Sögusetur íslenska hestsins var stofnað að Hólum í Hjaltadal 9. júní 2001. Að setrinu standa: Hestamiðstöð Íslands, Hólaskóli og Byggðasafn Skagfirðinga. Því er ætlað að verða alþjóðleg miðstöð þekkingar og fræðslu um sögu íslenska hestsins, svo sem uppruna, þróun, eiginleika, notkun og samfélagsleg áhrif, frá landnámi til nútíma. Verkefni Sögusetursins eru margþætt:
Sögusetrið mun búa til og vista gagnagrunn um minjar og aðrar heimildir og upplýsingar er varða íslenska hestinn og gera þær aðgengilegar. Sögusetrinu er ætlað að taka við og vista muni og aðrar heimildir í samráðið við aðrar stofnanir. Þegar hafa verið gerðir samningar þar að lútandi við Bændasamtök Íslands og helstu hagsmunasamtök hestamanna og hrossaræktenda hér á landi, það er Landssamband Hestamannafélaga, Félag Tamningamanna og Félag Hrossabænda.
Sögusetur íslenska hestsins mun vinna að rannsóknum og athugunum á sögu hestsins. Það mun standa fyrir lifandi þemasýningum og sögulegum yfirlitssýningum sem varpa ljósi á sögu og notkun íslenska hestsins, innan lands og utan, eftir því sem tilefni gefst. Það mun standa fyrir málþingum og fyrirlestrum er varða sögu hestsins, halda úti heimasíðu og gefa út fræðsluefni eftir því sem tilefni er til.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 5.tbl. 2003