá þeim, sem staupar sig. Menn verða þreyttari en ella, hafa ekki úthald og gera kannski mistök, sem koma niður á öllum.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 3.tbl. 2004