Turnar við Skúlagötu.

Greinar

Skynsamlegt var að fresta samþykkt borgarráðs Reykjavíkur á nýju skipulagi milli Skúlagötu og Hverfisgötu. Skoða þarf málið betur en gert hefur verið og þá í víðara samhengi allrar norðurhlíðar Skólavörðuholts.

Vandinn er ekki sá að tillögur hafi verið gerðar um of þétta byggð á Völundarreitnum, þar sem nýtingarhlutfallið á að verða 1,8-1,9. Þetta er að vísu tvöfalt hærra en mest hefur tíðkazt, en getur þó átt rétt á sér.

Dæmi eru um það frá útlöndum, að miður hafi tekizt að þétta byggð í miðbæjum. Slík hverfi hafa sums staðar reynzt ómanneskjuleg. Andrými hefur verið af skornum skammti, birta léleg og útsýni fremur lítið.

Hins vegar hníga mörg rök að þéttari byggð í Reykjavík. Búið er að þenja hana um of til austurs og mynda óhóflega langar og fjölfarnar akstursleiðir milli heimila og vinnustaða. Þetta kostar borg og borgara mikið fé.

Lausn þessa vanda felst ekki í að leita uppi auða bletti í borginni vestan Elliðaáa og byggja á þeim, svo sem gert var á síðasta kjörtímabili. Oft sjá menn um síðir eftir slíkum aðgerðum, þegar nota þyrfti rýmið til annars.

Hins vegar felst lausnin í að byggja upp svæðið frá Skúlagötu upp fyrir Laugaveg, frá Seðlabanka inn að Hlemmi. Að því leyti eru tillögur meirihluta skipulagsnefndar Reykjavíkur á réttri leið, þótt gallaðar séu.

Allt þetta landsvæði þarf að hugsa í heild. Við landeigendur þarf að semja í heilu lagi, svo að svigrúm myndist til að reisa svæðið á þann hátt, að nýtingarhlutfall geti verið breytilegt milli byggingareita.

Um leið þarf að nota tækifærið til að búa til borgarhverfi, þar sem heimafólk og aðkomumenn geta farið um án yfirhafna, í skjóli fyrir vindi, regni og snjókomu, – hverfi, þar sem tekið er tillit til veðurfars á Íslandi.

Eðlilegast er að hugsa hverfið út frá Laugavegi sem bjarta göngugötu undir gegnsæju þaki. Frá Skúlagötu ætti að vera hægt að ganga undir þaki inn að þessum miðbæjarás, til dæmis úr nokkrum myndarlegum háhýsum við Skúlagötu.

Einnig þarf að vera hægt að aka frá Skúlagötu inn í nokkur bílastæði undir þaki við Laugavegsásinn. Þar með gætu viðskiptavinirnir stigið út og rekið erindi sín án þess að mæta veðri og vindum.

Á þessu svæði þurf ekki aðeins að gera ráð fyrir verzlunum og skrifstofum, heldur einnig kvikmyndahúsum, leikhúsi, kaffihúsum, veitingastofum og öðrum afþreyingarstöðum, til dæmis hóflegu tívolísvæði undir gegnsæju þaki.

Þar þarf einnig að vera nægileg þjónusta fyrir íbúa svæðisins, leiksvæði, skólar og annað slíkt, sem fylgir íbúðahverfum. Upp úr svæðinu mættu síðan gnæfa íbúðaturnar, sem gæfu hið háa nýtingarhlutfall, sem sótzt er eftir.

Íbúðaturnar í röð við eða í nágrenni Skúlagötu gætu reynzt eftirsóknarverðir. Í fyrsta lagi vegna útsýnis og góðs svigrúms. Í öðru lagi vegna nálægðar við miðbæjarþjónustu. Í þriðja lagi vegna útilokunar misviðra.

Um leið kæmi borgin á betra jafnvægi milli atvinnutækifæra á svæðinu innan Hringbrautar. Hún mundi spara sér samgöngumannvirki og margvíslegan kostnað við ný hverfi í austri. Því þurfa borgaryfirvöld að hugsa Skúlagötumálið mun nánar.

Jónas Kristjánsson.

DV