Tuttugu nægja ekki

Greinar

Kjósendur hafa enn ekki orðið hugfangnir af sameiginlegu framboði vinstri manna. Stuðningurinn við það takmarkast við flesta stuðningsmenn flokkanna þriggja, sem standa að framboðinu. Samkvæmt skoðanakönnun DV getur framboðið vænzt tuttugu þingmanna.

Á þessu verður að hafa þann fyrirvara, að saman er reiknað fylgi nýja framboðsins og gömlu flokkanna, sem að því standa. Þannig er gert ráð fyrir, að þeir, sem nú segjast styðja Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, styðji sameinaða framboðið, þegar ekki er kostur á hinu.

Með enn meiri velvilja er unnt að líta á tuttugu manna þingstyrk sem sómasamlega stöðu við þær aðstæður, að sameiginlegt framboð hefur nýlega verið samþykkt og fylgi þar með kvarnast úr köntunum, einkum úr landbúnaðar- og útgerðarkanti Alþýðubandalagsins.

Minni hætta er á brottfalli kjósenda úr stéttarfélagakantinum. Ögmundur Jónasson hefur einn minna vægi en samanlagðir verkalýðsleiðtogar flokksins, sem nánast allir styðja eindregið nýja framboðið. Og Steingrímur J. Sigfússon verður seint maður verkalýðsins.

Hugsanlegt er, að Ögmundur og Steingrímur og einhverjir fleiri, jafnvel Svavar Gestsson, nái saman á grundvelli vinstri hreintrúar, sem hafni útvatnaðri breiðfylkingu. En erfitt verður að skilgreina, hver sú kaþólska sé og enn erfiðara að markaðssetja hana.

Enginn stjórnmálamaður á vinstri vængnum hefur gerzt persónugervingur hins nýja framboðs. Næst því kemst Margrét Frímannsdóttir, sem nýtur mikilla og vaxandi vinsælda í skoðanakönnum DV og hefur þá sérstöðu, að nánast engir fetta fingur út í hana.

Það sem helzt háir Margréti sem foringjaefni vinstra framboðsins er, að reynslan bendir ekki til, að hún hafi orkufrekt úthald til sífelldra og fyrirvaralausra pólitískra slagsmála upp úr þurru, svo sem hefðbundið er, að krafizt sé af leiðtogum stórra flokka.

Þeir, sem áhyggjur hafa af skorti á bardagagleði, benda á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Jón Baldvin Hannibalsson, sem bæði magnast í eldlínunni. Gallinn við þessar ábendingar er, að hvorugt þeirra er í framboði og að ekkert bendir til, að þau verði tilleiðanleg.

Kosningabaráttan í vetur mun snúast um þann þriðjung kjósenda, sem annaðhvort vill ekki svara í skoðanakönnunum eða segist ekki hafa gert upp hug sinn. Þetta pólitíska lausagöngufólk hefur lengi rambað milli framboðslista og ráðið úrslitum alþingiskosninga.

Pólitíska lausagöngufólkið er næmara fyrir meintum persónum stjórnmálamanna en málefnum þeirra. Hugtök eins og Vilmundur, Albert og Sverrir skipta meira máli í hugum þess en meira eða minna ósannaðar kennisetningar um, hvernig reka skuli þjóðfélagið.

Því gildir enn, sem áður hefur verið sagt, að örlög sameiginlegs framboðs á vinstri væng ráðast hvorki í málefnanefndum, sem samþykkja stefnuskrá, né á landsfundum, sem samþykkja sameiginlegt framboð, heldur ráðast örlögin af því, hver verður foringi.

Þótt sameiginlegt framboð vinstri manna hafi að undanförnu komizt yfir þröskulda málefnanefnda og landsfunda, er stærri hindrun enn í vegi þess. Hún felst í þeirri margtuggnu staðreynd, að leiðtogi og lausafylgis-veiðari nýja flokksins hefur ekki fundizt enn.

Núverandi staða dugar framboðinu í fjórtán til tuttugu þingmenn, sem jafngildir ósigri. Til þess að verða gjaldgengt í pólitík þarf nýja framboðið mun fleiri.

Jónas Kristjánsson

DV