Þótt máltækið segi, að sjaldan valdi einn, þá tveir deili, á það ekki við um tilraunir stjórnar Serbíu og Júgóslavíuhers til landvinninga á hendur nágrannaríkjunum í vestri og norðri, Bosníu-Herzegovínu, Króatíu og Slóveníu. Ábyrgðin er nær eingöngu serbnesk.
Í Serbíu og Júglóslavíuher er síðasti útvörður kommúnismans í Evrópu. Oddviti þessara leifa af úreltu þjóðskipulagi er Slobodan Milosevic, sem hefur hangið í völdum með því að framleiða óvini í útlöndum og æsa Serba til blóðugra átaka og landvinninga gegn þeim.
Að svo miklu leyti, sem ábyrgðin á blóðbaðinu í Króatíu fyrst og síðan í Bosníu-Herzegovínu er ekki á Serbíu og Júgóslavíuher, er hún á oddvitum Bandaríkjanna, George Bush forseta og James Baker utanríkisráðherra, sem nú hafa blessunarlega snúið við blaðinu.
Í fyrrasumar var Baker í Júgóslavíu til að lýsa bandarískum stuðningi við sambandsstjórn Júgóslavíu gegn aðskilnaðarsinnum einstakra ríkja þess. Þessi afstaða var hluti af dálæti Bandaríkjamanna á útlendum sambandsríkjum, sem þeir telja æðri þjóðríkjum.
Um leið var þetta hluti af stórfelldum mistökum í bandarískri utanríkisstefnu, þar sem hið gamla var stutt gegn hinu nýja í Austur-Evrópu. Gorbatsjov var studdur gegn Jeltsín, Kreml gegn nýfrjálsum ríkjum við Eystrasalt og Júgóslavía gegn Króatíu og Slóveníu.
Þetta leiddi til, að Bandaríkin voru meðal síðustu ríkja vestursins til að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsríkjanna og ráku áróðursherferð gegn þýzku frumkvæði að viðurkenningu Króatíu. Nú hefur Bush loksins snúið við blaðinu og styður Bosníu-Herzegovínu.
Örvæntingarfullar tilraunir vestrænna aðila til að koma á sáttum í Króatíu hafa vakið þá til skilnings á, að vandamálið á Balkanskaga er ekki ótímabært sjálfstæði þjóðríkja, heldur Milosevic Serbíuforseti, kommúnistaflokkur Serbíu og stjórnendur Júgóslavíuhers.
Þessar staðreyndir hafa frá upphafi verið ljósar leiðarahöfundum DV. Það er því ánægjuefni, að bandarískir fréttaskýrendur eru nú loksins komnir á sömu skoðun heilu ári síðar og hafa hvatt stjórnvöld sín til að taka þá afstöðu, sem nú er að mótast vestanhafs.
Lykillinn að kúvendingu vestrænna viðhorfa fólst í árásunum fyrr í vetur á perlu Adríahafsins, Dubrovnik. Þar sýndu Milosevic, kommúnistarnir og herstjórarnir, að þeir eru svo austrænir og forstokkaðir, að þeir beita sprengjum beinlínis gegn vestrænni menningarsögu.
Að undanförnu hefur Júgóslavíuher haldið uppi einhliða stríði gegn almenningi í Bosníu-Herzegovínu á sama hátt og áður gegn almenningi í Króatíu. Gerðar hafa verið loftárásir á höfuðborgina, Sarajevo. Í þessu felst ekki ágreiningur, heldur einhliða stríð.
Um leið hefur Milosevic staðið fyrir því að trylla serbneska íbúa í Bosníu-Herzegovínu til ofbeldis á sama hátt og hann var áður búinn að gera í Króatíu. Til þess hefur hann notað fjölmiðlun, sem minnir á Adolf Hitler, sífelldar og endurteknar lygasögur og rangfærslur.
Þannig hefur kommúnistum Serbíu tekizt að ná þriðjungi Króatíu á sitt vald og stefna nú að hinu sama í Bosníu-Herzegovínu. Gegn útþenslunni duga engin vettlingatök. Setja þarf Serbíu í algert hafn- og flugbann, vopna- og viðskiptabann, svo og pólitískt bann.
Vestrinu ber að slíta stjórnmálasambandi við kommúnistana í Belgrad og einangra þá efnahagslega, svo að þeir glati mætti og möguleikum til ofbeldis og útþenslu.
Jónas Kristjánsson
DV