Fred Kaplan skýrir í nýrri bók sinni, Daydream Believers, hvernig tvær villur ollu hruni Bandaríkjanna í umheiminum og þrátefli þeirra í stríði. Önnur villan var, að árásin á tvíburaturnana árið 2001 hefði breytt heiminum. Hún breytti umheiminum ekki hið minnsta, tók Bandaríkjamenn bara á taugum. Þeir hefðu getað tekið henni eins og Spánverjar tóku árásinni á Atocha-brautarstöðina. Hin villan var, að lok kalda stríðsins hefði gert Bandaríkin að heimsveldinu eina. Endalokin drógu úr valdi Bandaríkjanna, því að önnur ríki sáu ekki lengur ástæðu til verndar hjá Bandaríkjunum.