Tveim öldum síðar

Greinar

Upplýsingalögin nýju, sem taka gildi hér á landi um áramótin, eru samin og sett í góðri trú og gera gagn. Þau flytja okkur á þessu sviði úr miðöldum og fram til þess ástands, sem var í Svíþjóð, þegar prentfrelsislög voru sett þar árið 1766, fyrir tvöhundruðogþrjátíu árum.

Áður höfðu stjórnvöld gert nokkrar tilraunir til að setja upplýsingalög í vondri trú. Þær tilraunir til að efla leyndarrétt stjórnsýslunnar stóðu yfir frá 1972-1990. Fimm sinnum á tímabilinu dagaði uppi á Alþingi frumvörp um þetta efni. Atlaga kerfiskarla tókst ekki.

Nýju lögin eru í allt öðrum anda en frumvörpin, sem áður hefur dagað uppi. Það stefnir að opnun stjórnsýslunnar og takmörkunum á undantekningum, sem embættismenn og ráðherrar gætu fundið upp til að hafa hemil á upplýsingaflæði um gerðir stjórnvalda.

Nýju lögunum fylgir ítarlegt kennslurit frá forsætisráðuneytinu. Það skýrir einstök atriði laganna í smáatriðum og þrengir að möguleikum kerfiskarla til að túlka lögin í átt frá markmiðum þeirra. Saman eru lögin og kennsluritið markvert framfaraspor íslenzks lýðræðis.

Aldagömul hefð og raunar árþúsunda er fyrir því, að löggjafarþing og dómþing séu haldin í heyranda hljóði. Alþingi heldur fundi sína fyrir opnum tjöldum og réttarhöld eru sömuleiðis opin. Framkvæmdavaldið hefur hins vegar komið sér undan sviðsljósi fólks og fjölmiðla.

Sænsku prentfrelsislögin frá 1766 festu í sessi þá meginreglu, að opinn væri aðgangur að gögnum löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds. Með íslenzku upplýsingalögunum frá 1996 er meira en tveim öldum síðar reynt að stíga feimnislegt skref í sömu átt.

Í millitíðinni hefur verið gengið lengra í opnun stjórnsýslu í sumum ríkjum Bandaríkjanna. Sólskinslög hafa verið sett í Flórída og víðar til að færast nær opinni stjórnsýslu. Meðal annars er tekið á tilraunum til að halda lokaða fundi til undirbúnings opnum fundum.

Íslenzku lögin taka ekki mið af þessari þróun síðustu tveggja alda. Þau gera í stórum dráttum ráð fyrir, að framkvæmdavaldið geti áfram haft miklu meiri leynd yfir störfum sínum en löggjafarvaldið og dómsvaldið mega. Þau setja leyndinni bara auknar skorður.

Fólk og fjölmiðlar verða til dæmis að vita, að eitthvert mál sé á seyði til að geta spurt um það. Framkvæmdavaldið er ekki skyldað til að upplýsa mál að eigin frumkvæði. Lögin gera ráð fyrir, að undanfari upplýsingamiðlunar sé eins konar leki “eftir öðrum leiðum”.

Hvorki lögin né kennsluritið skilgreina nánar réttarstöðu lekans. En orðalagið “eftir öðrum leiðum” er notað um eins konar skilyrði eða upphaf þess ástands, sem leiðir til, að kerfið neyðist til að gefa umbeðnar upplýsingar. Fáum við kannski “lekalög” í kjölfarið?

Nýju lögin víkja ekki til hliðar eldri tölvulögum, sem eru þröng í anda og setja óhæfilegar skorður við rennsli upplýsinga. Þau lög hafa gert Tölvunefnd að dómstóli, sem lokar bílaskrá fyrir öðrum en bílasölum, reynir að loka skattskrám og takmarkar ættfræðirannsóknir.

Í upplýsingalögunum og kennsluriti þeirra er léttilega skautað á marklitlu og víðtæku orðalagi á borð við “sanngjarna” leynd yfir fjárhagsmálum einstaklinga og “mikilvægum” fjárhags- eða viðskiptahagsmunum fyrirtækja. Þetta óljósa orðalag víkkar leyndarsvigrúm kerfisins.

Nýju lögin eru þannig á ýmsan hátt gölluð og gamaldags. En þau eru samin og sett í góðri trú og eru bót á því slæma ástandi, sem var fyrir gildistöku þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV