Tuð leysir gæzlu af hólmi

Greinar

Eftir tveggja sólarhringa eftirför og varðstöðu Landhelgisgæzlunnar fyrirskipaði dómsmálaráðherra í samráði við forsætis- og utanríkisráðherra, að hún hætti afskiptum af rússneskum togara, sem staðinn var að ólöglegum veiðum innan íslenzku fiskveiðilögsögunnar.

Íslenzku gæzluskipin eru svo lítil í samanburði við rússneska togarann, að taka hans af sjó þótti ekki ráðleg. Í staðinn ætlaði Landhelgisgæzlan að láta menn síga úr þyrlu til að taka við stjórn hans. En ráðherrarnir þrír gripu í taumana, þegar þar var komið sögu.

Í staðinn ákváðu ráðherrarnir að láta utanríkisráðuneytið tuða um málið við rússneska sendiherrann, sem nýtur slíkra vinsælda þar á bæ, að ráðuneytið tekur að sér útréttingar fyrir hann, svo sem að tuða við fjölmiðla um, að ekki megi segja satt um Rússlandsforseta.

Hvorki sendiherrann né aðrir aðilar í Rússlandi hafa lofað að koma í veg fyrir, að rússnesk landhelgisbrot verði endurtekin. Staða málsins er því sú, að send hafa verið til umheimsins skilaboð um, að Íslendingar séu búnir að gefast upp á að gæta fiskveiðilögsögunnar.

Nokkur aðdragandi er að niðurlægingu þessari. Um langt árabil hefur skort pólitískan vilja til að halda uppi virkri gæzlu í 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. Þetta kemur einkum fram í minnkandi fjárveitingum til fjárfestingar og rekstrar Landhelgisgæzlunnar.

Afleiðingin er, að skip og tæki gæzlunnar hafa smám saman verið að ganga úr sér og að ekki er rekstrarfé til að halda úti nema tveimur af þremur gæzluskipum. Raunar er ekki fjármagn til sérstakra aðgerða á borð við þær, sem gæzlan reyndi að stunda í dymbilvikunni.

Þjóðin hefur að vísu ekki sérstaklega verið spurð um, hvort hún vilji eða vilji ekki fjármagna gæzlu fiskveiðilögsögunnar. En hún hefur stutt stjórnmálamenn, sem hafa staðið að fjársvelti gæzlunnar allar götur síðan friður náðist um 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins.

Hún hefur haldið áfram að styðja þessa stjórnmálamenn, þótt áður hafi komið í ljós, að Landhelgisgæzlan hefur ekki burði til að halda uppi öryggisþjónustu við íslenzk fiskiskip á alþjóðlegum hafsvæðum á borð við Smugu, Svalbarðamið, Síldarsmugu og Reykjaneshrygg.

Ákvörðun Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Þorsteins Pálssonar er aðeins endapunkturinn á langvinnri niðurlægingu. Hún er raunar eðlileg afleiðing fyrri ákvarðana um, að ekki skuli haldið uppi virkri gæzlu hinnar nýlega fengnu 200 mílna fiskveiðilögsögu.

Á síðustu árum hefur verið að koma í ljós, að við þurfum aftur virka gæzlu fiskveiðihagsmuna okkar. Aukizt hefur sókn í stofna, sem eru utan 200 mílna fiskveiðilögunnar. Um þessa sókn eru stundaðar milliríkjaviðræður og gerðir fjölþjóðlegir samningar.

Samningaferlið bendir til, að við höfum sem strandríki og fiskveiðiþjóð hagsmuna að gæta langt út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsöguna. Athafnasvæði Landhelgisgæzlunnar ætti því að vera orðið mun stærra en áður, ef allt hefði verið með felldu í fjármögnun hennar.

Þátttaka íslenzkra stjórnvalda í milliríkjaviðræðum og -samningum um fiskveiðar á undanförnum árum hefur ekki leitt til aukinnar löggæzlu af okkar hálfu. Því er ekki unnt að búast við, að fiskimenn annarra ríkja taki mark á tuðinu, sem íslenzkir ráðamenn temja sér nú.

Þótt Landhelgisgæzlan hafi sýnt lífsmark í dymbilvikunni, er niðurstaða málsins sú, að ráðherrar telja áfram, að hún sé næsta óþörf á tímum tuðs að hætti Halldórs.

Jónas Kristjánsson

DV