Tveggjaheimaþjóð

Greinar

Sveigjanleiki okkar greinir okkur frá meirihluta auðþjóða heims. Við búum í sambýli við náttúruna og höfum samt að nokkru leyti náð tökum á stafrænum atvinnuvegum, sem verða þungamiðja í störfum auðþjóða um og eftir næstu aldamót. Við erum tveggjaheimaþjóð.

Erlendar auðþjóðir hafa misst meira af sambandi sínu við fortíðina. Þar er fólk, sem snæðir hamborgara af kúm og fer í mótmælaaðgerðir til stuðnings hvölum. Þetta eru þjóðir, sem voru lengi búnar að lifa af iðnaði og kaupsýslu, áður en þjónusta varð höfuðatvinnugrein þeirra.

Við höfum hins vegar stokkið beint úr fortíðinni inn í framtíðina án þess að staldra mikið við í nútímanum. Hátt hlutfall þjóðarinnar kann til verka til sjós og lands, þar sem náttúruöflin leika veigamikið hlutverk. Mikill hluti Íslendinga gáir enn til veðurs á hverjum morgni.

Náttúran lætur ekki að sér hæða. Snjóflóð minna okkur á erfitt sambýli við náttúru sjávarsíðunnar. En ekki þarf slíkar hamfarir til þess að valda sjómönnum erfiðleikum. Á hverjum vetri láta menn lífið við að draga björg í bú, alveg eins og verið hefur frá ómunatíð.

Skipsbrúin er raunar orðin að snertifleti náttúru og stafrænu. Utan við gluggann hamast Ægir konungur, en fyrir innan mala tölvurnar hver upp af annarri. Brúin lítur raunar víða út eins og stjórnstöð í geimfari bíómyndanna. Fiskveiðar eru orðnar að hátæknigrein.

Sjómenn standa að jöfnu í báðum heimum, í heimi náttúrunnar og heimi stafrænunnar. Starfsskilyrði þeirra spanna fortíð og framtíð. Þetta geta menn, af því að þeir eru sveigjanlegir, og þeir verða af þessu sveigjanlegir. Veiðimaður og tölvutæknir eru einn og sami maður.

Spennan milli fortíðar og framtíðar er ekki svona hvöss í landbúnaði, af því að tölvutæknin er ekki komin þar á eins hátt stig og í sjávarútvegi. En bóndinn býr þó í senn í sambýli við náttúruna og við aragrúa af tækjum, sem gera hann að eins konar tækjafræðingi.

Flestir þéttbýlisbúar á Íslandi eiga rætur í öðrum hvorum jarðveginum eða báðum, veiðimennskunni til sjávar og hjarðmennskunni til sveita. Þetta mótar afstöðu okkar til nútímans og framtíðarinnar. Við erum veiðimenn og hjarðmenn í hugsun, en ekki ræktunar- og iðnaðarmenn.

Þetta er bæði kostur og galli. Það veldur á ýmsan hátt erfiðleikum í efnahagslífinu, að Íslendingar taka alla hluti með trompi, en vantar aftur á móti seigluna. Við sökkvum okkur í ævintýri nýrra atvinnugreina, en lendum oft á skeri, þegar reynir á úthald og útsjónarsemi.

Um leið og veiðimennskan og hjarðmennskan í hugsun okkar veldur okkur erfiðleikum í nútímanum, skapar hún okkur möguleika í framtíðinni. Sjómannsþjóð á sumpart betri möguleika á tölvuöld en ræktunarþjóð og stóriðjuþjóð. Hún hefur sveigjanleikann með sér.

Veiðimennskan og hjarðmennskan er mótuð af hviklyndi náttúrunnar, sem kallar á sveigjanleika og hæfni til skyndilegra ákvarðana. Veiðimennskan og hjarðmennskan gefa góðan efnivið í braskara og uppfinningamenn, hugbúnaðarhöfunda og sölumenn norðurljósanna.

Náttúran hefur vanið okkur við að taka skyndilegar ákvarðanir og gera skyndilegar breytingar á ákvörðunum. Þetta viðhorf hentar í ýmsum nýjum atvinnugreinum, sem horfa til framtíðarinnar, þótt það hafi verið okkur fjötur um fót í hefðbundnum nákvæmnisiðnaði.

Þannig stöndum við öðrum fæti í fortíðinni og hinum í framtíðinni. Við erum í senn börn náttúrunnar og börn stafrænnar tölvualdar. Við erum tveggjaheimaþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV