Tunga, saga og siðir

Greinar

Íslendingar eru fjölmennari en Aþeningar og Feneyingar voru á stórveldistíma þeirra. Aþeningar voru flestir um 200.000, að þrælum meðtöldum, og Feneyingar voru rúmlega 100.000 manns. Ríki þurfa ekki að vera fjölmenn til að skilja eftir sig djúp spor í sögunni.

Í fyrsta tölublaði ársins vekur tímaritið Economist athygli á velgengni smáríkja á síðari hluta aldarinnar. Greinin hefst á lýsingu á Íslandi sem fyrirmyndardæmi um slíkt ríki. Tímaritið leitar svara við spurningunni, hvort betra sé að búa í litlu ríki en stóru.

Ríkjum heims hefur á hálfri öld fjölgað úr 74 í 193. Af þessum ríkjum hafa 35 færri íbúa en hálfa milljón. Fjölgunin stafar einkum af frelsun nýlendna og hruni Sovétríkjanna. Þá hafa þjóðir innan stórra ríkja fengið meiri sjálfstjórn, svo sem Katalúnar og Baskar á Spáni.

Þessi þróun stríðir gegn hagkvæmni stærðarinnar. Stór heimamarkaður, stórt tollfrelsissvæði og stórt myntsvæði eru allt atriði, sem stuðla að efnahagslegum framförum. Stórþjóðir Evrópu telja heimamarkaði sína ekki nægja og safnast því saman í Evrópusambandi.

Stórþjóðir Evrópu tefla fram Evrópusambandi með stórum heimamarkaði, stóru tollfrelsissvæði og innan skamms einnig stóru myntsvæði til að geta haldið til jafns við Bandaríkjamenn og Japani í samkeppni þeirra um aukna framleiðni og seljanlegri vöru og þjónustu.

Smáþjóðirnar njóta verzlunarsamstarfs raunar enn frekar en stórþjóðirnar. Með aðgangi að samtökum af tagi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins ná smáþjóðir kostum stærðarinnar og varðveita eigi að síður mikið af kostum smæðarinnar.

Frjáls verzlun er raunar hornsteinn að velgengni smáþjóða. Þær geta sérhæft sig eins og Íslendingar hafa gert í fiskveiðum og greinum tengdum þeim. Þannig hefur sjávarútvegur orðið arðbær atvinnuvegur á Íslandi, þótt hann sé það ekki í stóru landi á borð við Kanada.

Sérhæfing smáþjóða felur um leið í sér ýmsar hættur. Þær verða viðkvæmari fyrir sveiflum, sem starfa af breyttum aðstæðum. Sjávarafli getur hrunið og innkaupavenjur útlendinga geta breytzt. Mengun í höfum getur gert viðskiptaþjóðir afhuga fiskneyzlu.

Miklu máli skiptir fyrir smáþjóð að sérhæfa sig í atvinnuvegum, sem eru á uppleið í heiminum, en ekki í samdráttargreinum. Einnig skiptir miklu að sérhæfa sig í atvinnuvegum, þar sem fjarlægðarkostnaður er lítill. Tölvusamskipti eru grein, sem sameinar þetta tvennt.

Smáríki eru dýr í rekstri. Kostnaður yfirstjórnar dreifist á færri skattgreiðendur. Kunningskapur valdamanna getur framleitt kolkrabba, sem teygir arma sína um mörg valdasvið og verður dýr í rekstri. Kostnaður við sérstaka þjóðmenningu verður líka meiri.

Gizkað hefur verið á, að sérstakur umframkostnaður Íslendinga af eigin tungumáli sé um 3% af þjóðarframleiðslunni. Á móti kemur, að ýmsar stórþjóðir verja mun meiri hluta sinnar þjóðarframleiðslu til hermála. Rekstur tungumáls er okkar herkostnaður sem þjóðar.

Dýrasti vandi okkar sem smáþjóðar er kunningskapur manna, sem veldur því, að mál eru oft ekki afgreidd málefnalega, heldur persónulega. Þetta vandamál hefur mildazt, síðan við fórum að þýða siðareglur Evrópusambandsins á færibandi til notkunar innanlands.

Aðalkostur Íslands sem ríkiseiningar er svo sá, að það er byggt þjóð, sem talar sömu tungu og á sér sömu sögu og siði, sem standa undir gagnkvæmu trausti fólks.

Jónas Kristjánsson

DV