Tveggja vikna skattskrárgluggi

Greinar

Fyrir tíð Geir Haarde fjármálaráðherra voru skattskrár opnar almenningi árið um kring. Hann hefur ítrekaðar reynt að loka þeim, svo að fólk geti ekki gert sér grein fyrir, hverjir svíkja undan skatti. Honum hefur tekizt að minnka tímabil opinnar skattskrár niður í tvær vikur á hverju sumri.

Tímaritið Frjáls verzlun hefur undanfarin ár nýtt sér vel þennan glugga og gefið út sérstakt tímarit með töflum um skatta og tekjur valda-, frægðar- og mektarfólks í þjóðfélaginu. Þetta merka framtak tímaritsins hefur vegið upp á móti tilraunum Geirs til að loka skattskrárglugganum.

Aðgerðir fjármálaráðherra eru liður í viðleitni til að einkamálavæða þjóðfélagið. Stór hópur valdamanna, studdur faríseum þjóðfélagsins, telur, að skattar fólks séu einkamál, svo og mikilvæg atriði í rekstri fyrirtækja, svo sem hluthafaskrár þeirra og eignarhald hluthafa.

Þeir, sem vilja vera í felum með fjármál sín og fyrirtæki, hafa verið í sókn í þjóðfélaginu. Þetta er víðtæk sókn, studd valdastofnunum á borð við dómstóla, Persónuvernd og Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Þessir aðilar taka tillitssemi fram yfir sannleikann í fjölmiðlun.

Persónuvernd og forveri hennar hafa leitað fanga á fleiri sviðum, meðal annars reynt að hindra birtingu á nöfnum og myndum í ættfræði, svo sem í hinni mjög svo nytsamlegu Íslendingabók, sem Íslenzk erfðagreining gaf þjóðinni. Einnig var reynt að takmarka aðgang að tjónaskrá bifreiða.

Skattskrá, þjóðskrá og tjónaskrá eru dæmi um gagnlegar skrár, sem eiga að vera opnar almenningi í þjóðfélagi, sem stefnir að því að verða gegnsætt, svo að valda-, mektar- og frægðarfólk geti ekki falið meira eða minna opinber mál sín í skjóli útvíkkunar á hefðbundnum skilningi einkamála.

Mikilvægt er, að almenningur styðji viðleitni fjölmiðla til að varðveita gegnsæi í þjóðfélaginu og standi gegn tilraunum til að varpa slæðu yfir upplýsingar, sem eru viðkvæmar, af því að þær varpa ljósi á spillingu í þjóðfélaginu. Því miður skortir nokkuð á, að sá stuðningur sé fullnægjandi.

Geir Haarde er fulltrúi kerfis, sem frægðar- og mektarfólk er að reisa til að skilja sig frá almenningi og draga úr möguleikum hans til að skilja gangverkið í þjóðfélaginu.

DV