Tveir draumar
Þriðjungur Bandaríkjamanna er hættur að trúa á bandaríska drauminn um, að hver sé sinnar gæfu smiður, að allir geti rifið sig upp úr fátækt með stefnufestu, þolinmæði og mikilli vinnu. Margir átta sig á, að þeir hafa puðað alla ævi án þess að finna öryggi og frið á leiðarenda ævinnar.
Stéttaskipting hefur harðnað í Bandaríkjunum. Yfirstéttin endurnýjar sig sjálf í auknum mæli. Lífskjörum meðaljónsins hrakar og öryggisleysi hans magnast. Barnadauði er meiri en í Evrópu og ævilíkur styttri, fátækt meiri og fjöldi fanga margfalt hærri. Bandaríkin færast nær þriðja heiminum.
Á sama tíma og bandaríski draumurinn er að verða gjaldþrota undir ofstækisstjórn George W. Bush forseta er að rísa nýr draumur austan hafsins, evrópski draumurinn, sem rís hæst í félagslegum markaðsbúskap. Skoðanakannanir sýna, að fólki líður betur í mildri Evrópu en í grimmum Bandaríkjunum.
Á þessu ári var reynt að skrá evrópska drauminn í fyrstu stjórnarskrá Evrópusambandsins. Hún á eftir langt ferli, en ljóst er, að þar er risið samfélag upp á hálfan milljarð manns, sem þénar meira en Bandaríkin og á 61 af af 140 stærstu fyrirtækjum heims, meðan Bandaríkin eiga bara 40.
Evrópumenn vinna til að lifa, meðan Bandaríkjamenn lifa til að vinna. Frí eru miklu meiri í Evrópu, vinnudagar styttri og vinnuvernd meiri. Samt er framleiðni meiri í helztu ríkjum Evrópu, svo sem Frakklandi og Þýzkalandi, heldur en í Bandaríkjunum og í evrópskum útnára þeirra á Bretlandseyjum.
Bandaríkjamenn hampa einstaklingsfrelsi, en Evrópumenn hampa samfélagi. Innifalið í því er virðing fyrir umhverfinu, tillit til langtímahagsmuna og sjálfbærrar þróunar. Þar taka menn þreytandi sáttaferli fram yfir hótanir og styrjaldir. Þar er ríkisvaldið jarðbundið, en vestan hafs sækir það í trúna.
Evrópa er ekkert himnaríki. Evrópusambandið er spillt og flókið embættismannakerfi. En það hefur fært Íslandi endalausa röð af reglugerðum, sem takmarka svigrúm stjórnvalda til að stýra okkur að eigin geðþótta. Það hefur búið til góðar leikreglur fyrir líf fólks um alla álfuna.
Evrópski draumurinn er hæfari til að mæta 21. öldinni en bandaríski draumurinn, býr ekki til suðupott þjóða eins og sá bandaríski hefur gert, heldur leggur hann áherzlu á, að þúsund plöntur blómstri með ótal tungumálum, siðum og sögu í þjóðfélagi, þar sem mildin er meira metin en harkan.
Evrópski draumurinn hafnar græðgi og grimmd hins tryllta markaðshagkerfis. Með félagslegum markaðsbúskap reynir hann að styðja fólk til að verða sinnar eigin gæfu smiðir.
Jónas Kristjánsson
DV