Trylltur af bræði

Punktar

Að sögn Observer í gær eru menn í bandarískra utanríkisráðuneytinu orðnir skelkaðir út af ofsareiði og taumlausri hefnigirni hins orðljóta Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra, sem heimtar, að Þýzkalandi verði refsað fyrir mótþróann gegn fyrirhuguðu stríði Bandaríkjanna gegn Írak með því að leggja niður allar bandarískar herstöðvar í Þýzkalandi og svipta Þýzkaland tekjunum, sem fylgja þeim. Þetta á að vera til viðvörunar öllum öðrum ríkjum, sem kynnu að vilja þvælast fyrir Bandaríkjunum. Það gleymist, að margir Þjóðverjar væru bara fegnir að losna við herstöðvarnar. Samkvæmt heimildum Observer er Rumsfeld trylltur af bræði í garð Þjóðverja. Í utanríkisráðuneytinu óttast menn, að refsinga- og hefndarstefna Rumsfeld hafi þveröfug áhrif. Yfirgangur og þvinganir gegn erlendum ríkjum muni bara kála Atlantshafsbandalaginu, magna Ameríkuhatur enn frekar og efla andstöðu um allan heim gegn fyrirhuguðu stríði við Írak. Spurningin er svo, hversu lengi svona vanstilltur maður fái að stjórna öflugasta her í heimi.