Tveggja flokka tal

Greinar

Allir málsaðilar segjast vera ánægðir með niðurstöðu könnunar á fylgi væntanlegs jafnaðarmannaflokks, hvar í flokki sem þeir standa. Er þó ekki hægt að sjá, að neinir hafi leyfi til að vera ánægðir nema framsóknarmenn, sem halda öllu fylgi sínu utan jafnaðarmannaflokks.

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar gerist það eitt við stofnun jafnaðarmannaflokks, að þangað rennur fylgi Alþýðuflokks og Alþýðubandalags og skilar sér vel. Hins vegar fer þangað aðeins slæðingur af fylgi Kvennalistans og alls ekkert af fylgi annarra flokka.

Niðurstaðan getur beinlínis skaðað samstarf svokallaðs félagshyggjufólks um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Nýja könnunin kann að magna sjálfstæði og öryggi framsóknarmanna í borginni og telja þeim trú um, að þeim væri betur borgið á girðingunni.

Framsóknarflokkurinn hefur löngum viljað vera miðjuflokkur og sem oftast í ríkisstjórn, ýmist til hægri eða vinstri. Könnunin eflir þessa stöðu hans á landsvísu, þar sem hann sýnist hafa tæplega fjórðungs fylgi mitt á milli tæplega 40% blokka til hægri og vinstri.

Þótt fylgi flokksins sé minna í Reykjavík, 17%, getur það nægt til að gera honum kleift að mynda meirihluta með þeim, sem bezt býður, ef samflokkur jafnaðarmanna fær 47% fylgi í borginni, samkvæmt tölum könnunarinnar. Margir hafa freistast á mjórri þvengjum.

Að minnsta kosti truflar niðurstaðan sameiningarstefnu svonefnds félagshyggjufólks, eins og hún hefur komið fram í starfi Reykjavíkurlistans. Stofnun jafnaðarmannaflokks verður ekki skref í þá sameiningarátt, heldur felur í sér skarpari skil innan félagshyggjumanna.

Það er að vísu verðugt markmið út fyrir sig að sameina Alþýðuflokk og Alþýðubandalag, ekki sízt um stefnuna í Evrópumálum og landbúnaði, en sú sameining raskar lítt eða ekki ró annarra stjórnmálaafla. Þau halda bara áfram að vera til eins og ekkert hafi í skorizt.

Að þessu leyti eru áhrifin af niðurstöðu könnunarinnar allt önnur en magnaðar niðurstöður fyrstu kannana á fylgi Reykjavíkurlistans, sem soguðu fylgi utanflokksfólks að félagshyggjuframboðinu. Þær framleiddu raunar framboð Reykjavíkurlistans og kosningasigur hans.

Skoðanakannanir þess tíma gáfu sameinuðu framboði gífurleg sóknarfæri, sem ekki var hægt að hafna. Nýja könnunin um fylgi jafnaðarmannaflokks gefur sameinuðum Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi engin slík sóknarfæri, heldur aðeins varnarfæri til að halda sínu.

Kannanirnar, sem urðu forsenda Reykjavíkurlistans, sýndu meirihlutafylgi nýs flokks undir nafngreindum leiðtoga, sem naut þá mikils trausts og nýtur enn. Kannanirnar gáfu mönnum tækifæri til að raða stjórnmálunum upp á nýtt og búa til stöðu, sem áður var ekki.

Könnun, sem núna sýnir, að Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið tapa ekki neinu á því að rugla saman reytum sínum í flokki jafnaðarmanna, skapar engin slík hughrif úti í bær. Hún hefur alls engin áhrif á þær fjölmennu sveitir, sem standa utangarðs í flokkakerfinu.

Menn geta svo leyft sér að efast um, að slagsmálagefnustu stjórnmálamenn landsins sameinist auðveldar í litlum og leiðtogalausum jafnaðarmannaflokki heldur en í stórum félagshyggjuflokki, þar sem gamalkunnir smákóngar víkja fyrir nýju og fersku fólki.

Niðurstaða nýju könnunarinnar bendir til, að væntanleg sameining jafnaðarmanna verði lítið annað en innanhússmál tveggja flokka af gamalþreytta skólanum.

Jónas Kristjánsson

DV